31.10.1972
Sameinað þing: 10. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í B-deild Alþingistíðinda. (235)

42. mál, Síldarverksmiðjur ríkisins

(Fyrirspyrjandi Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. sjútvrh. um starfsemi Síldarverksmiðja ríkisins, þ.e. líklega starfsemi verksmiðjunnar á næsta ári. Fyrirspurnin beinist reyndar fyrst og fremst að verksmiðjum SR á Austurlandi og þá einkum verksmiðjunnar á Reyðarfirði, þar sem beðið er eftir því með óþreyju að vita, hvort loðnuvertíðin muni enn einu sinni fara fram hjá þeim stað eða hvort einhver bót verði þar á ráðin.

Undanfarin ár hefur verksmiðja SR á Reyðarfirði staðið tilbúin til móttöku loðnu og það verið auglýst, en nær engin loðna borizt til vinnslu, og það jafnvel á sama tíma og loðnu hefur verið ekið út um tún og haga í næsta nágrenni vegna þess, hve mikið barst þar að. Ekki skal ég fara út í þær orsakir, sem þarna liggja til, en eitthvað óhreint mun þar leynast, og víst er um það, að ekki eigi Síldarverksmiðjur ríkisins neina sök á því.

Nú er spáð betri loðnuvertíð en nokkru sinni, og því er að vonum, að menn eystra hafi af því áhyggjur, ef saga síðustu ára endurtekur sig. Sömu söguna hygg ég að muni vera hægt að segja frá verksmiðju SR á Seyðisfirði, en sá munur er þar á, að önnur verksmiðja er þar á staðnum og hún hefur fengið loðnu.

Það vandræðaástand, sem nú ríkir í málum Síldarverksmiðja ríkisins yfirleitt, og á sér eðlilegar orsakir síldarleysísins, sem allir þekkja, er áreiðanlega nógu alvarlegt, þótt allt sé gert, sem hægt er, til þess að nýta þau tækifæri, sem gefast til þess að hressa eitthvað upp á rekstur, þótt ekki væri nema einnar verksmiðju.

Nú hefur verið lagt fram hér á Alþingi frv. um loðnulöndun. og hygg ég, að sú skipan mála sem þar er lögð til, geti haft einhver áhrif til leiðréttingar á því ástandi, sem ríkt hefur í málefnum Síldarverksmiðja ríkisins á Austurlandi. Mér er þó ekki fulljóst, hversu afgerandi þau áhrif verða, og væri gott að heyra álit hæstv. ráðherra þar að lútandi. En einhlítt til bóta telst þetta varla, hvað snertir Síldarverksmiðjur ríkisins, þótt að lögum yrði.

Seinni hluti fsp. lýtur að öðrum möguleika á starfrækslu verksmiðja SR, þar sem er veiði á kolmunna til vinnslu. S.l. sumar var tilraun gerð til kolmunnaveiða úti fyrir Austfjörðum, og var aflanum landað í verksmiðju SR á Reyðarfirði. Nú er mér ekki fullkunnugt um það, hvernig veiðar þessar gáfust í heild eða hver útkoman varð á vinnslu aflans, en hitt fór ekki milli mála, að hér var um mikla atvinnubót að ræða á þessum tiltekna stað, sem staðið hefur nokkuð tæpt atvinnulega séð nú undanfarið. Ég vildi því einnig gjarnan frá uppýst, hvaða líkur séu á því, að veiðar á kolmunna verði stundaðar næsta sumar, þótt ekki yrði um annað að ræða en frekari tilraunaveiði svipaða þeirri, sem fram fór s.l. sumar. Það hlýtur að teljast brýnt verkefni að kanna alla möguleika á því, að verksmiðjur SR geti fengið ný verkefni að fást við. Með tilliti til þess og sömuleiðis þarfa míns sveitarfélags sérstaklega spyr ég: Hvaða horfur eru á því, að Síldarverksmiðjur ríkisins verði starfræktar í fyrsta lagi á komandi loðnuvertíð og í öðru lagi næsta sumar með tilliti til kolmunnaveiða?