29.03.1973
Neðri deild: 73. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2885 í B-deild Alþingistíðinda. (2269)

198. mál, sveitarstjórnarlög

Flm. (Lárus Jónsson) :

Herra forseti. Ég vil verða við tilmælum forseta, ég hélt bara, að flm. mættu tala þrisvar, en það kann að vera rangt hjá mér. — Ég vil þá fyrst lýsa yfir undrun minni yfir málflutningi hæstv. félmrh. Hér var hann að fjalla um mál, sem heyrir raunar undir hann sjálfan og hann hefði átt sjálfur að vinna að því að leysa. En við heyrðum, að það var allt annar gállinn á hæstv. ráðh., þegar hann var hér í ræðustól, en að hann vildi leysa þetta mál, heldur vildi hann hreinlega drepa því á dreif. Og það var ekki hægt að skilja annað á honum heldur en hann væri einlægur andstæðingur þessa nýja „apparats“, sem þarna ætti að fara að setja upp til höfuðs öðrum sveitarstjórnareiningum í landinu. Ég vil lýsa yfir því, að mér þótti þó vænt um að heyra, að hæstv. ráðh. vildi fara að tala við Samband ísl. sveitarfélaga. Mér hefur skilizt, að það væri ekki allt of oft, sem hann vildi hafa samráð við það. En hæstv. ráðh. sagði hér og lagði á það þunga áherzlu, að landshlutasamtökin yrðu ekkert starfhæfari með þessu frv., þótt að lögum verði. Nú liggur það fyrir, að öll landshlutasamtökin hafa beðið um þessa lagasetningu og beðið um, að henni yrði flýtt, og fulltrúaráð Sambands ísl. sveitarfélaga og stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga. Samt segir ráðh.: Þetta frv. ef það verður að lögum, gerir þessa aðila ekkert starfhæfari. Sem sagt, ráðh. segir: þeir, sem vinna að þessum málum, segja tóma vitleysu, ég veit mínu viti, ég veit miklu betur en þeir.

Ég vil benda á, að það, sem hæstv. ráðh. sagði um framtíð sýslufélaganna, kemur ekki þessu frv. nokkurn skapaðan, hrærandi hlut við. Það er mál út af fyrir sig, hvernig verður farið með sýslufélögin, hvernig löggjafinn mótar þeirra starfsvettvang. Hér er verið að tala um, eins og hæstv. ráðh. raunar sagði líka, hér er verið að staðfesta orðinn hlut. Landshlutasamtökin eru orðin til. Þetta er einungis verið að staðfesta með lögum, og það kemur ekki því við, hvað verður síðar gert við sýslufélögin. Ég viðurkenni að það er viðkvæmt mál, en það kemur þessu ekkert við, ekki skapaðan hlut.

Eins taldi hæstv. ráðh., að það gægðist hér fram í gegnum frv., að það væri alls staðar ágreiningur um allt, og ég tel, að hæstv. ráðh. hafi talað af lítilli þekkingu um það. Hann benti m. a. á, að það væri ágreiningur um það, hversu margir ættu að vera í stjórn, af því að það væru ákvæði um, að það gætu verið 5–11 menn. Hér er eingöngu um það að ræða, að hér eru misstór samtök, og þess vegna þarf að hafa ákvæði, sem segi ekki bara, að það skuli vera 5 menn t. d. í Fjórðungssambandi Norðlendinga og sams konar fjöldi í samtökunum á Austurlandi, sem er miklu minna samband. Frv. gerir ráð fyrir því, að Fjórðungssamband Norðlendinga starfi, og þar hefur verið 11 manna fjórðungsráð, sem er eðlilegt, vegna þess að þar er um mjög stórt samband að ræða. Þarna er ekki um ágreining að ræða, hversu margir eigi að vera í stjórn, heldur þarf að miða ákvæðin við ólíkar aðstæður.

Hann sagði líka, að það væri ekki aldeilis, að það ætti að vera um að ræða lýðræðislega uppbyggingu í því að kjósa á aðalfundi samtakanna, minni sveitarfélögin yrðu algerlega undir í því efni. Hér er um algerlega fráleita fullyrðingu hjá hæstv. ráðh. að ræða, því að ef hann hefði athugað þetta augnablik, þá sæi hann, að í flestum landsfjórðungum hafa minni sveitarfélögin fleiri fulltrúa en hin stóru, minni sveitarfélögin í heild. Og það hefur oft á tíðum borið á góma hjá stóru sveitarfélögunum, sem hæstv. ráðh. telur, að ráði lögum og lofum í þessum samtökum eftir þessu frv., að það hefur einmitt frekar borið á góma hjá þeim, að þau ráði þar of litlu. Þess vegna telja þau sig afsala sér því að geta haft hlutfallsleg áhrif á þessi samtök. Heldur hæstv. ráðh., að 7 menn, sem 10 þús. manna byggðarlag kýs, ráði hlutfallslega jafnmiklu og byggðarlag, sem hefur 300 manna íbúafjölda og kýs einn fulltrúa? Heldur hann, að 10 þús. manna byggðarlagið hafi hlutfallsleg áhrif á mótun stefnu samtakanna miðað við höfðatölu, eins og hann sagði? Hér er um fáheyrða reikningskúnst að ræða, sem ég botna ekkert í.

Þá vil ég einnig upplýsa hæstv. ráðh. um það, að fram til þessa hafa a. m. k. gjöld til landshlutasamtaka sveitarfélaga frá minni sveitarfélögum verið miklum mun minni en frá þeim stærri. Ég skal taka sem dæmi Fjórðungssamband Norðlendinga, það hefur komið hér oft á dagskrá. Það kann að vera, að mig rangminni það, en mig minnir, að Akureyrarkaupstaður hafi stundum staðið undir 30–40% af kostnaði við rekstur þess sambands, a. m. k. fyrstu árin, og þar var hlutfallslega um langmestu upphæðina að ræða frá einu sveitarfélagi. Ég er ekki að segja þetta til þess að telja það eftir, heldur einungis til þess að sýna fram á, hvað það er fáheyrt, þegar hæstv. ráðh., sem á að fjalla um þessi mál, kemur hér og er með alls konar úrtölur og fer svo með svona röksemdir algerlega út í bláinn. Ég verð að segja það, að ég hef sjaldan orðið fyrir því hér á hv. Alþ. þann stutta tíma, sem ég hef verið hér, að verða jafnhissa og þegar hæstv. ráðh. var að flytja þessa ræðu, því að mér fannst hún vægast sagt byggð á algerri vanþekkingu um mál, sem hann hefði sjálfur átt að hafa forgöngu um að leysa.