29.03.1973
Neðri deild: 73. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2887 í B-deild Alþingistíðinda. (2271)

198. mál, sveitarstjórnarlög

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mjög, en ég kann ekki við þann málflutning, sem fram hefur komið hjá talsmönnum þessa frv. Þeir sögðu það báðir, að ég hygg, hv. þm. Lárus Jónsson og hv. þm. Ólafur G. Einarsson, að það væri enginn ágreiningur um það á Norðurlandi, hvort ætti að vera eitt fjórðungssamband eða hvort ætti að vera sérstakt kjördæmissamband fyrir hvert kjördæmi um sig (Gripið fram í.) Þeir sögðu það. (Gripið fram í.) Þeir sögðu, að það væru utanaðkomandi menn, sem væru að vinna að þessu. Hverjir eru þeir utanaðkomandi menn? Það er rétt, að þeir svari því. Það má kannske segja, að þm. séu utanaðkomandi menn, en ég vil ekki fallast á það. En látum svo vera. Eru það ekki aðrir en þm., sem hafa fjallað um þessi mál? Jú. Ég get upplýst þessa tvo hv. þm., sem þykjast vita svo vel, hvað fram fer í Norðurl. v., og hv. 5. þm. Norðurl. v. gæti líka frætt þá um það, að á Sauðárkróki var s. l. haust fundur sveitarstjórna og alþm. fyrir Norðurl. v. Þar voru þessi mál mjög rædd, og þar var gerð samþykkt, þar sem bæjarstjórn Sauðárkróks var falið að hafa frumkvæði um að kanna það hjá sveitarstjórnum í Norðurl. v., hvort þær vildu ekki vera sér um samband. Ekki virðist hafa verið hirt um þetta. Og án þess að ég ætli að fara að gera nákvæma grein fyrir því, hvað fram kom á þessum fundi, þá held ég, að það sé ósköp ýkjulaust hægt að segja, að það hafi verið yfirgnæfandi meiri hl. þeirra manna, sem tóku til máls, sem lét í ljós þá skoðun, að það væri heppilegra að vera í sérstöku sambandi. En hitt er rétt, að það voru aðrar raddir, sem komu þar líka fram í aðra átt. Og það er ekkert óeðlilegt, þó að það sé ágreiningur um þetta. Það, sem ég hef sagt, er einmitt það sama og þeir sögðu, að það væru heimamenn, sem ættu að ráða þessu. En það eiga þeir ekki að gera eftir þessu frv., og það er það, sem ég benti á og hafði á móti. Þar á að vera lögfest, að það skuli vera eitt samband. Það er það, sem ég gerði aths. við.

Hv. þm. Lárus Jónsson talaði um það af miklum fjálgleik, að það stæði öðruvísi á á Norðurlandi en í hinum kjördæmunum, hin kjördæmin væru svo afskaplega afmörkuð landfræðilega, þar kæmi enginn vafi til greina. Norðurland allt væri ein landfræðileg heild. Nú man ég ekki betur en það hafi verið gerð samgöngumálaáætlun, sem kennd er við Norðurland. En hefur nú ekki verið haldið sig alveg nákvæmlega við þau skýru landfræðilegu mörk. sem þar eiga að vera? Ég veit ekki betur en það séu teknir einn eða ég held tveir hreppar Strandasýslu með í þá áætlun, og það er nú eins og mig minni, að hv. þm. Lárus Jónsson hafi unnið að atvinnumálaáætlun fyrir Norðurland, og ekki man ég betur en að með í þá áætlun slæddist einn eða kannske tveir hreppar. sem tilheyra Austurlandskjördæmi, þannig að landfræðilegu mörkin eru ekki alveg eins skýr og hann vill vera láta.

Það er eðlilegt, að hvert kjördæmi fyrir sig myndi sitt samband, og það er einmitt eðlilegt, að það sé málsvari kjördæmisins og tengiliður við þm. Það er ekkert óeðlilegt, þó að við þm. Norðurl. v. höfum orðið varir við það og höfum fundið það, a. m. k. sumir hverjir, að æskilegt væri að hafa í okkar eigin kjördæmi sérstakan málsvara fyrir það, sérstakan tengilið við það, sem við gætum haft samband við og þeir við okkur. Ég held, að við höfum alveg full rök í þessu fram að færa og það sé eðlilegt að taka það til athugunar, áður en þetta er lögfest, enda féllust þeir á, að það gæti verið eðlilegt að slaka hér á, og þá gæti út af fyrir sig kannske orðið samkomulag um það atriði. En það er ekki í þessu frv. gert ráð fyrir því. Það er gert ráð fyrir að lögfesta Norðurland allt eitt.

Hv. þm. Lárus Jónsson taldi, að þetta hefði verið samþ. með miklum áhuga og lögð á það mikil áherzla í fjórðungsráði. Ég skal ekki fullyrða um það, hvort bæjarfulltrúi Sauðárkróks hefur verið staddur á þeim fundi, en nær er mér að halda, að hann hafi ekki verið það, þó skal ég ekki fullyrða um það. En um áherzluna vil ég segja það, að hún er ekki meiri en svo, að samkv. þeirri ályktun, sem hann las, gat það eftir atvikum samþ. það, og venjulega skil ég það orðalag svo, að menn séu ekki allt of hrifnir af því, sem þar er um að ræða. Nei, eftir atvikum gat það sætt sig við það, hefði kannske verið rétt að hafa þarna.

Þetta var það, sem ég vildi taka fram nánar um þetta atriði, sem er út af fyrir sig ekki aðalatriðið í þessu frv. Aðalatriðið um er auðvitað það, hvort það er nægilega vel undirbúið og hvort það er svo úr garði gert, að það sé rétt að taka það út úr og gera það að lögum. Ég fór ekki nákvæmlega út í það í minni frumræðu að gera grein fyrir því, í hverju þessu frv. væri ábótavant, en benti aðeins á hitt, að það væri eðlilegt að skoða þessi mál í miklu meiri heild. En hæstv. félmrh, hefur nú sýnt fram á, hvað þar skortir á, að þetta frv. sé undirbúið svo sem það ætti að vera, og það er býsna margt, þegar farið er að skoða þetta, sem er þannig, að það rekur sig hvað á annars horn.

Ég verð að segja það, að ég tel ákvæðin um hlutverk þessara landshlutasamtaka, sem er að finna í 112. gr., að vísu fallega stefnuyfirlýsingu, en ekkert meira. Þessum landshlutasamtökum er ekki fengið neitt ákvörðunarvald, að mér sýnist, um eitt eða neitt, nema þá um að skattleggja sveitarfélögin. (LárJ: Það er hægt að flytja brtt. um það.) Já, já, það er hægt að flytja brtt. um það. En þetta sýnir, að málið hefur ekki verið grandskoðað eða hugsað niður í kjölinn. Það er aðeins, að það á að annast ráðgjafastarf, eins og þarna segir, í þágu samtakanna, og vinna að sameiginlegum hagsmunum sveitarfélaga og héraða í umdæmi sínu og landshlutans alls. Hvað er sagt með þessu? Það er ekki mikið. Það er ekki bent á nein ákveðin mál, sem þessi landshlutasamtök eiga að hafa með höndum, nema það, sem þegar stendur í lögum um Framkvæmdastofnunina, að áætlanir eiga að vera gerðar í samráði við landshlutasamtökin. (Gripið fram í.) Já, af því að það sé svo lítils virði. Það má rétt vera hjá þm., að það sé þannig úr garði gert, að það geri ekki skaða, en gagnið er þá líka heldur lítið, held ég. Og ég held, að það væri sæmilegra að gera það þannig og ganga frá því þannig, að það væri einhver veruleg stoð og eitthvert hald í þessum samtökum, eftir að löggjöf hefur verið sett um þau, og þau svifu ekki raunar sem áður í jafnlausu lofti og þau eru nú. Það tek ég undir, að það er eðlilegt, að sett sé löggjöf um þau beint, og það er eðlileg ósk frá þeirra hálfu, að þau fái fastari grundvöll. En þá þarf líka að athuga betur um það, hver sá grundvöllur á að vera. Eins og ég hef þegar sagt, þarf að athuga þetta í sambandi við allt stjórnkerfið. Þarna er t. d., eins og hæstv. félmrh, benti á um fulltrúatöluna, vikið frá alveg rótgrónum hugmyndum í stjórnkerfi sveitarfélaga. Hrepparnir, hvort sem þeir eru stórir eða smáir, kjósa hver sinn fulltrúa og aðeins einn fulltrúa í sýslunefnd. Frá þessu er horfið í þessu frv. En sem sagt, þarna á að vera mismunandi eftir fólksfjölda. En svo eru það sýslunefndirnar.

Ég hefði haldið, að sýslufélögin væru aðilar a. m. k. í sumum þessum landshlutasamtökum. En eftir þessu frv. á að vera komið undir samþykki samtakanna, hvort sýslufélögum er veitt aðild. Í 111. gr. 2. mgr. segir: „Samtökunum er heimilt að veita sýslufélögunum aðild að landshlutasamtökunum: Sýslufélögin sem slík eiga enga heimtingu á því að gerast aðilar. Það þarf að sækja um það, og það er undir ákvörðun landshlutasamtakanna komið, hvort þau fá aðild. Fái þau aðild, þá er það svo, að hvert sýslufélag, hvort sem það er stórt eða smátt, á bara að hafa einn fulltrúa og einn til vara.

Mér sýnist sem sagt, að þetta mál geti ekki beðið neitt tjón af því, heldur hljóti það að verða til gagns fyrir samtökin og þá, sem vilja vinna að velgengni þeirra, að þetta mál sé athugað betur, og það á einmitt að gera eins og hæstv. félmrh. drap á, setja nefnd hinna færustu manna til að athuga það, og það á að gerast í sambandi við það víðtækara verkefni, sem gert er ráð fyrir í málefnasamningnum, að tekið sé til gagngerðar endurskoðunar, verkefnaskiptingu á milli sveitarfélaga og ríkis.