30.03.1973
Sameinað þing: 64. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2910 í B-deild Alþingistíðinda. (2299)

179. mál, sjónvarp á sveitabæi

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég get því miður ekki staðið hér upp og hrósað mér af því að vera einn af meðflm. þessarar till., þótt ég hins vegar sé mjög samþykkur flm. um það, að ef af þessu gæti orðið, þessi till. yrði samþykkt og kæmi til framkvæmda, þá mundi vera hér stórt spor stigið fram á við í þá átt, sem flm. telja, að þeir séu að leita eftir. Hins vegar hlýtur um þessa framkvæmd eins og allar aðrar að koma upp spurning hjá okkur um, hver framkvæmdaröð eigi að vera. Og þegar haft er í huga, að 1. flm. till. minntist á tvö framkvæmdaatriði, sem hljóta að liggja fyrir á næstunni hjá Ríkisútvarpinu og honum sem útvarpsráðsmanni er mjög kunnugt um, þá hlýtur sú spurning auðvitað að vakna, hvaða framkvæmd sé þýðingarmest fyrir okkur að taka fyrir fyrst.

Nú er ég sammála síðasta ræðumanni um það, að mér er ekki kunnugt um neitt hérað hér á landi, sem ætti að leggjast í eyði eða þar ætli að hætta búskap í sveitum. Hins vegar er mér kunnugt um marga einstaka sveitabæi, sem Alþingi Íslendinga og ríkisstj. ættu hiklaust að hjálpa búendum, sem þar búa, til þess að komast þaðan og hasla sér völl annars staðar, svo að þeir fengju bæði þá vinnu og fjármuni, sem þeir hafa lagt í sitt bú, endurgreitt eða að þeir fengju annað í staðinn í héruðum, þar sem lífvænlegra væri fyrir þá. Nú veit ég ekki um það, hvort í þeirri töflu, sem fylgir hér í þessari till., sé nokkurt tillit tekið til slíkra býla. enda hefur það ekki verið upplýst enn þá.

Ég er alveg sammála 1. flm. um það, að sjónvarpið í dag hlýtur að gegna einu mesta og stærsta hlutverki fyrir strjálbýlið af öllu því, sem við höfum að bjóða í dag, og er þó margt annað kannske nauðsynlegra, eins og læknisþjónusta, góðar samgöngur og sitthvað fleira. En það er auðvitað fleira, sem stuðlar að því, að byggð sé viðhaldið á hinum ýmsu stöðum landsins. Það er t. d. fiskiskipafloti okkar. Við skulum hafa það í huga, að um 70–75% af fiskiskipaflota hins svokallaða þéttbýlissvæðis við Faxaflóa landar afla sínum víðs vegar um land og stuðlar þar með að því, að þar sé haldið uppi atvinnu og að viðkomandi byggðarlögum sé haldið í byggð. Það hlýtur þá auðvitað að vera stórkostlegt atriði fyrir alla, að það fáist menn á þennan sama fiskiskipaflota. Það hefur farið fram könnun nýlega á því, hvort fólk fáist til þess að gegna þessum störfum, og þótt fólk hafi fengizt á loðnuskipin að undanförnu vegna mikilla tekna, sem þar hafa orðið vegna hins nýja heimsmets, sem Íslendingar hafa verið að setja í aflamagni á þessu sviði eins og svo mörgum öðrum, þá auðvitað hlýtur það að vera ákaflega þýðingarmikið, að þessi mikilvirku framleiðslutæki verði alltaf mönnuð. Það má segja um okkar fiskimenn nákvæmlega sama og þá, sem búa í sveitum landsins, að fyrir þá hljóti þessi tæki að gegna sama þjónustuhlutverkinu, ef þeir geti notið þessara tækja, þá hljóti þeir líka að verða ánægðari í sinni atvinnu, með sitt hlutskipti. Með þessu er ég ekki að hafa á móti því, að það verði komið á móti þeim héruðum landsins, sveitabæjum og jafnvel byggðarlögum, sem nú vantar þessa þjónustu. En til viðbótar við það, sem hér hefur komið fram, er rétt að taka það fram og undirstrika rækilega, að það eru mörg byggðarlög hér á landi, sem hafa ekki enn þá fengið fullkomna hljóðvarpsþjónustu. Það er annað atriði til, sem ég tel ákaflega nauðsynlegt, að Ríkisútvarpið gangi í að framkvæma og betrumbæta.

Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða þetta mál ítarlega. Þetta mál gæti auðvitað fallið undir umr. um byggðamál í sambandi vil till., sem við nokkrir sjálfstæðismenn flytjum þar um. Auðvitað er þetta einn þáttur byggðamála. Við verðum, eins og ég tók fram í byrjun míns máls. að meta, hvað sé þýðingarmest. Hitt veit ég, að það verða færri, sem hafa þá skoðun, sem kom fram hjá einum hv. þm. hér fyrir nokkrum dögum þess efnis, að þótt við hér við innanverðan Faxaflóa höfum náð einhverju ákveðnu stigi í sambandi við þjónustu og lifnaðarhætti, ef aðrir hafi það ekki þegar í dag, þá eigi að draga okkur niður á það sama og þeir hafa, en ekki vinna að því, að þeir komist á það stig, sem hér er. En þessi skoðun verður sjálfsagt rædd þá.

En vegna þessarar þáltill. mun ég flytja brtt. við hana um, að Ríkisútvarpið taki fyrir á undan þau atriði, sem ég tel, að þar eigi að ganga fyrir, en það er að koma upp endurvarpsstöðvum fyrir byggðarlög, sveitabæi og skip við strendur landsins, sem nú njóta ónothæfra eða engra útvarps- og sjónvarpsskilyrða. Auk þess tel ég, að hart sé að farið í þessari till. að ætla ríkisstj. að ljúka framkvæmd þessari innan tveggja ára, miðað við þær aðstæður, sem við höfum hér á landi, og hefði talið, að það væri lágmark að reikna með 5 árum til þessa, og ekki óeðlilegt, þegar líka verður tekið með það, sem ég hef hér drepið á.