03.04.1973
Sameinað þing: 65. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2994 í B-deild Alþingistíðinda. (2359)

307. mál, Lagarfossvirkjun

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Þessari fsp. hv. þm. Sverris Hermannssonar vísaði ég til Rafmagnsveitna ríkisins og fékk þar svo hljóðandi svör frá Valgarð Thoroddsen:

Það eru byggingarmannvirki fyrst: Útboð var gert í apríl 1971. Lægsta tilboð barst frá Norðurverki h/f og var tekið og verksamningur gerður í júlí 1971. Samkv. honum skyldi byggingarmannvirkjum lokið 1. okt. 1973. Var þá miðað við, að uppsetning véla gæti hafizt 1. nóv. 1972. Viðbótarverksamn. var gerður við Norðurverk h/f í júní 1972 um gerð flóðgátta og brúar yfir fljótið. Jafnframt var samið um framlengingu á skilafresti einstakra byggingaverkþátta og jafnframt, að heildarverkinu yrði lokið 1. júlí 1974 í stað okt. 1973, vegna endanlegs samnings um vélakaupin.

Svo segir um vélarnar: Tilboð Skoda Export í vélar og rafbúnað var tekið með undirritun samnings 8. febr. 1972. Tilboð Skoda Export var lægst, fyrir utan, að um var að ræða stærri vélar, 7,5 megawött í stað 6 megawatta. Á móti kom, að afgreiðslufrestur, 24 mánuðir, var lengri en hjá öðrum bjóðendum, svo og þurfti að stækka stöðvarhúsið vegna stærri véla. Við val á vélum voru ofantalin atriði metin, svo og sá aukakostnaður, sem stafaði af aukinni dísilraforkuframleiðslu vegna lengingar á afgreiðslutíma Skoda Export umfram aðra bjóðendur, og reyndist tilboð þeirra hagkvæmast. þegar þessi atriði voru metin.

Loks segir svo um framkvæmd verksins: Framkvæmdir hafa gengið með eðlilegum hætti, en nokkur tilfærsla verið gerð á einstökum verkþáttum hvað tíma snertir, m. a. vegna lengri afgreiðslutíma en upphaflega var gert ráð fyrir. Þá má geta þess, að ekkert hefur komið fram, sem gefur til kynna, að afgreiðsla á vélum verði ekki í samræmi við ofangreindan samning.

Eins og fram kemur af þessu svari frá Valgarð Thoroddsen, er meginbreytingin fólgin í því, að tekið var tilboði um vélar frá Skoda Export, sem voru stærri en fyrirhugað var, en afgreiðslutíminn hins vegar nokkru lengri. Þetta mál var lagt fyrir síðasta þing vegna þess, að það þurfti breytingar á lögum um Lagarfossvirkjun, til þess að hægt væri að nýta þessar stærri vélar. Alþ. gaf að sínu leyti heimild til þess einróma á síðasta þingi, að sú breyting væri gerð, en eins og fram kom, er ekki kunnugt um, að neinn frekari dráttur verði á þessum framkvæmdum.