02.04.1973
Neðri deild: 74. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2989 í B-deild Alþingistíðinda. (2357)

122. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1973

Fram. 1. minni hl. (Matthías Bjarnason) :

Herra forseti. Það má segja um hv. formann fjh.- og viðskn., sem hér var að tala áðan, að hann hafi tekizt á hendur erfitt verkefni að reyna að verja þau vinnubrögð, sem eru viðhöfð í sambandi við afgreiðslu þessa máls, enda var málflutningurinn eftir því. En hins vegar má segja, að mjög er dregið af hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. að taka ekki þátt í þessum umr. og svara ekki nokkurri spurningu, sem fram er borin. Hlutverk formanns fjh.- og viðskn. hefur verið það að vera sverð og skjöldur ráðh., enda má segja, að hann hafi reynt að gera það til þess ítrasta. En hann þarf ekki að segja mér eða öðrum það, að hann sé ánægður með þessi vinnubrögð, þótt hann hafi látizt vera það. Eins og síðasti ræðumaður tók fram, hafa þessi vinnubrögð ekki verið viðhöfð í mörg ár og eiga ekki að vera viðhöfð. Ég spyr einu sinni enn þá hæstv. fjmrh.: Hvernig stendur á því, að framkvæmda- og fjáröflunaráætlunin er ekki til? Hvernig stendur á því, þegar hann ætlaði að stefna að því, að hún yrði til fyrir áramót, þegar hann afsakaði í fyrra, hvað hún væri þá seint á ferðinni, en þá hafði hann mjög gild rök fyrir þeim afsökunum. Hvernig stendur á þessu? Hvað hefur gerzt? Eru hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. ánægðir með vinnubrögð „kommissara“ sinna í Framkvæmdastofnun ríkisins? Það væri fróðlegt að fá að heyra það af þeirra eigin vörum, hvort þeir eru ánægðir með þetta fyrirkomulag, sem þeir settu á og hæstv. forsrh. var svo hrifinn af fyrir rúmu ári.

Hv. formaður fjh.- og viðskn. sagði, að það lægju ekki fyrir till. frá okkur í minni hl. um lækkun á neinum einstökum liðum, og sagði, að ég hefði mannað mig upp í að nefna ákveðin atriði eða réttara sagt, ég hefði mjálmað mig upp í það. Mér fannst nú vera lítill móður í hv. hm. í fyrri ræðu hans í kvöld, þegar hann fylgdi þessu þriggja lína nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. úr hlaði. En í seinni ræðunni held ég, að hann hafi mjálmað úr sér þann litla móð, sem var í honum í fyrri ræðunni, og það sé ekkert eftir og hann geti ekki mjálmað meira, enda virðist hann vera horfinn af sjónarsviðinu. Ég furða mig á, að maður, sem er búinn að vera á þingi eins lengi og hv. þm., skuli tala af jafnmiklum ókunnugleika um sjávarútveg. Hann sagði, að það væri auðvitað sérstakt núna í sambandi við vinnuaflsskortinn í sjávarútvegi, hann væri auðvitað langmestur á vetrarvertíð og þetta væri allt saman gerbreytt, þegar kæmi fram á vorið. Ætli hann hafi ekki nokkra hugmynd um, að það fara fleiri tugir smábáta af stað með vorinu og eru gerðir út allt sumarið og stóru bátarnir eru gerðir út allt árið um kring, og það er enginn sparnaður á mannafla á þeim bátum, þó að vertíð ljúki. Ætli hann hafi aldrei heyrt þetta fyrr? verður mér að spyrja. Eða veit kannske enginn framsóknarmaður um þetta? Er þetta alveg lokuð bók fyrir öllum flokknum?

Ég þakka hv. þm. þá leiðréttingu og þann sóma, sem hann sýndi mér að leiðrétta það, að í nál. varð sú meinlega villa, að þar var talið, að brtt. væru 160 millj. og sagði, en eru 200 millj. Mér þykir leitt, að hann skuli nú eftir allt saman fara rangt með, og minni hann á það, að í ræðu minni talaði ég um, að hér væri um hækkunartill. að ræða upp á 250 millj., og einmitt í sambandi við það nefndi ég framsöguræðu hæstv. fjmrh. fyrir þessu frv. í vetur, en þar sagði hann, að framkvæmdaáætlunin lækkaði um 400 millj., og ég sagði það í minni ræðu hér áðan, að það væri ekki mikil lækkun eftir, því að hún hefði hækkað í meðförum þingsins um 250 millj., svo að mismunurinn væri ekki nema 150 millj. Formaður fjh.- og viðskn., sem flytur hér brtt., sagði, að þær væru upp á 200 millj., en þær eru 250 millj.. svo að ég má til með að leiðrétta þetta, um leið og ég þakka honum fyrir leiðréttingu á mínu nál., þó að ég hafi tekið það fram í minni ræðu. Og hann spyr einu sinni enn þá: Hvað á að spara? Úr hvaða framkvæmdum á að draga? Af hverju koma mennirnir ekki með till.?

Til hvers er fyrir minni hl. að koma með till. um að draga úr þessu eða hinu, þegar ekki er hægt að draga fram í dagsljósið, hvernig á að fjármagna sjóðina? Við vitum, hvernig sjóðirnir standa, og við vitum, hverjum það er, að kenna, hve fjárvöntunin er mikil. Ætli það hafi ekki verið hyggilegra fyrir núv. ríkisstj., þegar hún tók við völdum, að láta gilda áfram þau atriði í sambandi við lán ríkisstj. til bátabygginga, sem fyrrv. ríkisstj. hafði ákveðið? Ætli það hefði ekki orðið töluvert minni ágengni í það að byggja jafnmikið af skipum erlendis og flytja til landsins. Ætli fjárvöntunardæmið í sambandi við fiskveiðasjóð væri ekki töluvert léttara nú við að eiga, ef þeir hefðu ekki hlaupið til og hækkað aftur lán frá ríkinu, sem þeir hafa svo ekki staðið við og gengið á byggðasjóð þrátt fyrir allt strjálbýlistalið, sem verið hefur að undanförnu? Hverjir hafa leitt þessa erfiðleika yfir nema þessir hæstv. ráðh. sjálfir? En það er ekki hægt að flýja núna frá þeim vanda. Það eru komnar ákveðnar skuldbindingar, sem fiskveiðasjóður og aðrir sjóðir verða að standa við, og þess vegna verður að fjármagna þessa sjóði, vegna þess að það var röng og ógætileg stefna, sem þessi ríkisstj. tók upp. En hvað er svo gert? Ætli það hefði ekki verið hyggilegra að reyna að halda eitthvað skynsamlegar á þessum hlutum, byggja eitthvað minna af skuttogurum, halda sig meira að segja bara við málefnasamninginn fræga, sem forsrh. bað þm. svo innilega um að lesa kvölds og morgna, fyrst eftir að ríkisstj. tók við. Hefði þá verið haldið sér við þann málefnasamning, að stórefla fiskiskipaflotann með skuttogurum og öðrum fiskiskipum, sem vel henta til hráefnisöflunar fyrir fiskiðnaðinn, en þar segir, að afla skuli fjár í þessu skyni og veita nauðsynlega forustu og fyrirgreiðslu. Skyldi þegar gera ráðstafanir til, að Íslendingar eignuðust svo fljótt sem verða mætti a. m. k. 15–20 skuttogara af ýmsum stærðum og gerðum. Ef það hefði verið haldið sér innan þessara marka eða kannske eitthvað rúmlega það, þá væri fjáröflun þessara sjóða minni. Og svo er annað: Það væri meiri þörf á að halda skipabyggingum áfram og efla skipasmíðaiðnaðinn íslenzka, enda segir í málefnasamningum, að leggja skuli áherzlu á eflingu skipasmíðaiðnaðarins með það takmark fyrir augum, að Íslendingar smíði að miklu leyti skip sín sjálfir, og geti annazt viðhald fiskiskipa og kaupskipa. Ég hygg, að það hefði verið hyggilegra að fara gætilegar í þessar skipabyggingar, stefna að því, að endurnýjun skipastólsins færi fram með eðlilegum og ekki of hröðum hætti, þannig að skipasmíðastöðvarnar íslenzku hefðu verkefni í náinni framtíð. Nú horfir málið þannig við, að verkefni skipasmíðastöðvanna eru takmörkuð, mjög takmörkuð, eftir að þetta ár er liðið. Og það sem verra er, nú er búið að skrúfa fyrir alla endurbyggingu á skipum af hinum ýmsu stærðum, því að það er dregið svo úr þessum lánum, að það dregur úr vilja manna að endurnýja skip af hinum ýmsu stærðum, sem er auðvitað nauðsynlegt að gera, en ekki einblína á einhverja ákveðna tegund skipa og byggja svo mikið af henni og hrúga inn erlendis frá, en hugsa ekki neitt um komandi ár í sambandi við skipasmíðaiðnaðinn og eðlilega uppbyggingu skipastólsins í heild, burtséð frá því, af hvaða stærðum skipin eru.

Formaður fjh.- og viðskn. komst að þeirri niðurstöðu, að það væri ekki nokkur leið að draga neins staðar úr fjárfestingu, þetta væri allt það mikilvægt og það lægi svo mikið á öllu, að það yrði að halda áfram að byggja, bara að taka lán, nógu mikil lán, draga hvergi úr, og stjórnarandstaðan kæmi bara ekki með nokkrar till. Ég segi fyrir mitt leyti, eins og ástandið er núna og þegar við hafa bætzt náttúruhamfarirnar í Vestmannaeyjum, þá er auðvitað enn meiri ástæða til að reyna að draga úr jafnvel því, sem áður hefur verið ákveðið, með það efst í huga að draga ekki vinnuaflið frá framleiðsluatvinnugreinunum. Og þá hefði ekki verið nein stórsynd að draga úr ákveðnum framkvæmdum. Og meira að segja ég, sem er strjálbýlismaður ekki síður en hv. þm., hefði vel getað sætt mig við að draga hlutfallslega úr vegaframkvæmdum, eins og Norðurlands- eða Austurlandsáætlun gera ráð fyrir, eða á Skeiðarársandi að einhverju leyti færa flesta af þeim yfir á næsta ár. Ég hefði vel getað hugsað mér að standa að því, eins og ástandið er, því að ég sé ekki nokkurn sparnað í því, að það vanti vinnuafl á fiskibátana okkar, sem hann gerði lítið úr. Það er einn sparnaður við það, að auðvitað sparast olía á bátana, ef þeir liggja bundnir við bryggju. Það gæti verið sparnaður kannske í því, ef það á bara að líta á olíuna. En ég held, að það sé mikið atriði fyrir þjóðfélagið, að sá bátafloti, sem við höfum keypt og eigum, sé gerður út, og það er líka mikið atriði að vinna sem mest úr þeim fiski í landinu, og þetta held ég, að sé hornsteinn þess, að það sé hægt að halda áfram að byggja upp þetta þjóðfélag, en ekki stofna til skulda í stórum stíl, eins og virðist vera aðaláhugamál hæstv. ríkisstj.

Ég leyfði mér að benda á, hvort ekki hefði verið rétt að fresta framkvæmdum við Sigölduvirkjun á þessu ári. Það má enginn taka orð mín á þann veg, að ég sé andstæðingur þessarar mikilvægu mannvirkjagerðar. Spennan í þjóðfélaginu er það mikil og skuldaaukningin er svo ofboðsleg, að við verðum einhvers staðar að slá af. Við verðum fyrst og fremst að leggja höfuðáherzluna á að afla sem mestra tekna, draga sem mesta björg í bú og auka verðmæti útflutningsafurða okkar til þess að standa sjálfir undir því, sem við erum að framkvæma. Það má vel vera, að ég sé svona miklu íhaldssamari en þm. stjórnarliðsins, að mér hrýs hugur við þeirri skuldaaukningu, sem verður erlendis núna á hverju ári. Ég sagði hér áðan, að lántökur íslendinga hafi verið gífurlega miklar á árunum 1971 og 1972 og heildarskuldir við útlönd hafi aukizt á þessum tveimur árum um nærri 6000 millj. Það hefði þótt efni í meira en eina ræðu hjá sumum framsóknarmönnum, áður en þeir komust í stjórnaraðstöðu, að tala um slíka skuldaaukningu þjóðfélagsins við útlönd, og ef áfram er haldið, þá er sjáanlegt, að skuldaaukningin verður aldrei undir 70% frá árinu 1971 til og með árinu 1973, og þá leyfi ég mér að spyrja hæstv. fjmrh.: Loftarðu þessu, Halldór?

Ég skal svo ekki lengja þessar umr. öllu meira, en út af því, sem formaður fjh.- og viðskn. sagði, að upplýsinga hefði ekki verið óskað á fundi í n. 22. marz, þá vil ég undanskilja mig. Ég var því miður fjarverandi þann dag, en strax á fundi n., sem ég mætti á, þá taldi ég, að það væri bráðnauðsynlegt, að fyrir lægju upplýsingar um fjárvöntun fjárfestingarlánasjóðanna og sömuleiðis upplýsingar um það, á hvern hátt eigi að haga niðurskurði fjárlaga. Nú er ég ákaflega veikur fyrir því og hef mikinn áhuga á því að hraða rafvæðingu sveitanna. Í þessum brtt. er hækkun til rafvæðingar sveitanna. En ég verð að viðurkenna það, að ég get ekki gert það upp við mig, nema fyrir liggi upplýsingar, hvort rétt er að hækka mjög verulega framlög til rafvæðingar, á sama tíma og við Vilhjálmur Hjálmarsson og Karvel Pálmason lögðum okkur fram í fjvn. í vetur að lækka framlög til allra skólabygginga, í strjálbýli sem í þéttbýli, og tókum fullt tillit til þess, sem hæstv. fjmrh. sagði við okkur, að hann treysti sér ekki til að hækka framlög til þessa mikilvæga málaflokks frá því, sem var í fjárlagafrv. Ég tók alveg eins og þeir þátt í því að reyna að koma þessum málum saman, en svo kemur á eftir heimildin til niðurskurðar. Ég treysti mér ekki til að dæma um það, hvort nauðsynlegt sé að hækka verulega, eins og segir í till. formanns fjh.- og viðskn., sveitarafvæðinguna, úr 70 millj. í þessari framkvæmdaáætlun í 110 millj., á sama tíma og það á kannske fyrir að liggja að lækka framlög til mikilvægra skólabygginga, sem komnar eru á framkvæmdastig og sveitarfélög hafa beðið eftir með mikilli óþreyju, sömuleiðis framlög til hafnargerða, sem eru í raun og veru lífæð flestra kauptúna á landinu, framlög til sjúkrahúsa, til læknamiðstöðva og læknisbústaða. Ég treysti mér ekki til þess að segja, hvað af þessu er mikilvægast. Ég treysti mér ekki til þess að segja: Það er bráðnauðsynlegt að lækka framlög til ákveðinna skólabygginga að lágmarki um 15%, e. t. v. um 60, 70, 80%, eða til sjúkrahúsa, en segja svo í sömu andránni: Það er jafnnauðsynlegt og enn nauðsynlegra að hækka framlag til sveitarafvæðingar úr 70 millj. upp í 110 millj. samkv. þessari framkvæmdaáætlun umfram það, sem er á fjárlögum. Á svo líka kannske að lækka samkv. fjárlögum sveitarafvæðinguna, en hækka hana hér í opinberum framkvæmdum? Kannske það. En það eru hundakúnstir, það var a. m. k. kallað þar fyrir vestan, þegar ég var að alast upp. Ég held, að það hafi verið notað sama orðið fyrir austan.

Menn sjá, að það er ekki hægt fyrir stjórnarandstöðu að flytja ákveðnar till. í þessum efnum undir þeim kringumstæðum, sem hér eru fyrir hendi. Hins vegar hygg ég, að flestir menn í stjórnarandstöðunni séu reiðubúnir til þess að setjast niður með ríkisstj. og hyggja betur að, hvað hægt er að ganga langt í framkvæmdum og hvað er hægt að ganga langt í skuldasöfnun erlendis og fjárútvegun innanlands við þær aðstæður, sem eru í þjóðfélaginu, og koma í veg fyrir það, að mikilvæg framleiðslutæki liggi bundin í höfn, eins og sjáanlegt er, að hluti af bátaflotanum mun gera, ef áfram á að halda þetta kapphlaup um vinnuaflið