30.03.1973
Sameinað þing: 64. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2900 í B-deild Alþingistíðinda. (2286)

45. mál, lagasafn í lausblaðabroti

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Mér skilst, að hv. allshn. mæli með samþykkt þessarar till. óbreyttrar. En í þessari till. stendur:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta nú þegar undirbúa útgáfu lagasafns, sem verði í lausblaðabroti og bundið með þeim hætti, að áskrifendur lagasafnsins geti framvegis fengið ný lög og lagabreytingar, sem felldar hafa verið inn í viðkomandi lög, sérprentaðar á lausum blöðum, svo að stöðugt verði fyrir hendi fullkomið, handhægt lagasafn fyrir lærða sem leika:

Þegar þessi till. var hér til fyrri umr., gerði ég grein fyrir því, að útgáfu lagasafns væri nú þegar svo langt komið, að frá því yrði vitaskuld ekki horfið. Og ég gerði ráð fyrir því satt að segja, þegar þannig nýtt lagasafn kemur út á næstunni, þá þyki mörgum það ofrausn, að farið sé að gefa þegar í stað út annað með þeim hætti, sem hér er gert ráð fyrir. Ég hefði talið skynsamlegra, að till. hefði verið breytt í það horf, að ríkisstj. væri falið að athuga um þennan útgáfuhátt, enda er það satt að segja, að þær umsagnir, sem hafa borizt um málið, eru ekki einhlýtar. Í fyrsta lagi er umsögn rn. algerlega á þá lund, eins og ég gerði grein fyrir við 1. umr. málsins. Í öðru lagi er það alls ekki svo, að Lögfræðingafélagið eða stjórn Lögfræðingafélagsins mæli með því alveg tvímælalaust, að þessu skuli hagað á þennan veg, sem hér er gert ráð fyrir. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Lögfræðingafélagið mælir með því, að rækilega sé kannað fyrirkomulag á útgáfu lagasafns, svo að bætt verði úr þeim erfiðleikum, sem lýst er í grg. flm. þáltill. Komi þá til athugunar sá útgáfuháttur, sem í henni ræðir um:“

Eins og ég hygg, að ég hafi gert grein fyrir eða minnzt a. m. k. á við 1. umr. þessa máls, eru til og tíðkast mismunandi hættir á útgáfu lagasafns, meira að segja hér í nálægum löndum, þannig að það er alls ekki um neina sjálfsagða eina leið í þessu efni að tefla. Ég verð að láta í ljós, að mér þykir dálítið vafasamt af Alþ. að fara að samþykkja þetta svo skilorðslaust sem hér er gert, því að ef ríkisstj. ætti að vera hlýðin, þá ætti hún strax að vinda sér að þessu og kosta allmiklu fé, — því miður hleypur útgáfa lagasafns víst á nokkrum millj. — til að ganga frá því.