02.04.1973
Efri deild: 81. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2933 í B-deild Alþingistíðinda. (2315)

94. mál, orkulög

Frsm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég gat þess við 2. umr. um mál þetta, að borizt hafði athugasemd frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga við frv. til l. um breyt. á orkulögum, þar sem lagt var til, að heimilt yrði einnig að veita lán út á stöðvarhús og nauðsynlegar línulagnir á milli bæjarhúsa. Iðnn. hafði ekki haft tækifæri til að athuga það mál, en ég gat þess, að hún mundi hins vegar gera það á milli umræðna. Það gerði iðnn. s. l. föstudag, og um þetta var rætt við starfsmenn orkusjóðs.

Virðist vera nokkur andstaða gegn því að veita lán út á stöðvarhús, einkum vegna þess, að erfitt getur verið að meta, hve vandleg slík hús eigi að vera, stór eða lítil o. s. frv., og er talið, að með því að veita 100% lán út á stöðvarhús, yrði illa ráðið við það. Hins vegar var fallizt á, að auka mætti lánið sem næmi kostnaði við flutninga og uppsetningu rafstöðvar. Það eru fastir liðir og lítt breytilegir, og með því móti fær bóndinn, sem í slíkar framkvæmdir verður að ráðast, enn meiri aðstoð en ráð var fyrir gert í frv. N. var sammála um að leggja til, að aftan við 3. lið í 1. gr. yrði bætt orðunum: „að meðtöldum kostnaði við flutninga og uppsetningu: Þá orðast þessi liður þannig: „Að veita einstökum bændum sem búa utan þess svæðis, er samveitum er ætlað að ná til í náinni framtíð, lán til að koma upp mótorrafstöðvum á heimilum sínum. Lán þetta má nema kostnaðarverði rafstöðvarinnar, að meðtöldum kostnaði við flutninga og uppsetningu.“

Athygli er vakin á því, að bændur hafa skv. núgildandi lögum fengið endurgreidda tolla af slíkum stöðvum, og eru það u. þ. b. 10 000 kr., að því er Páll Hafstað, starfsmaður orkusjóðs, upplýsir. Með því að bændur fá einnig greiddan flutningskostnað og uppsetningu, sem er talið nema nokkurn veginn þeirri upphæð, hafa þeir þessar 10 000 kr. til ráðstöfunar til þess að koma upp stöðvarhúsi og einnig til línulagningar, og á það í flestum tilfellum að vera veruleg aðstoð.

Á fundi n., þegar samþykkt var, að n. leggði þetta til, voru fjarverandi Björn Fr. Björnsson og Eggert G. Þorsteinsson.

Því miður hef ég ekki haft tækifæri til að fá þessa till. prentaða og leyfi mér því að leggja hana fram skriflega og óska eftir því við hæstv. forseta, að hann leiti afbrigða, til þess að hún megi koma til afgreiðslu.