02.04.1973
Neðri deild: 74. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2987 í B-deild Alþingistíðinda. (2356)

122. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1973

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Ég hafði satt að segja átt von á því, að næsti ræðumaður hér á eftir frsm. hv. fjh.- og viðskn. yrði hæstv. fjmrh. og hann gerði svo lítið að svara fsp., sem hv. þm. hafa lagt fyrir hana í sambandi við afgreiðslu á þessu máli. En það má vel vera, að það sé svipað með hann og hv. síðasta ræðumann í skoðunum varðandi frv. þetta, en þm. sagði: Ja, það er nú sennilega ekkert annað að gera en samþykkja þetta frv. eins og það er, hvað svo sem því fylgir, með öllum þess göllum.

Hv. frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. gerði að umræðuefni hér þá gagnrýni, sem fram hefur komið af hálfu stjórnarandstöðunnar og kemur mjög fram í nál. stjórnarandstöðunnar, bæði 1. og 2. minni hl. hv. fjh.- og viðskn., en sú gagnrýni hefur sérstaklega beinzt að því, að ríkisstj. hugsar sér að keyra í gegn frv. um auknar opinberar framkvæmdir á ýmsum sviðum, á meðan ekki er hægt að fá upplýsingar um það, með hvaða hætti niðurskurði verður hagað á fjárl. þeim, sem samþ. hafa verið fyrir yfirstandandi ár. Það er ekki óeðlilegt, þegar samþykkja á lántökur, útgáfu spariskírteina, þegar samþykkja á fjáröflun upp á tæpar 1200 millj. til opinberra framkvæmda, að Alþ. vilji mjög gjarnan fá vitneskju um það, hvaða framkvæmdir það eru, sem fyrirhugað er að skera niður, miðað við þau fjárlög, sem samþ. hafa verið.

Hv. frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. var hér með töluverða umvöndun út af þessu við minni hl. n. og orðaði það, að menn mjálmuðu í sig móðinn hér í ræðustól, og taldi, að svo hefði verið hér um einn af hans ágætu nm. Það var skýrt tekið fram í ræðu þessa hv. þm., að þrátt fyrir virðingarverðar tilraunir formanns n. hafði ekki tekizt að spá til embættismanna eða fá skýrslur um þá hluti, sem fjh.- og viðskn.-menn óskuðu eftir, en hv. form. fjh.- og viðskn. virðist taka þetta allt ákaflega nærri sér, og var að heyra á ræðu hans hér áðan, að allar þessar aths. pirruðu hann mjög og hann hefði gjarnan kosið, að umr. hefðu ekki farið fram á þeim grundvelli, sem hér hefur gerzt.

Þegar framkvæmdaáætlun hefur legið fyrir og frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til lántöku vegna framkvæmdaáætlunar, þá hygg ég, að það hafi aðeins verið í tvö fyrstu skiptin, sem slík frv. voru lögð fyrir Alþ., að ekki hafi verið gerð grein fyrir allri fjármögnunarhliðinni, eins og hér er óskað eftir, að gerð verði grein fyrir. Það er á þinginu 1964–1965, sem fyrst er flutt frv. um lántökuheimild varðandi framkvæmdaáætlun, og með því frv. var ekki heildaryfirlit. Það er aftur á þingi 1965, sem slíkt frv. er flutt, og málið þá enn ekki það langt komið, að slíkt heildaryfirlit sé fyrir hendi. En á þinginu 1966 er lagt fram frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til lántöku vegna framkvæmdaáætlunar fyrir árið 1967, og því frv. fylgir heildaryfirlit yfir framkvæmda- og fjáröflunaráætlun 1967. Þar eru greindar opinberar framkvæmdir, og þar er gert ráð fyrir fjármögnun fjárfestingarlánasjóða. Allt frá því og þar til nú hefur þessi háttur verið á hafður, og ég fullyrði, að það er rangt hjá hv. 5. þm. Austf., form. fjh.- og viðskn. og frsm. meiri hl., er hann hélt því fram hér áðan, að afgreiðsla á málinu eins og Alþ. er ætlað að afgreiða það nú hafi átt sér stað af og til. Við höfum ekki gagnrýnt það, að það skuli ekki enn vera komið svo, að um leið og fjárlög eru afgreidd sé hægt að afgreiða framkvæmdaáætlunina og alla fjáröflunarpóstana, sem þarf að afgreiða í sambandi við framkvæmda- og fjáröflunaráætlun þess árs. Að vísu hefur verið stefnt að þessu, frá því að framkvæmdaáætlanir voru fyrst afgreiddar frá Alþ., en það hefur ekki tekizt, og þetta hefur verið einmitt eitt af því, sem núv. stjórnarflokkar hafa gagnrýnt og gagnrýndu fyrrv. ríkisstj. og stjórnarflokka fyrir, þegar þeir voru í stjórnarandstöðu. Það stóð ekki heldur á loforðum þessara flokka, þegar málefnasamningurinn var saminn, og hæstv. fjmrh. gerði í ræðu sinni fyrir framkvæmdaáætluninni fyrir 1972 grein fyrir áformum sínum í þessum efnum. Þau voru ekki síðri en fyrirrennara hans, og ég trúi, að það hafi verið hugsun hans, að honum tækist það. sem þeim hafði ekki tekizt. að afgreiða samtímis fjárlög og framkvæmdaáætlun og þar með lægri fyrir yfirlit yfir fjáröflunarleiðir fjárfestingarsjóðanna. Á fyrsta ári gerðist það ekki, sem hæstv. fjmrh. vildi gjarnan og hann hafði gagnrýnt fyrirrennara sinn fyrir. En hann lofaði að sjálfsögðu bót og betrun. Nú höfum við annað árið, og þá sjáum við, hvernig dæmið stendur. Við höfum afgreitt fjárlög fyrir 1973. Þar er gert ráð fyrir ákveðnum niðurskurði. Nú á að afgreiða framkvæmdaáætlun eða lántökuheimildir fyrir ríkisstj. Það er ekki vitað, hver niðurskurðurinn verður og það liggur ekki heldur fyrir, með hvaða hætti fjármagna skal lán frá fjárfestingarsjóðunum á árinu 1973. Ég trúi ekki., að formaður fjh.- og viðskn., hv. frsm. meiri hl., hafi í raun og veru meint nokkuð af því. sem hann sagði hér áðan. Það var allt með öðrum hætti en hans ummæli höfðu verið, þegar hann sat sem minnihlutamaður í fjh.- og viðskn. og talaði 3 slíkum málum sem þessum á þeim tíma.

Vinnubrögð í n., en að þeim vék formaðurinn áðan, voru að mínum dómi ekki með þeim hætti, sem Alþ. er samboðið. Þegar óskað er eftir opinberum starfsmönnum til þess að mæta hjá þn. og gefa þar sínar skýrslur, þá á það að vera hægt fyrir Alþ. að fá slíka menn til viðræðna, og upplýsingar frá opinberum sjóðum eiga að geta legið fyrir þn., ef rétt er í haldið. Það var ofureðlilegt, að á öðrum fundi þar sem þetta mál var tekið fyrir, kæmu fram aths. frá nm. um þessi efni, þ. e. a. s. óskir um upplýsingar frá opinberum starfsmönnum og opinberum sjóðum, því að nm. trúðu því ekki fyrr en á fundinn kom, að þessar upplýsingar lægju ekki fyrir. Frv. hafði verið hér í Alþ. í nokkra mánuði, og nm. töldu að sjálfsögðu. að sá tími hefði verið notaður til þess að undirbúa aðrar aðgerðir, þannig að þegar Alþ. afgreiddi þetta mál, lægju þær upplýsingar fyrir, sem eiga að liggja fyrir Alþ. og Alþ. á heimtingu á að fá, áður en slíkt frv. sem þetta verður afgreitt.

Ég skal ekki hafa þessi orð mín fleiri, en ég vildi mótmæla því, sem frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. sagði hér áðan, að þessi afgreiðsla væri með svipuðum hætti og hefði verið undanfarin ár, svona tvist og bast og allt í lausum reipum. Ég kannast ekki við, að framkvæmdaáætlun hafi áður verið afgreidd, að undanteknum fyrstu tveimur árunum, öðruvísi heldur en fyrir Alþingi lægju upplýsingar um fjármögnun opinberra sjóða, þannig að dæmið lægi allt fyrir Alþ., þegar framkvæmdaáætlun var afgreidd.