29.03.1973
Neðri deild: 73. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2897 í B-deild Alþingistíðinda. (2275)

207. mál, Laxárvirkjun

Flm. (Bragi Sigurjónsson) :

Herra forseti. Ég skal vera mjög stuttorður. — Hv. þm., sem hér talaði áðan, taldi, að það væri búið að leysa Laxárvirkjunarmálið á mjög ágætan hátt, að honum fannst. Lausnin er engin, aðeins, eins og ég gat um og öllum mun finnast, sem málið kynna sér, hrein nauðungasætt og sætt, sem aldrei verður haldin af hálfu þeirra, sem seinna koma til með að ráða þessum málum í Þingeyjarþingi og Vaðlaþingi, því að nauðungarsætt er engin skylda að halda. Hann var að ræða um lögfræðingana. Við vitum það, að lögfræðingar kunna ýmis hellibrögð. Við getum t. d. minnt á lögbannið, sem var sett hér upp í Mosfellssveit á lagningu hitaveituæðar ofan úr Mosfellssveit til Reykjavíkur. Það tafði málið í heilt sumar a. m. k., en reyndist ekki hafa við nein rök að styðjast, þegar málið var loks kannað til botns. Lögbannsmálið við Laxá er ugglaust af sömu gerðinni. Það gat tafið, en það er álit fjölmargra lögfræðinga, að það mundi koltapast af hálfu landeigenda, ef það fengi að bíða svo lengi, að það væri dæmt í málinu.

Ég skal játa það, að ég hef ekki séð skýrslu sérfræðinganna, sem hv. þm. minntist á áðan, en ég hef talað við annan sáttanefndarmanninn, Ólaf Björnsson, og hann sagði mér, — ég held ég sé ekki að brjóta neinn trúnað, þó að ég hafi þau orð eftir honum, — að skýrslan væri þannig úr garði gerð, að hvor aðilinn sem væri gæti talið hana sér til framdráttar, bæði Landeigendafélagið og hinir, sem virkja vildu.

Og svo að lokum þetta: Ræða hv. þm. hér áðan var einkennandi um framkomu Framsfl. í þessu erfiða máli. Sumir flokksmenn voru á móti, sumir voru með, en engin stefna fannst hjá flokknum sem heild. Hv. þm. var þó heiðarlegur að því leyti, að hann var alltaf ákveðinn virkjunarandstæðingur og vatnaflutningaandstæðingur, enda ætlaði hann sér þá að stofna, eins og hann gerði fljótlega, vatnafélag um Skjálfandafljót, þó að svo tækist til hjá honum, þessum ágæta manni, sem aldrei vill gera á hlut þeirra, sem eiga lönd að vötnum, að hann gleymdi að tala við einn landeigandann, þegar vatnafélagið var samþykkt.