30.03.1973
Sameinað þing: 64. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2899 í B-deild Alþingistíðinda. (2282)

28. mál, kennsla í fjölmiðlun

Frsm. (Stefán Gunnlaugsson) :

Herra forseti. Allshn. hefur haft til athugunar og umsagnar till. til þál. á þskj. 28, um kennslu í fjölmiðlum við Háskóla Íslands. N. leitaði umsagnar þriggja aðila: Háskóla Íslands, útvarpsstjóra og Blaðamannafélags Íslands. Í umsögn Blaðamannafélags Íslands segir m. a. orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórn Blaðamannafélagsins fagnar þess vegna alveg sérstaklega, að fram er komin á Alþ. þáltill., sem leggur fyrir ríkisstj., að hún beiti sér fyrir því, að Háskóli Íslands taki upp kennslu í fjölmiðlun, og mælir með samþykkt till. Stjórnin er í öllum meginatriðum sammála þeim hugmyndum um fyrirkomulag slíkrar kennslu, sem fram koma í grg. með þáltill:“

Með hliðsjón af þeim umsögnum, sem n. fékk, er n. sammála um að leggja til, að till. verði samþ., þó með breyttu orðalagi. Er brtt. n. svo hljóðandi:

Tillgr. orðist svo:

Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta kanna, hvort eigi séu tök á, að Háskóli Íslands hefji og haldi uppi kennslu í fjölmiðlun, og ef svo reynist, þá með hverjum hætti hún skuli vera.“