29.03.1973
Neðri deild: 73. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2865 í B-deild Alþingistíðinda. (2262)

198. mál, sveitarstjórnarlög

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Það er rétt, sem hv. þm. Lárus Jónsson sagði, að landshlutasamtök hafa nú starfað um skeið í landinu og nokkur reynsla er af þeim fengin. Það er enn fremur rétt, að það er þegar farið að gera ráð fyrir tilvist þeirra í einstökum lögum. Hins vegar hefur ekki verið sett sérstök löggjöf um þessi landshlutasamtök. Út af fyrir sig er eðlilegt, að fram komi ósk um, að farið sé að setja lagaákvæði um landshlutasamtökin og þeim þannig tryggður ákveðinn sess og ákveðin staða í stjórnkerfinu. Ég get vel skilið slíka ósk og tel hana út af fyrir sig ekki óeðlilega. Hins vegar get ég samt ekki mælt með því, að það sé hrapað að löggjöf um þessi efni með þeim hætti, sem lagt var til af hv. þm. Lárusi Jónssyni. Ég held, að það sé eðlilegt, að Alþ. íhugi þessi mál betur og gefi sér betri tíma til þess en kostur verður á á þeim tíma, sem nú er eftir þings.

Það er svo, að þetta er ekki sérstaklega einfalt mál. Þegar á að fara að setja ákvæði í sveitarstjórnarlög um landshlutasamtök, þá held ég fyrir mitt leyti, að það sé óhjákvæmilegt að líta á sveitarstjórnarl. í heild og athuga ýmis atriði í þeim, því að það er a. m. k. ekkert óeðlilegt, þó að í sambandi við lögfestingu landshlutasamtaka og setningu ákvæða um réttarstöðu þeirra komi upp spurning um önnur sveitarstjórnarumdæmi, sem fyrir eru, og hvort ekki sé þá ástæða til að íhuga hlutverk þeirra að einhverju leyti, hvort það sé t. d. ekki ástæða til að taka til endurskoðunar ákvæðin um sýslunefndir í sambandi við setningu ákvæða um landshlutasamtök. Ég held, að það verði að ákveða landshlutasamtökunum alveg ákveðna stöðu í stjórnkerfinu og þá með tilliti til stjórnkerfisins í heild, og ég held, að það verði ekki gert, svo að vel fari á, með því að skjóta inn í sveitarstjórnarl. einum kafla um landshlutasamtökin, án þess að litið sé á nokkur önnur atriði í sveitarstjórn og sveitarstjórnarl. í sambandi við það. Ég held, að það verði ekki gert, svo að vel fari á.

Enn fremur er þess að gæta, að þetta frv., sem hér er lagt fram, er samið af landshlutasamtökunum sjálfum eða sambandi þeirra. Þó að það megi segja, að þau viti að mörgu leyti gleggri skil á þessu en aðrir, þá er það nú svo, að það er sjaldnast heppilegt að selja þeim sjálfdæmi um setningu laga, sem lögin eiga sérstaklega að lúta að. Ég held, að það sé heppilegra, að það sé litið á það frá almennara sjónarmiði, áður en sett eru lög um samtök sveitarfélaga. Þess er þá líka að gæta, að samtökin hafa þróazt ýmislega, eins og kemur fram og er viðurkennt í þessu frv. Samþykktir þeirra eru mismunandi, og þeim hefur ekki enn þá gefizt kostur á eða ekki tekizt að setja þær í sama form, en gert er ráð fyrir því í þessu frv., að þeim sé gefinn ákveðinn frestur til þess.

Það er ákaflega stórt mál, hvernig á að skipta verkefnum og valdi á milli sveitarfélaga og ríkisins, og það er málefni, sem vissulega þarfnast nú mjög endurskoðunar. Það er málefni, sem rætt er víða um lönd og er til athugunar, og það er vissulega tími til þess kominn, að það sé tekið til alhliða athugunar hér. Það koma mörg sjónarmið þar til greina. Það getur vel verið, að það sé heppilegasta stefnan í því efni að sumu leyti að skilja alveg á milli og segja, að þessi verkefni skuli vera í höndum sveitarfélags alveg, en önnur verkefni skuli aftur á móti vera alveg í höndum ríkisins. Ég hygg þó fyrir mitt leyti, að það sé ástæða til að staldra við og athuga það, áður en slík skref eru stigin til fulls. Ég hygg, að þar megi hafa nokkurt sjónarmið af reynslunni. Ég held, að það geti farið vel á því í mörgum efnum, að báðir þessir aðilar eigi með tilteknum hætti hlut að sama verkefni eins og hefur reyndar tíðkazt hér um langa hríð. Og ég held, að það þurfi að athuga það, áður en horfið verður frá því. En hitt held ég, að það þurfi mjög að vinna að því að færa fleiri verkefni og meira vald í hendur sveitarstjóranna. En þá verður jafnframt að sjá þeim fyrir tekjum til þess að standa undir þeim verkefnum. Og þar held ég, að aðalleiðin hljóti að vera sú, að sveitarfélögin fái sérstaka tekjustofna, sem þau verða sjálf að ákveða, hvort og hvernig þau nota.

Þegar núv. stjórn var mynduð, var þetta einmitt eitt þeirra atriða, sem sérstaklega var rætt um, og í málefnasamningi þeim, sem hér hefur verið oftlega nefndur á hv. Alþ., er einmitt sérstakt ákvæði um þetta. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Endurskoða ber skiptingu verkefna og valds á milli ríkis og sveitarfélaga í því skyni að auka sjálfsforræði byggðarlaga. Haft verði samráð við Samband ísl. sveitarfélaga og samtök sveitarfélaga í einstökum landshlutum um þessa endurskoðun:

Það hefur enn ekki gefizt tóm til þess að framkvæma þessa endurskoðun, en það mun verða gert, og ég álít, að það sé eðlilegasti hátturinn í þessu efni, að það verði af ríkisvaldsins hálfu skipuð mþn. til þess að fjalla um þetta mál og taka það allt til alhliða skoðunar, taka það til skoðunar í samráði, eins og sagt er þarna, við heildarsamtök sveitarfélaga, en líka í samráði við landshlutasamtökin. Og ég held, að þetta verkefni sé svo víðtækt, að þessi þáttur, sem ákvæði eru um í þessu frv., sé ekki nema einn af þeim mörgu þáttum, sem þar koma til greina. Ég tel þess vegna eðlilegt, að sú n., sem fær þetta frv. til athugunar, afgreiði það með þeim hætti að vísa því til stjórnarinnar. Ég tel hins vegar óráð að hrapa að því að lögfesta frv. þegar í stað á þessu þingi athugunarlítið og án þess að það sé hægt að hafa nokkra heildarsýn yfir allt verkefnið.

Ég vil svo aðeins geta þess, að ég er því algerlega andvígur, að það verði fest í lögum, að það skuli vera ein landshlutasamtök fyrir Norðurland allt, fyrir kjördæmin tvö. Aðalreglan í þessu frv. er sú, að það séu landshlutasamtök eða sveitarfélagasamtök í hverju kjördæmi, og þetta er eina undantekningin þar frá. Þetta hefur myndazt svo á Norðurlandi. Ég álít eðlilegt, að Norðlendingar sjálfir segi til um það, hvernig þeir vilja skipa þessum málum í framtíðinni. Ég tel ekki ósennilegt, að þróunin þar verði á sömu lund og annars staðar, að það verði sérstakt sveitarfélagasamband fyrir hvort kjördæmið um sig. Og það er auðvitað eðlilegast að hafa eitthvert kerfi í þessum hlutum og reyndar ekki annað sæmilegt, ef á að fara að byggja upp sveitarfélagasamtökin eða landshlutasamtökin sem hlekk í stjórnkerfi, en það gildi samræmdar reglur um það. En í öllu falli vil ég ekki á þessu stigi fara að binda hendur manna á þessu svæði um það með fyrirmælum frá löggjafarvaldinu, að þeir skuli vera í einu og sama fjórðungssambandinu. Þess vegna mundi ég ekki greiða þessu ákvæði atkv., þó að til þess kæmi, að um það þyrfti að greiða atkv. hér á þingi, heldur mundi þá fylgja eða flytja brtt. um þetta atriði.

En aðalerindi mitt hér upp í ræðustólinn í sambandi við þetta mál var einmitt að benda á það ákvæði í málefnasamningnum, sem ég hef gert, og benda á það, að ætlunin er að taka þessi mál til heildstæðrar athugunar, og ég álít heppilegra, að frv. þetta verði látið bíða eftir þeirri athugun og það komi fram sem liður í þeirri heildarendurskoðun, sem fram á að fara, um þetta efni.