02.04.1973
Efri deild: 81. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2925 í B-deild Alþingistíðinda. (2310)

216. mál, veiting prestakalla

Frsm. (Ragnar Arnalds) :

Herra forseti. Frv. um veitingu prestakalla er flutt af menntmn. Ed. að beiðni hæstv. dómsmrh. Það skal strax tekið fram, að n. hefur ekki tekið neina afstöðu til efnis þessa frv., og hafa því einstakir nm. óbundnar hendur um afstöðu sína til málsins. Þetta er ekki í fyrsta sinn, sem frv. um þetta efni er lagt fyrir Alþ. Fyrir einum áratug kom frv. svipað að efni tvívegis til Alþ., og var þá einnig flutt af menntmn., en í Nd., að beiðni þáv. kirkjumrh., en frv. hlutu ekki afgreiðslu.

Meginefni frv. er, að felld eru niður ákvæði um veitingu prestakalla í kjölfar prestskosninga. Í þess stað er ákveðið, að sóknarnefndarmenn og safnaðarfulltrúar prestakalls séu lögbundnir kjörmenn, þegar valinn er prestur. Þeir skulu samkv. 3. gr. taka til athugunar umsóknir um auglýst prestakall og ákveða, hvort kjör skuli fara fram. Ef kjör fer ekki fram, ráðstafar kirkjumrh. embættinu að fenginni till. biskups. Aftur á móti ef ákveðið er, að kjör skuli fara fram, þá þarf umsækjandi að hljóta 2/3 atkv. kjörmanna til þess að kosning teljist lögmæt. Ef kosning er ekki lögmæt, mælir biskup með þeim tveimur umsækjendum, sem hann telur, að næst standi því að hljóta embættið, þegar tillit er tekið til allra aðstæðna, eins og segir í 5. gr., og veitir þá ráðh. embættið öðrum hvorum þessara tveggja umsækjenda.

Í 6. gr. eru ákvæði um, að heimilt sé að kalla prest til embættis, eins og það er nefnt í 6. gr. Ef 3/4 kjörmanna prestakallsins eru einhuga um að óska eftir því við tiltekinn prest, að hann taki við embætti án umsóknar, gera þær það með því að kalla prest, eins og það er nefnt í 6. gr., og er þá embættið eigi auglýst.

Að öðru leyti er nánari grein gerð fyrir frv. þessu í grg., og tel ég ekki ástæðu til að rekja efni þess frekar. Óðum styttist nú til vors, og verður að telja næsta ólíklegt, að frv. þetta hljóti fulla meðferð Alþ. á þeim tiltölulega skamma tíma, sem eftir er af þinginu. Flutningur málsins og meðferð þess hér á Alþ. réttlætist að sjálfsögðu fyrst og fremst af því, að það þarf að kynna málið vel og kalla eftir umsögnum um það, og eru þá auknar líkur á því, að málið gæti fengið eðlilega afgreiðslu á næsta þingi, ef sem sagt ekki tækist að afgreiða það á þessu þingi.

Ég vil leyfa mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og menntmn.