30.03.1973
Sameinað þing: 64. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2901 í B-deild Alþingistíðinda. (2289)

45. mál, lagasafn í lausblaðabroti

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég vil láta í ljós þá skoðun mína, að vel hefði getað komið til greina að breyta orðalagi þessarar till. og haga orðalagi hennar á annan veg og þá jafnvel eitthvað frekar í þeim dúr, sem hæstv. forsrh. óskar eftir. En þegar menn óska eftir að ná fram breytingum á till. hér í þinginu, þá er það háttur manna og ekki aðeins háttur heldur lögbundinn háttur manna að bera fram brtt. með formlegum hætti, og þar sem það hefur ekki verið gert, gefst hvorki mér né neinum öðrum kostur á að greiða atkv. um till. á annan veg heldur en hér liggur fyrir. Þess vegna segi ég já.