31.10.1972
Sameinað þing: 10. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í B-deild Alþingistíðinda. (230)

270. mál, stjórnir, nefndir og ráð ríkisins

Fyrirspyrjandi (Bjarni Guðnason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir þessi svör, og sannast sagna hefði verið æskilegt að ræða þau nokkru nánar. Hér er stuttur rími til umráða, og það er margt, sem ég hjó eftir í svari fjmrh., sem full ástæða væri til að ræða miklu nánar. Ég veit ekki, hvar ég á að grípa niður, en ég vil þó benda á í sambandi við 6. liðinn, um þóknunarnefndina svokölluðu, að þar sitja tveir menn í n., að ég hygg, og þeir ákveða þóknun til n., en bara til sumra n. eftir bókinni. Þá er spurningin, sem ég vildi fá svar við: Hverjir ákveða þá þóknanir til þeirra n., sem þessi hin sama n. ákveður ekki þóknun til? Það er eitt líka, sem hefur vakið athygli mína, það er það, að þóknun virðist mjög bundin við menn, sumir einstaklingar fá hærri þóknun en aðrir og viss málefni eru sett skör hærra en önnur. Þeir menn, sem sitja í n., þar sem sjóðir eru eða fjallað er um efnahagsmál, fá meira en þeir, sem sýsla yfirleitt við félags- eða menningarmál. Ég tel, að í skýrslunni speglist dálítið úrelt viðhorf. Ég ætla ekki að fara frekar út í þetta, en ég ætla að segja það, að þarna er mjög margt, sem vert væri að taka til umræðu. Tilgangur minn með þessu er fyrst og fremst að vekja athygli á því, að allir stjórnmálaflokkarnir bera það fram fyrir þjóðina, að þeir vilji draga úr embættismannabákninu og þeirri fyrirferð, sem því fylgir. Þess vegna er full ástæða fyrir allar ríkisstj. að reyna að fara að nefndarskipunum með gát og hafa reglur um þær, þótt vitanlega sé okkur öllum ljóst, að nefndarskipanirnar eru í mörgum tilfellum nauðsynlegar.