02.04.1973
Neðri deild: 74. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2970 í B-deild Alþingistíðinda. (2353)

122. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1973

Frsm. 2. minni hl. (Gylfi Þ. Gíslason) :

Herra forseti. Þetta frv. og sú saga af því, sem ég mun víkja lítillega að í orðum mínum hér á eftir, er enn eitt dæmi um vanhæfi ríkisstj. til þess að móta nokkra heildarstefnu í efnahagsmálum. Þetta frv. er sönnun þess, — enn ein sönnun þess, að hæstv. ríkisstj. er ekki fær um að ná samkomulagi innbyrðis eða meðal stuðningsmanna sinna um það, hvaða heildarstefnu skuli fylgja í íslenzkum efnahagsmálum.

Það atriði í stefnuskrá núv. ríkisstj., sem Alþfl. þegar í upphafi lýsti sig sammála, var, að stjórnin kvaðst vilja halda áfram að framfylgja áætlunarbúskap við stjórn efnahagsmála. Það var eitt af aðalatriðum í stefnuyfirlýsingu hennar, að beita skyldi áætlunarbúskap við stjórn efnahagsmála. Í því skyni kom hún á fót Framkvæmdastofnun ríkisins og setti henni sérstaka löggjöf. Alþfl. studdi þetta frv. og fagnaði stofnun Framkvæmdastofnunarinnar, af því að hann trúði því og vildi geta treyst því, að hér fylgdi hugur máli og að ríkisstj. í raun og veru vildi heita áætlunarbúskap í sívaxandi mæli við stjórn efnahagsmála, eins og fyrrv. ríkisstj. hafði raunar gert á þeim áratug, sem hún fór með völd. Við þm. Alþfl. gagnrýndum að vísu harðlega það stjórnarfyrirkomulag, sem tekið var upp hjá Framkvæmdastofnuninni. Við gagnrýndum harðlega, að framkvæmdaráðið skyldi skipað þrem pólitískum fulltrúum hinna þriggja stjórnarflokka. En við létum það ekki aftra okkur frá því að lýsa yfir fylgi við þá meginstefnu, sem löggjöfin um Framkvæmdastofnunina byggðist á.

En nú hefur komið í ljós á rúmlega árs starfsferli Framkvæmdastofnunarinnar, að hún hefur brugðizt hlutverki sínu gersamlega, og hlýtur það að teljast fyrst og fremst á ábyrgð framkvæmdaráðsins, sem er sá aðili í stofnuninni, sem raunveruleg völd hefur, og ríkisstjórnarinnar. Framkvæmdaráðið virðist því miður ekki hafa reynzt vanda sínum vaxið, og það hefur skort mjög á, að um nægilega samvinnu hafi verið að ræða milli þess og hæstv. ríkisstj. A. m. k. bera verkin þess ótvírætt merki, að sá árangur, sem búast hefði mátt við og varð að vera hefur ekki orðið, hvort sem það er sök framkvæmdaráðsins eða ríkisstj. sjálfrar eða vegna skorts á samvinnu milli ríkisstj. og framkvæmdaráðsins.

Í síðustu árum fyrrv. ríkisstj. var sá háttur tekinn upp að semja fjárlög og áætlun um framkvæmdir utan fjárlaga samtímis og jafnframt gera sér grein fyrir fjármálum fjárfestingarsjóðanna. Þetta þrennt er auðvitað náskylt hvað öðru: Samning fjárlaga, samning framkvæmdaáætlunar, sem fjár er aflað til utan fjárlaga, og fjármál fjárfestingarsjóðanna, þ. e. útlán þeirra og fjáröflun til þeirra. Í fyrra tókst hæstv. ríkisstj. ekki að láta samningu þessara þriggja grundvallarþátta í hinum opinbera búskap fylgjast að. Það var þá afsakað með því, að lögin um framkvæmdastofnunina væru ný samþ. og hún ný komin á laggirnar og hefði ekki tekizt að fóta sig með þeim hætti, að hægt væri að hafa þá skipan á, sem æskilegust væri. Hins vegar lofaði hæstv. fjmrh. og reyndar fleiri ráðherrar, að ráðin skyldi á þessu bót á árinu 1973. Nú er meira en ár liðið frá því, að Framkvæmdastofnunin var sett á laggirnar. Samt bólar ekkert á því, að hún hafi gert neina heildaráætlun um fjárfestingarlán þjóðarinnar. í l. gr. laga um Framkvæmdastofnunina segir þó, að hún eigi að hafa með höndum heildarstjórn íslenzkra fjárfestingarmála. Meira en ár hefur ekki dugað henni til þess að gera nokkra frumdrætti um það, hvernig stjórna skuli íslenzkum fjárfestingarmálum á árinu 1973. Engar áætlanir um þessi efni eru til af hendi framkvæmdastofnunarinnar, og hæstv. ríkisstj. hefur engar slíkar áætlanir kunngert.

Þetta frv. er sama eðlis og frv., sem lögð hafa verið fyrir hið háa Alþ. mörg undanfarin ár. Það fjallar um heimildir fyrir ríkisstj. til þess að taka lán vegna framkvæmdaáætlunar fyrir yfirstandandi ár. Það hefur verið venjan að birta framkvæmdaáætlunina, eins og eðlilegt er, sem rökstuðning fyrir þeim lánsheimildum, sem ríkisstj. fer fram á. Þetta frv. var lagt fram 13. des. Nú er aprílmánuður nýbyrjaður. Þetta frv. hefur legið óhreyft í hv. fjh.- og viðskn. þangað til nú fyrir nokkrum dögum, þá óskar ríkisstj. skyndilega eftir afgreiðslu á frv. Þegar farið var fram á það í n., að hæstv. ríkisstj. gerði grein fyrir því, hver mundu verða raunveruleg útgjöld á fjárlögum, þá var hún ekki reiðubúin til þess. En á það þarf ég væntanlega ekki að minna, að þegar fjárlög voru afgreidd rétt fyrir jól, þá aflaði ríkisstj. sér á síðustu stundu heimildar til þess að skera niður ólögbundin útgjöld á fjárlögum um 15%. Síðan hefur hún haft meira en 3 mánuði, og þeir 3 mánuðir hafa ekki dugað hæstv. ríkisstj. til þess að koma sér saman um, hvaða gjöld skuli skorin niður. Það reyndist algerlega árangurslaust að reyna að fá að vita, hvaða útgjöld hæstv. ríkisstj. hygðist skera niður. En samt sem áður ætlast ríkisstj. til þess, að Alþ. samþykki framkvæmdaáætlun og fjáröflun til hennar utan fjárlaga, áður en Alþ. fær að vita, hver útgjöld eiga að verða í reynd samkvæmt sjálfum fjárlögunum á yfirstandandi ári. Þetta hefur ekki komið fyrir áður. Slíkt frv. hefur stundum áður verið síðbúið, en þá hefur alltaf legið fyrir hver muni verða raunveruleg útgjöld samkv. fjárlögum á því ári, sem um er að ræða. Það hefur aldrei komið fyrir áður, að ríkisstj. hafi ekki verið búin að gera upp við sig, hver verða skyldu fjárlagaútgjöld, þegar hún fer fram á, að Alþ. heimili sér lántöku til þess að standa fyrir framkvæmdum utan fjárlaga.

Og sagan er ekki öll sögð með þessu. Það er auðvitað ekki hægt að mynda sér neina heilsteypta mynd af opinberum framkvæmdum og fjáröflun til þeirra, nema því aðeins að fyrir liggi upplýsingar um, hver muni verða útlán hinna stóru opinberu fjárfestingarsjóða og hvernig meiningin sé að afla fjár til þeirra útlána. Allt eru þetta þættir í opinberum framkvæmdum, fjárlagaútgjöldin, útgjöldin samkvæmt framkvæmdaáætlun og útlán fjárfestingarsjóðanna. Það er að miklu leyti sami fjármagnsmarkaðurinn, sem á er leitað, fyrir utan ríkistekjur af tollum, sköttum og af einkasölum. Það er leitað á einn og sama fjármagnsmarkaðinn af hálfu ríkisins, af hálfu þeirra stofnana, sem fjármagna opinberar framkv. utan fjárlaga, og stóru fjárfestingarsjóðanna. Það er ekki hægt að mynda sér neina skynsamlega skoðun á því, hvort heildarframkvæmdir séu óeðlilega miklar eða kannske of litlar, — það er ekki hægt að mynda sér neina skynsamlega heildarskoðun á opinberum framkvæmdamálum nema hafa alla hina þreföldu mynd fyrir sér, og það er gersamlega ómögulegt að mynda sér skynsamlega og rökstudda skoðun á því, hvort fjáröflun til opinberra framkvæmda á fjárlögum og utan fjárlaga og til útlánasjóðanna sé heilbrigð og skynsamleg, nema öll myndin liggi fyrir. Það er auðvitað meginhlutverk ríkisstj. og þeirrar stofnunar, sem á að vera í ráðum með henni, þ. e. Framkvæmdastofnunarinnar, að gera slíkt heildaryfirlit. Helzt ætti það að vera gert fyrir áramót, þ. e. áður en hlutaðeigandi ár byrjar. En það er óverjandi. að komið sé fram í fjórða mánuð ársins, áður en að nokkur slík heildaráætlun liggur fyrir. Að slíkt hefur nú gerzt, að komið skuli vera fram í fjórða mánuð ársins, áður en nokkur heildarmynd af opinberum útgjöldum eða fjáröflun til þeirra liggur fyrir, það er glöggt dæmi um það, að áætlunarbúskapur hæstv. ríkisstj. hefur brugðizt gersamlega, að ríkisstj. hefur brugðizt, að Framkvæmdastofnunin hefur brugðizt, að þessir aðilar eru í raun og veru að koma óorði á áætlunarbúskap. Ef áætlunarbúskap er beitt með réttum hætti, er hann ágætt hagstjórnartæki. En það er til lítils að bera sér orðið áætlunarbúskapur í munn, ef engin alvarleg tilraun er gerð til þess að hagnýta hann. En hæstv. ríkisstj. lætur meira en þriðjung af árinu líða án þess að gera nokkra alvarlega tilraun til þess að beita aðferðum áætlunarbúskapar til þess að stjórna hagkerfinu skynsamlega.

Hæstv. ríkisstj. getur ekki afsakað sig með því, að henni hafi ekki verið nógu snemma bent á það af öðrum trúnaðarmönnum en Framkvæmdastofnuninni, að hér væri mikið vandamál á ferðinni. Efnahagsmálanefndin, sem hæstv. ríkisstjórn skipaði á síðastliðnu sumri, gerði ríkisstj. og þm. rækilega grein fyrir því, að einmitt á árinu 1973 væri við alveg sérstakan vanda að etja í þessum efnum. Í skýrslu efnahagsmálan., sem þm. fengu til athugunar í nóv. s. l., var talið, að opinberar framkvæmdir utan fjárlaga mundu á þessu ári, 1973, verða 2160 millj. kr. og að útgjöld fjárfestingarsjóðanna mundu verða 2540 millj. kr., eða með öðrum orðum, að framkvæmdirnar og útlán sjóðanna mundu nema samtals 4700 millj. kr. Væri þetta miklu hærri upphæð en nokkurn tíma hefði áður verið um að ræða í hinum opinbera búskap. N. benti á, að vitað væri um mögulega fjáröflun í þessu skyni að upphæð 1580 millj. kr., en af því leiddi, að um fjárvöntun væri að ræða, sem næmi 3120 millj. kr. Það skorti m. ö. o. rúmlega 3 milljarða kr., til þess að hægt væri að hrinda í framkvæmd fyrirhuguðum opinberum framkvæmdum utan fjárlaga og hægt væri að lána það, sem fjárfestingarsjóðirnir vildu lána, rúma 3 milljarða kr. Efnahagsmálan. benti á, að þessu markmiði væri ekki hægt að ná með heilbrigðum hætti. Það mundi verða til að stórefla verðbólgu í landinu, ef staðið væri við þessar fyrirhuguðu framkvæmdaáætlanir. Þær yrði að skera niður að mjög verulegu leyti.

Í framhaldi af þessum till. voru bæði framkvæmdaáætlanir utan fjárlaga og útlánaáætlanir sjóðanna skornar niður að talsverðu leyti og enn fremur leitað eftir nýjum fjáröflunarleiðum. Endurskoðun, sem framkvæmd var í byrjun þessa árs eða eftir áramótin, leiddi til þeirrar niðurstöðu, að fjáröflunarvandinn minnkaði niður í 1741 millj. kr., þ. e. 416 millj. vegna opinberra framkvæmda og 1325 millj. kr. vegna fjárfestingarsjóðanna. En þetta hefur hæstv. ríkisstj. vitað í 3 mánuði. Hún hefur vitað í 3 mánuði, að eftir að nokkrir hennar færustu embættismanna hafa gert áætlun um opinberu framkvæmdirnar og fjárþörf sjóðanna og eftir að þeir hinir sömu eru búnir að yfirfara þessar áætlanir, þá hefur ekki tekizt að skera fjárvöntunina niður meira en svo, að enn nemur hún 1741 millj. kr. eða rúmum 1700 millj. kr. Um þennan vanda hefur hæstv. ríkisstj. vitað í meira en 3 mánuði, og samt ekkert gert.

Mér vitanlega liggja engar áætlunartill. fyrir frá framkvæmdaráði Framkvæmdastofnunarinnar um það, hvernig þennan vanda skuli leysa. Því hefur að vísu heyrzt fleygt, að hæstv. ríkisstj. eða einstakir ráðherrar og framkvæmdaráð Framkvæmdastofnunarinnar hafi verið að ræða um að leysa þennan vanda að meiri hluta með innlendum og erlendum lántökum, án þess að það sé tilgreint, hvar taka skuli erlend lán eða hvar taka skuli innlend lán umfram þá lánamöguleika innanlands og erlendis, sem þegar hefur verið ákveðið að hagnýta. Því hefur líka heyrzt fleygt, að Framkvæmdastofnunin telji þennan niðurskurð, sem gerður var í ársbyrjun, vera af mikinn og að fjárþörfin sé ekki 1740 millj., heldur nær 2000 millj. kr., og að hún telji nauðsynlegt að taka innlend og erlend lán til þess að jafna metin, sem nema því sem næst 1100 millj. kr. Ef þetta er rétt, að ríkisstj. og framkvæmdaráðið séu í raun og veru að hugleiða að jafna upp undir 2000 millj. kr. fjárvöntun til opinberra framkvæmda og fjárfestingarsjóða með um 1100 millj. kr. erlendri eða innlendri lántöku, þá er hér um að ræða hið alvarlegasta ábyrgðarleysi, sem ekki gæti leitt til annars en stóraukins verðbólguvaxtar. Lánamarkaður innanlands er svo gjörnýttur, að telja má mjög litlar líkur á því, að hægt yrði að fá meiri lán innanlands en þegar eru fyrirhuguð, nema beinlínis að heila olíu á verðbólgubálið. Og að því er snertir lántökur erlendis til að standa undir opinberum framkvæmdum og fjárþörf fjárfestingarsjóðanna, þá er það að segja, að eftir því sem ég bezt veit, þá hafa verið fyrirhugaðar lántökur til langs tíma erlendis á þessu ári, að upphæð rúmlega 4000 millj. kr. Það hefur þegar verið ákveðið, — ég endurtek, — það hefur þegar verið ákveðið, að opinberar lántökur erlendis til langs tíma nemi rúmlega 4000 millj. kr. Á móti þessu koma auðvitað endurgreiðslur á eldri lánum, en á árinu í ár mun mega telja, að samkvæmt ákvörðunum, sem búið er að taka, muni verða skuldaaukning erlendis um 2500 millj. kr. Erlendar skuldir þjóðarinnar munu í ár aukast vegna þegar tekinna ákvarðana um 2500 millj. kr. Þetta jafngildir því, að erlendar skuldir aukizt um 75% á undanförnum þremur árum, þ. e. frá árinu 1971 til ársins 1973. Hæstv. ríkisstj. hlýtur að vera kunnugt um þetta, og framkvæmdaráði Framkvæmdastofnunar hlýtur að vera kunnugt um þetta. Ef þessir aðilar eru samt að ráðgera hundruð millj. kr. nýjar lántökur erlendis ofan á þetta, þá segi ég, að það sé meira ábyrgðarleysi en í raun og veru er hægt að trúa alvöru ríkisstj. til.

Sannleikurinn er sá, að það er í raun og veru móðgun með Alþ., það er bein móðgun við Alþ. að ætlast til þess, að það afgreiði frv., sem veiti hæstv. ríkisstj. heimild til lántöku, sem er meiri en einn milljarður, til að standa undir opinberum framkvæmdum, þegar ríkisstj. getur ekki gert Alþ. grein fyrir því hverjar muni verða opinberar framkvæmt samkv. sjálfu fjárlagafrv., og getur engar upplýsingar gefið um það, hvað fjárfestingarsjóðir muni geta lánað út á yfirstandandi ári og hvernig fjár til þess verður aflað. Þess vegna hefur þingflokkur Alþfl. tekið þá ákvörðun að taka ekki þátt í afgreiðslu þessa máls, ef ríkisstj. knýr fram atkvgr. um það. Auðvitað ætti málið að bíða, þangað til hæstv. ríkisstj. hefur gert upp hug sinn um það, til hvaða opinberra framkvæmda skuli efnt samkv. fjárl., og þangað til hún hefur gert sér grein fyrir því, hvernig mál fjárfestingarsjóðanna eigi að leysa. Fyrr er ekki hægt að ætlast til þess með sanngirni, að hið háa Alþ. taki afstöðu til meira en milljarðs kr. lántökuheimildar til handa ríkisstj.

Þetta undarlega ástand er auðvitað eitt dæmi þess, — en mörg dæmi þess höfum við horft upp á undanfarnar vikur og raunar mánuði, — að hæstv. ríkisstj. hefur gersamlega misst tök á stjórn efnahagsmála þjóðarinnar. Sú ríkisstj., sem í aprílbyrjun veit ekki enn, hver eiga að verða útgjöld samkv. fjárl. á yfirstandandi ári, — sú ríkisstj., sem veit ekki, hvernig fjárfestingarlánasjóðirnir eiga að fá það fé, sem þeir þurfa á að halda á árinu 1973, hún hefur ekkert vald á stjórn efnahagsmála þjóðarinnar. En samt vill hún fá heimild til á 2. þús. millj. kr. lántöku til að standa undir framkvæmdum utan fjárl.

Hér ber allt að sama brunni. Hæstv. ríkisstj. hefur fyrir löngu misst tök á stjórn íslenzkra efnahagsmála, og þetta frv. og allur málatilbúnaður í því sambandi er enn ein sönnun fyrir þeirri staðhæfingu, að ríkisstj. stjórnar ekki lengur landinu, heldur lætur reka á reiðanum. Þess vegna sjáum við þm. Alþfl. ekki ástæðu til þess að taka þátt í afgreiðslu þessa máls. Það geta hæstv. ríkisstj. og hennar stuðningsflokkar gert á sína eigin ábyrgð.

En fyrst ég hef farið nokkrum almennum orðum um efnahagsmál, eins og eðlilegt er í sambandi við frv. eins og þetta, þá langar mig að síðustu til þess að gera að umtalsefni tvær mikilvægar staðhæfingar, sem tveir af hæstv. ráðh. ríkisstj. hafa látið sér um munn fara í umr. í þessari hv. d., aðallega á undanförnum vikum, og margendurtekið og látið stuðningsblöð sín endurtaka tugum, ef ekki hundruðum sinnum á undanförnum vikum, — mikilvægar yfirlýsingar um grundvallaratriði íslenzkra efnahagsmála, sem báðar eru rangar og ég mun nú sýna fram á, að eru rangar.

Fyrri staðhæfingin hefur verið margendurtekin af hæstv. viðskrh. í umr. hér á hinu háa Alþ. á undanförnum vikum. Hann heldur varla svo ræðu, hæstv. viðskrh., að hann komi ekki þessari staðhæfingu sinni að. Og síðan endursegja stuðningsblöð hæstv. ríkisstj. þessa staðhæfingu 5–10 sinnum eftir hverja ræðu ráðh., og þá geta menn nærri, hve oft hún hefur komið á síðum stuðningsblaða ríkisstj. En staðhæfingin er um það, að dregið hafi úr vexti verðbólgu á Íslandi á valdatíma núv. hæstv. ríkisstj. Máli sínu til sönnunar hefur svo hæstv. ráðh. nefnt vöxt vísitölunnar í nokkra mánuði, eftir að ríkisstj. kom til valda, í samanburði við einhverja aðra mánuði, meðan önnur ríkisstj. var við völd, og af því hefur hann dregið þá ályktun, að það sé sannað, að verðbólguvöxturinn sé minni síðan núv. ríkisstj. tók við völdum, heldur en var, áður en hún tók við völdum. En þessi málflutningur er því líkastur, þegar menn slíta orð og setningar úr samhengi og draga síðan af þeim algildar ályktanir. Vilji menn bera saman frammistöðu núv. stjórnarflokka í verðbólgumálunum, er auðvitað réttast að athuga þróun framfærslukostnaðarvísitölunnar, síðan ríkisstj. kom til valda, og bera þann vöxt saman við allt það tímabil, — ekki hluta af því, heldur allt það tímabil, sem liðið hefur, síðan þessir flokkar voru síðast í ríkisstj. Þeir voru síðast í ríkisstj. í árslok 1958. Þá fór ríkisstj. Hermanns Jónassonar frá völdum og þar með Framsfl. og Alþb., sem báðir eru í núv. ríkisstj. Það, sem á að bera saman, er verðbólguvöxturinn frá ársbyrjun 1959 til miðs árs 1971 annars vegar og verðbólguvöxturinn frá miðju ári 1971 hins vegar til dagsins í dag, þ. e. til síðustu vísitölu. Þetta hljóta menn að játa fyrir fram, að er eini skynsamlegi og réttmæti samanburðurinn, sem til er, varðandi það, hvort verðbólgan hafi vaxið meira í tíð núv. ríkisstj. eða á þeim tíma, sem núv. flokkar voru ekki í ríkisstj. En á því tímabili sátu tvær stjórnir eða tvenns konar stjórnir að völdum, annars vegar minnihlutastjórn Alþfl. og hins vegar samsteypustjórn Alþfl. og Sjálfstfl. Ég hef hér á blaði vísitölu framfærslukostnaðar 1. jan. 1959 og síðan 1. jan. hvers árs til 1. jan. 1973 og auk þess vísitöluna á miðju árinu eða 1. júlí 1971 og síðustu vísitölu í febr. 1973. Ég þreyti hv. þm. ekki á því að lesa hverja einustu tölu, en í jan. 1959 var vísitalan 105 miðað við grundvöllinn 100 í marz 1959, þegar nýr vísitölugrundvöllur var innleiddur. Hún var 105 1. jan. 1959, þegar núv. stjórnarflokkar fóru úr stjórn, og hliðstæð vísitala var orðin 336 stig 1. júlí 1971, þegar þessir flokkar komu til valda, m. ö. o. hliðstæð vísitala hefur hækkað á þessu 121/2 ári úr 105 upp í 336. Ef reiknaður er út árlegur meðal vöxtur vísitölunnar á þessu tímabili á ársgrundvelli, þá hefur hann reynzt 9,7%. Þegar ríkisstj. tók við völdum í júlí 1971, var vísitalan, eins og ég sagði áðan, 336. Síðasta vísitala, 1. febr. 1973, var 396. Hlutfallslegur vöxtur vísitölunnar á valdatíma núv. ríkisstj. á ársgrundvelli hefur því verið 10,8%. M. ö. o. á því 121/2 árs tímabili, sem þessir flokkar voru utan ríkisstj., í stjórnarandstöðu, og aðrir fóru með stjórnina, var árlegur vöxtur vísitölu 9,7%, síðan þeir tóku við völdum, hefur árlegur vöxtur vísitölunnar verið 10,8% eða meira en einu stigi meiri.

Allar staðhæfingar hæstv. viðskrh. um þetta efni eru því rangar. Það er sannað með þessum opinberu tölum frá hagstofunni og síðan útreikningi á hlutfallslegum vexti vísitölunnar á þessum tveimur tímabilum á ársgrundvelli. Nú tel ég ekki nema sjálfsagt, að stuðningsblöð hæstv. ríkisstj. segi frá þessum upplýsingum mínum, sem eru tvímælalaust réttar, þótt ekki væri nema einu sinni, svo að það komi ofboðlítið á móti því, að þau hafa verið sagt 100 sinnum frá röngum upplýsingum hæstv. viðskrh. um þetta mál. Ef einhver treystir sér til þess að rengja þessar upplýsingar, þá skal vera mér að mæta öðru sinni. (Gripið fram í: Þá vita menn það.) Þá vita menn það, já. Upplýsingarnar eru frá hagstofunni, og það er áreiðanlega rétt reiknað út frá þeim. (Gripið fram í). Uppistaðan er frá hagstofunni, skýrslan gerð af hagstofunni sjálfri. (Gripið fram í). Já, prósentureikningurinn er örugglega réttur líka, það get ég fullvissað hæstv. fjmrh. um. Sem sagt, ég bíð nú með eftirvæntingu eftir því, hvort stuðningsmenn ríkisstj. vilja segja jafnáberandi frá þessum sannleika eins og frá ósannindunum. Þar reynir á, hvers konar blöð hæstv. ríkisstj. hefur sér til stuðnings. Tölurnar þarf ég ekki að endurtaka, af því að þær eru ekki svo flóknar.

Raunverulega er ekki öll sagan sögð með þessu. Ég lét við það sitja að skýra frá vexti framfærslukostnaðarvísitölunnar frá 1. júlí 1971 til febr. 1973, þeirri tölu, sem hagstofan er búin að reikna út. En hagstofan er búin að áætla hver vísitalan muni verða 1. maí. Hún er búin að áætla það. Hún áætlar ábyggilega ekki of hátt. Hún áætlar að vísitalan muni þá verða 430 stig. Lægri en þetta verður hún aldrei, það er öruggt, — hún verður fremur hærri en þetta. Þetta eru þær verðhækkanir, sem vitað er um. Ef við tökum tillit til þessara verðhækkana, sem vitað er um í dag, verður verðbólguvöxturinn eða aukning vísitölu framfærslukostnaðar í tíð núv. ríkisstj. ekki 10,8%, eins og ég gat um áðan, heldur 14,4% á ársgrundvelli, miðað við 9,7% á 12–13 ára tímabilinu, sem þessir flokkar voru utan ríkisstj. Stjórnarstuðningsblöðin mega gjarnan bæta þessum upplýsingum við fyrir lesendur sína og almenning í landinu. Þetta tekur auðvitað enn frekar af öll tvímæli um það, að hæstv. viðskrh. hefur farið með rangt mál hér á Alþ. hvað eftir annað, þegar hann hefur staðhæft, að núv. ríkisstj. hafi dregið úr vexti verðbólgunnar eða vaxtahraða hennar.

Hin staðhæfingin, sem höfð hefur verið hér um hönd hvað eftir annað á undanförnum vikum, — þar á hæstv. fjmrh. hlut að máli, hefur verið um það, að launþegar hafi aldrei búið við jafngóð kjör og þeir búa við núna, og það er rétt. Því er fyrir að þakka, að þjóðarframleiðslan hefur vaxið mjög mikið og verðlag erlendis aldrei farið jafnört hækkandi og einmitt nú undanfarið. Þetta hefur auðvitað komið launþegum verulega til góða, svo sem vera ber. En hæstv. ráðh. hefur einnig sagt, að aukningin sé meiri nú en nokkurn tíma áður, og í öðru aðalstuðningsblaði hæstv. ríkisstj., Þjóðviljanum, hefur slíku og því um líku verið haldið fram í tíma og ótíma, endalaust. Ég veit ekki, hve oft þetta hefur verið endurtekið. En þetta er rangt. Það skal ég nú sýna fram á og vitna einnig í opinberar heimildir. Framkvæmdastofnun ríkisins, hagrannsóknadeildin, gaf, eins og allir vita, út rit um þjóðarbúskapinn 1972 og horfur 1973 í okt. s. l. Á bls. 22 í þessu opinbera heimildarriti Framkvæmdastofnunar og þar með ríkisstj. er skýrsla eða yfirlit um breytingar kauptaxta, tekna og verðlags á árunum 1970–1972, og eru tölurnar fyrir 1912 áætlaðar. Nú er þess fyrst að geta, að þegar hæstv. ráðh. og blóð þeirra, Tíminn og Þjóðviljinn, skýra frá breytingum á kjörum launþega, þá eru svo að segja alltaf allir útreikningar miðaðir við kauptaxta launþeganna. En það þarf ekki að skýra fyrir hv. þm., að launþegar lifa ekki á töxtunum, þeir lifa ekki á kauptöxtunum, þeir lifa á þeim tekjum, sem þeir öðlast á grundvelli kauptaxtanna. Þess vegna er sú staðreynd, sem á að athuga, þegar er verið að athuga lífskjör og breytingar á þeim, atvinnutekjur einstaklinganna, heildaratvinnutekjur þeirra og breytingarnar á þeim. Síðan þarf að athuga skattana og breytingarnar á þeim, vegna þess að einstaklingarnir nota ekki þann hluta tekna sinna, sem hið opinbera tekur í skatta. Mismunurinn á tekjum einstaklinganna og sköttunum er kallaður á hagfræðimáli ráðstöfunartekjur heimilanna, og um þær eru líka gefnar sem lokaniðurstöður upplýsingar í þessari skýrslu um þjóðarbúskapinn 1970–1972.

1970 var síðasta heila árið, áður en núv. ríkisstj. kom til valda, 1972 er fyrsta heila árið, sem hún var við völd, og þessi tvö ár skulum við því bera saman til þess að dæma um það, hvort hæstv. fjmrh. hefur farið með rétt mál, þegar hann hefur verið að halda því fram og sömuleiðis Tíminn og Þjóðviljinn, að kjarabætur hafi aldrei í sögunni orðið meiri en þær hafa orðið á tímum núv. ríkisstj. Samkv. þessari skýrslu, á bis. 22, jukust heildaratvinnutekjur einstaklinga 1970, síðasta árið áður en ríkisstj. kom til valda, um 28%. Þær jukust árið 1972, fyrsta heila árið, eftir að ríkisstj. kom til valda, um 30%, þ. e. 2% meira. En sagan er ekki öll sögð með þessu, vegna þess, sem segir ofar á síðunni, með leyfi hæstv. forseta:

„Álagning beinna skatta og fasteignaskatta hækkaði verulega á þessu ári, 1972, miðað við síðasta ár, og meira en brúttótekjur einstaklinga, þannig að ráðstöfunartekjur heimilanna aukast lítið eitt minna á árinu en brúttótekjurnar eða um 28%.

Nokkrum línum neðar eru sýndar ráðstöfunartekjur heimilanna, þ. e. atvinnutekjurnar mínus skattarnir árin 1970 og 1972. Ráðstöfunartekjur heimilanna, þ. e. þær tekjur, sem menn gátu ráðstafað til neyzlu og fjárfestingar, — það sem menn höfðu til þess að ráðstafa, þegar ríkið var búið að taka sitt og aðrir opinberir aðilar — jukust 1970, síðasta árið áður en stjórnin kom til valda, um 30,8%. 1972, fyrsta árið eftir að hún kom til valda, jukust þær um 28,0%. M. ö. o.: á síðasta árinu, áður en stjórnin kom til valda, jukust tekjurnar um 30,8% eða 2,8% meira en á fyrsta árinu, eftir að hún kom til valda.

Þá geta menn séð, hvort það er rétt, sem hæstv. fjmrh. hefur verið að segja, að kjarabætur hafi aldrei orðið meiri en eftir að ríkisstj. kom til valda. Þá geta menn séð, hvort það er rétt, sem Tíminn og Þjóðviljinn hafa sagt í tugi skipta á undanförnum vikum, að kjarabót hafi aldrei verið meiri en síðan ríkisstj. kom til valda. Hvort tveggja er rangt, alrangt. Þetta eru rangar staðhæfingar, ósannindi. Hér er ekki um að ræða neitt, sem ég hef reiknað út eða fundið út á nokkrum forsendum. Þetta er opinber skýrsla hagrannsóknardeildar Framkvæmdastofnunar ríkisins, gefin út af Framkvæmdastofnuninni eða ríkisstj. Ég veit ekki, hvor aðilinn hefur gefið ritið út. En hér er auðvitað um óyggjandi heimildir að ræða.

Ég ætla að leyfa mér að óska þess, að bæði helztu blöð ríkisstj. skýri frá þessum staðreyndum, þótt ekki væri nema einu sinni, til uppbótar á þeim hundruðum skipta, sem þau eru búin að fara með rangar staðhæfingar um þessi efni. Ef ráðh. og opinber málgögn hafa áhuga á því að segja satt, þá ættu nú ráðh. að hætta þeim staðhæfingum, sem þeir hafa viðhaft hér undanfarið, og játa hreinskilnislega, að það sé rétt hjá hagrannsóknadeildinni og mér, sem ég hef verið að segja um verðbólguvöxtinn og kjarabæturnar. Ef blöðin vilja hafa það, sem sannara reynist, ættu ritstjórar þeirra að reynast menn til þess að sýna, að þeir vilji heldur hafa það, sem sannara reynist. Það er kannske ekki hægt að ætlast til þess, að þeir hafi sjálfir haft framkvæmd í sér til þess að leita þessara upplýsinga uppi, þó að þær séu ekki afskaplega torfundnar. Ég lái hlaðamönnum það ekki, þeir hafa hitt og þetta að gera og hafa sínum herrum að þjóna. En það er vítavert af ráðh. að nota ekki eitthvað af þjónum sínum til þess að leiða sig í sannleika um þessi efni. Er þeir hefðu spurt einhvern af sínum færu sérfræðingum, hver verðbólguvöxturinn hafi verið á því tímabili, sem þeir voru utan stjórnar, og hver hann hafi verið núna, hefðu þeir fengið þetta svar, sem ég var að lesa núna. Og ef þeir hefðu spurt: Hver var aukning raunverulegra tekna heimilanna á árunum 1970 og 1972? — þá hefðu þeir fengið svarið, sem þeir hafa fengið núna. Það skiptir ekki máli, hvenær þeir fengu það. Aðalatriðið er, að nú eru þeir búnir að fá að vita sannleikann í málinu, og nú er bara að vita, hvaða tillit þeir taka til hans.