30.03.1973
Sameinað þing: 64. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2899 í B-deild Alþingistíðinda. (2285)

45. mál, lagasafn í lausblaðabroti

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. allshn. fyrir afgreiðslu hennar á þessu máli. Eins og fram kom í framsöguræðu frsm. allshn., hefur till. fengið mjög eindreginn stuðning bæði Lögfræðingafélagsins og Dómarafélagsins, en því miður var það afstaða rn., að ekki mundi vera mögulegt að koma þessum vinnubrögðum við, þegar lagasafn yrði næst gefið út, sem mun vera nú á næstunni, og var því borið við, að þegar væri hafin prentun á lagasafninu og vinna og pappír að verðmæti mörg hundruð þús. kr. yrði ónýt. Ekki ætla ég að hefja rökræður um það, hvort tæknilega hliðin hafi verið á þann veg, að ekki hafi verið hægt að breyta um að þessu leyti, þar sem þeir aðilar, sem um þetta hafa fjallað, eru svo eindregið á því, að æskilegt væri að fá nýja tilhögun á útgáfuna. Þó er mér nær að halda, að það hefði verið mögulegt að breyta til, þar sem hér er raunverulega fyrst og fremst um að ræða nýja bókbandsaðferð en þessi tilhögun hefði ekki endilega þurft að hafa það í för með sér, að lagasafnið hefði allt verið stokkað upp að þessu sinni. En hvað um það, það virðist ekki vera unnt að fá þessu breytt héðan af, og er þá aðeins að vænta þess, að till. komist í framkvæmd sem fyrst, þó að það verði þá ekki alveg á næstu árum, en a. m. k. í þar næsta skipti, sem lagasafnið kemur út. En ég vildi undirstrika það, sem ekki er fólgið í till. og ekki hefur verið gerð brtt. um, en kemur fram í álitsgerð rn., að um leið og þessi tilhögun yrði þá tekin upp, er að sjálfsögðu eðlilegt og sjálfsagt, að endurskoðaðar verði lagareglur um efni og útgáfu Stjórnartíðinda, því að þetta grípur að sjálfsögðu hvað inn á annað, og er þá óeðlilegt að breyta aðeins tilhögun á útgáfu lagasafnsins, ef ekki er um leið endurskoðað, hvernig útgáfu Stjórnartíðinda er háttað, þannig að þar verði ekki raunverulega um margverknað að ræða.