02.04.1973
Neðri deild: 74. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2953 í B-deild Alþingistíðinda. (2344)

5. mál, orkuver Vestfjarða

Frsm. (Eðvarð Sigurðsson) :

Herra forseti. Frv. þetta er flutt til staðfestingar á brbl., sem út voru gefin í byrjun ágústmánaðar s. l. Efni frv. kemur að öllu fram í 1. gr., en hún er þannig með leyfi forseta:

Ríkisstj. er heimilt að fela Rafmagnsveitum ríkisins að virkja Dynjandisá eða Mjólká í Arnarfirði til raforkuvinnslu í orkuverum með allt að 10 þús. kw framleiðslugetu og gera nauðsynlegar ráðstafanir á vatnasvæði ánna til að tryggja rekstur þeirra. Enn fremur að leggja aðalorkuveitur frá raforkuverunum um Vestfirði.“

Í l. frá 1954 um orkuver Vestfjarða er heimild fyrir 7 þús. hestafla orkuveri, en sú virkjun, sem nú er hafinn undirbúningur að, er nokkru stærri og þess vegna skortir fulla heimild í l. fyrir þessari nýju virkjunarframkvæmd. Brbl. í sumar voru gefin út, þar sem nauðsynlegt var talið að hefja undirbúningsframkvæmdir vegna virkjunarinnar á fjöllum uppi þegar í sumar sem leið, en framkvæmdir þar geta ekki farið fram nema stuttan tíma á árinu. Og þar sem raforkuþörf Vestfjarða er þannig háttað, að flýta verður þessari virkjun, voru brbl. gefin út.

Iðnn. hefur athugað frv. og leggur til, að það verði samþ. óbreytt.