02.04.1973
Efri deild: 81. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2929 í B-deild Alþingistíðinda. (2312)

216. mál, veiting prestakalla

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Mönnum þykir e. t. v. einkennilegt, að ég fari sérstaklega að rísa hér á fætur og gera þetta mál að umtalsefni, þar sem ég er ekki neinn kirkjunnar starfsmaður. En ástæðan til þess, að ég geri það, er sú að ég hef allmikið um þetta mál hugsað, m. a. vegna þess, að ég átti alllengi sæti í safnaðarráði Reykjavíkur, og mál þetta var þá mjög á dagskrá, auk þess sem svo er, eins og hæstv. forsrh. sagði áðan, að þetta hefur verið mjög til umr. manna á meðal um árabil og um það gerðar ýmsar ályktanir. Ekki hvað sízt eftir að Kirkjuþing kom til sögunnar, var það tekið þar til ítarlegrar meðferðar, eins og hann réttilega gat um.

Ég get tekið það skýrt fram, að ég er andvígur prestskosningum og hef verið lengi og talið þær fásinnu eina og fyrir þeim væru í rauninni ákaflega haldlítil rök, vegna þess að einu rökin, sem ég hef heyrt varðandi prestskosningar, eru þau, að hér væri um að ræða sérstakt lýðræði, sem ekki mætti taka af fólkinu, að fá rétt til þess að kjósa sér prest, þar sem milli prests og safnaðar væri sérstakara trúnaðarsamband en milli annarra embættismanna og fólksins. Hæstv. forsrh. hefur í rauninni svarað þessu, þannig að ég þarf ekki að ræða það að neinu ráði.

Það er auðvitað svo, að það er sérstakt samband milli prests og safnaðar, og hefur verið litið á stöðu prestsins með öðrum hætti en annarra embættismanna í fjölmörgum löndum, ekki sízt í þeim þjóðfélögum, þar sem ríki og kirkja eru aðskilin. Þar hafa trúmálin verið talin vera málefni fólksins, ættu að vera sérmál þess og ríkið að litlu eða engu leyti þar að koma við sögu, enda nokkur trúfélög verið til, svo sem raunar er einnig á Íslandi. En hér er sú sérstaða, að samkv. stjórnarskránni er hin lúterska kirkja þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið því styðja hana og styrkja. Og á þessu ákvæði stjórnarskrárinnar er það byggt, að kirkjan starfar svo sem hún gerir nú í dag, þótt þær hugmyndir hafi komið upp, að eðlilegt væri, að það væri með öðrum hætti, ekki sízt hugmyndir frá kirkjunnar mönnum sjálfum. En varðandi lýðræðishugmyndina í þessu efni liggur ljóst fyrir, að það er ekkert lýðræði, nema menn vilji sætta sig við að vera kosnir tímabundinni kosningu. Og ég skal fallast á, að það sjónarmið geti verið rétt, ef menn vilja hugsa þá hugsun til enda og vera sjálfum sér samkvæmir um að láta þetta blessað lýðræði gilda um prestkosningar og val presta.

En þá verða prestar að vera reiðubúnir til að leggja sig undir það á vissu árabili að ganga til endurkjörs, svo sem t. d. þm. verða að gera. Annars er þetta auðvitað ekkert lýðræði. Og þegar, eins og hér hefur verið getið um, í fjölmörgum tilfellum er aðeins einn maður í kjöri, í þeim tilfellum og einnig mörgum öðrum er sáralítil þátttaka í prestskosningum, og ótalmargt annað kemur hér til greina, þá sýnist mér allt benda í þá átt, að þessi leið, þessi svokallaða lýðræðisleið um val prests, sé orðin gersamlega úrelt. Í ofanálag kemur allt það tjón, sem í rauninni kirkjunni er unnið með þessum prestskosningum, öll úlfúð og illindi, sem oft skapast og presturinn, sem kosinn er að lokum, á í langri baráttu oft og tíðum við að komast yfir í sínum söfnuði. Enn fremur er það sem ég tel mjög miður farið, að það getur farið svo, að ungir og efnilegir menn, sem veljast fyrst til afskekktari safnaða, eigi erfitt uppdráttar að koma sér á framfæri til betri prestakalla eða brauða, og það hefur einnig í för með sér ákaflega óheppileg áhrif, því að oft getur einmitt verið mjög æskilegt að geta sent presta til safnaðar, þar sem erfitt er um starfsemi alla og kirkjulíf, einmitt til þess að þeir geti þar vissan tíma a. m. k. neytt orku sinnar til þess að hefja þau prestaköll til vegs og virðingar og auka þar kirkjulega starfsemi, án þess að það væri útlit fyrir, að þeir yrðu e. t. v. að vera þar alla sína preststíð.

Ég held því, að það sé orðið nauðsynjamál, bæði fyrir kirkjuna og fyrir kristna trú í landinu og eflingu hennar, að endurskoða þessi prestakallamál og breyta þeim í grundvallaratriðum á þann veg, að prestskosningar verði látnar niður falla.

Varðandi það frv., sem hér liggur fyrir, er það byggt á þeirri meginhugsun, að almennar prestskosningar verði afnumdar, en hins vegar er talað um takmarkaðar kosningar, þ. e. a. s. nokkurs konar kjörmannakosningu presta. Það getur vel verið, að þetta sé millileið, sem sé farandi. Ég skal ekki um það segja eða fella um það dóm. Þó sýnist mér, að það geti jafnvel hafizt þá deilur milli þessara kjörmanna eða um kjör þessara kjörmanna, ef til kæmi. En það skiptir auðvitað ákaflega miklu máli, sem hæstv. forsrh. upplýsti, ef það er orðin samstaða um það milli kirkjunnar manna að velja þessa leið sem millileið frá því að hafa almennar prestskosningar og yfir til þess að skipa presta sem hverja aðra embættismenn, sem auðvitað gæti vel komið til greina.

Ég vil hins vegar leyfa mér, — og það er kannske höfuðástæðan til þess, að ég stóð hér upp, — ekki vegna þess að ég búist við, að það fái mikla áheyrn, en þó koma á framfæri þeirri hugmynd, sem ég hef lengi haft og látið í ljós sums staðar, að ég vil bylta þessu fyrirkomulagi enn meir en hér er gert ráð fyrir. Ég vil gera kirkjuna miklu sjálfstæðara afl í þjóðfélaginu. Við vitum, að víða er um að ræða algeran aðskilnað ríkis og kirkju, og þá eru það kirkjudeildirnar sjálfar, sem ráða sínum málum. Það má segja, að þetta sé með nokkuð öðrum hætti hér, að fela ákveðinni kirkjudeild sérstöðu í þessum efnum. Þó finnst mér, að það geti vel komið til mála, meðan stjórnarskránni er ekki breytt algerlega í þessu efni, — það er mál út af fyrir sig, sem ég skal ekki fara inn á, hvort á að skilja að ríki og kirkju að fullu, það er flóknara mál en svo og erfitt að ýmsu leyti hér í strjálbýlinu, að söfnuðir geti staðið sjálfir undir kostnaði, sem hér er um að ræða, en skoðun mín er í stuttu máli þessi, að ég álít, að kirkjan sjálf eigi að fá ákveðna fjárveitingu og hún eigi sjálf að ráðstafa sínum prestum og í rauninni sjálf að ákveða prestaköllin.

Nú munu menn segja kannske: Kirkjan er engin sérstök stofnun hér á Íslandi. — Vitanlega má gera kirkjuna að stofnun. Það eru til ýmiss konar kirkjustofnanir hér, sem ég álít, að sé brýn nauðsyn að endurskoða ákvæði um og breyta starfsháttum þeirra að ýmsu leyti og samræma. Það er fyrst og fremst prestastefnan, sem lengi hefur verið, og síðan hefur komið til Kirkjuþing, sem er innan kirkjunnar nokkurs konar löggjafarsamkoma, að segja má og síðan kirkjuráð og biskup í toppi þessa embættiskerfis, undir rn. að vísu. Vitanlega má finna einhverja ákveðna stjórnskipan, ef maður má orða það svo, á kirkjunni, sem geri það mögulegt, að kirkjustjórn fái slíkt vald, sem er hér um að ræða. Og mín skoðun er sú, að það mundi verða til þess að gefa þessum málum nýjan blæ, auðvelda kirkjuyfirvöldum hverju sinni, sem hefðu þá á að skipa ákveðnu starfsliði, ekki endilega bundnu við ákveðin prestaköll, heldur til þess að deila því niður til eflingar kirkjunni, eftir því sem hentaði hverju sinni, þannig að prestur væri ekki endilega staðsettur alltaf á sama stað, heldur yrði um örari skipti að ræða í þeim efnum, og það væri þess vegna í rauninni fengið kirkjunni í hendur bæði sá réttur og ég vil segja um leið sú ábyrgð og að vissu leyti kvöð að sjá um útbreiðslu þess boðskapar, sem hún flytur þjóðinni, án þess þó að beinlínis verði um að ræða að rjúfa tengslin milli ríkis og kirkju. Ríkið mundi sem sagt eftir sem áður greiða til kirkjunnar ákveðnar upphæðir til þess að halda uppi starfsemi hennar, en það yrði raunar svo, að það yrði byggð upp einhver kirkjustofnun eða kirkjustjórn, sem færi í rauninni með önnur mál kirkjunnar.

Kirkjan er auðvitað sérstaks eðlis í þjóðfélaginu, og þess vegna finnst mér, að svona róttæk hugmynd geti vel komið til greina, og einnig með hliðsjón af því, hversu þessum málum er skipað víða annars staðar varðandi kirkjulega og trúarlega starfsemi. Ég er, eins og ég sagði, ekki með þessu að varpa fram þeirri hugmynd að fara að breyta til um, hvaða trúarbrögð verði hér höfuðtrúarbrögð. Það er að sjálfsögðu mat manna og til þess hafa menn persónulegan rétt að skipta um kirkjudeild. En það er ein kirkjudeild, eins og ég áðan sagði, sem hefur hér sérréttindi. Ég er ekki heldur að leggja til, að þeim sérréttindum verði breytt. Það kann vel að vera, að þær skoðanir komi upp, og þær hafa vissulega heyrzt, að það væri óeðlilegt, að ein kirkjudeildin hefði hér þessi forréttindi. En hún tekur líka að sér vissar skyldur við þjóðfélagið. Að vísu eru margt af þessum skyldum eingöngu trúarlegar athafnir, en þó ýmsar með þeim hætti, að það er erfitt að hugsa sér, að þjóðfélagið geti án þeirra verið. hvað sem öllum trúarathöfnum að öðru leyti líður.

Þetta, herra forseti, er aðeins hugmynd, sem ég vildi láta koma fram. Það var gert ráð fyrir því, að þetta mál mundi ekki verða afgreitt á þessu þingi, og ég býst við, að ýmsum þyki þetta nokkuð róttæk hugmynd, sem ég er hér að ræða um. En það gerir kannske ekkert til, þótt hún komi til umr. eins og aðrar hugmyndir um þessi mál. Þetta mál er búið að vera lengi í deiglunni, skoðanir um það eru margvíslegar. Ég býst við, að í þessari hv. d. og á Alþ. séu skiptar skoðanir um, hvort afnema skuli prestskosningar eða ekki. Ég hef talið rétt að láta skoðun mína í ljós í þeim efnum, enda á ég ekki sæti í þeirri n., sem þetta frv. fær til meðferðar. en leiðirnar, sem geti komið hér til greina til breytinga, tel ég vera ýmsar. Ég hef þegar lýst minni skoðun. Hér er um aðra skoðun að ræða á þessu blaði. Þó veit ég ekki beint, hvort það er önnur skoðun, það er sérstök tilhögun til að komast út úr því skipulagi, sem við nú búum við. En ég álít umfram allt, hvað sem því líður, hvað ofan á verður í þessum efnum, þá sé það grundvallarnauðsyn að komast frá því skipulagi, sem við búum nú við.