29.03.1973
Neðri deild: 73. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2887 í B-deild Alþingistíðinda. (2270)

198. mál, sveitarstjórnarlög

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Ég er alveg andvígur því, sem hv. þm. endaði mál sitt á, að félmrh. hefði átt að eiga frumkvæði að svona lagasetningu. Ég tel það alveg rétt að farið, að sveitarfélögin sjálf leggi grunninn að svona löggjöf og setji síðan form á lagasetninguna í gegnum sín heildarsamtök. Samband ísl. sveitarfélaga. Ég tel því, að málið hafi borið alveg rétt að, og er andvígur hv. þm. um þetta.

Ég er alveg undrandi á því, ef hv. þm. skynjar ekki neitt í þá átt varðandi smærri sveitarfélögin, sem eiga að hafa þarna einn fulltrúa móti allt upp í 7 hjá stærri félögunum, þó að það sé kannske ekki alveg hlutfallslega eftir höfðatölunni mismunað sveitarfélögum þarna, þá er veldi stóru sveitarfélaganna þarna margfalt á við hin, og það er gefinn hlutur, að þau verða einskis megandi í þessum samtökum, hin smærri sveitarfélög. Og það er það, sem hefur gert, að þau eru treg til þess að fara í þessar samtakaheildir af frjálsum vilja.

Ég undraðist mjög, þegar hv. þm. staðhæfði, að tillit til þeirra félagseininga sveitarstjórnarmála, sem til eru í landinu, eins og sýslufélögin, komi þessu máli ekkert við. Ég hef engan mann heyrt vera svo haldinn bíræfni og ósvífni að halda slíku fram. Hv. 5. þm. Norðurl. v., Pálmi Jónsson, átti ekki þessa eiginleika til, því að hann viðurkenndi, að þetta væru mjög nátengd mál og vandasöm og yrði að huga að þeim mjög gaumgæfilega. Þar var sanngirnin alveg eins og vera bar. En hitt er óskammfeilni, að halda því fram, að þessir málefnaþættir komi ekki hvor öðrum við.

Ég skal ekki lengja þessa umr. mína, þetta er 1. umr. um málið, en ég vil fullyrða, að þessi mál þarf að skoða í heild, og þau verða ekki leyst farsællega með því, að litið sé alveg fram hjá öðrum þáttum þessa máls. Það væri óhyggilegt, og það er mergurinn málsins.