03.04.1973
Sameinað þing: 66. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2997 í B-deild Alþingistíðinda. (2369)

9. mál, lánsfé til hitaveituframkvæmda

Stefán Gunnlaugsson:

Herra forseti. Ég verð að láta í ljós undrun mína yfir þeirri afgreiðslu, sem þetta mál hefur hlotið hjá hv. fjvn. Till., sem hér um ræðir, um lánsfé til hitaveituframkvæmda, er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að gera ráðstafanir til að tryggja sveitarfélögum lánsfé til hitaveituframkvæmda:

Sem sagt, það, sem hv. alþm. þurfa að taka afstöðu til í þeirri atkvgr., sem hér fer fram á eftir, er, hvort þeir telja þörf á því, að ríkisstj. geri ráðstafanir til að tryggja sveitarfélögum lánsfé til hitaveituframkvæmda frekar en gert hefur verið til þessa eða ekki. Þess vegna get ég ekki séð, hvaða tilgangi það þjónar í raun og veru að leggja til, að þessari till. sé vísað til hæstv. ríkisstj. Annaðhvort eru menn þeirrar skoðunar, að nauðsyn sé slíkra aðgerða, sem till. gerir ráð fyrir, eða ekki. Að vísa slíkri till., sem hér er um að ræða, til hæstv. ríkisstj. er að mínu mati algerlega út í hött.

Hv. form. fjvn. lét orð að því liggja hér áðan, að þessi till. fæli það í sér, að það ætti að stofna einhvern sjóð í þessu sambandi. Það er auðvitað alrangt, eins og ég hef hér bent á. Hann lét a. m. k. liggja að því, að það væri e. t. v. ekki þörf á því að hafa í frammi sérstakar aðgerðir til að tryggja sveitarfélögum fé til hitaveituframkvæmda frekar en gert hefur verið til þessa. Því til sönnunar reyndi hann að vitna í bréf Framkvæmdastofnunar ríkisins varðandi þetta. Það er varla hægt að skoða hana sem umsögn um málið. Hún er um það, að unnið hafi verið að því, á vegum framkvæmdasjóðs að afla Lánasjóði sveitarfélaga lánsfjár til hitaveituframkvæmda, annað ekki. Aðrar umsagnir, sem fjvn. fékk um þetta mál, eru jákvæðar hvað það áhrærir, að bæði Orkustofnunin og Samband ísl. sveitarfélaga eru þeirrar skoðunar, að nauðsynlegt sé að gera ráðstafanir til að tryggja sveitarfélögum fé til hitaveituframkvæmda meira en gert hefur verið til þessa. Það er skoðun Orkustofnunarinnar, að það skuli gert með því að efla hana til að styrkja slíkar framkvæmdir. En það er skoðun Sambands ísl. sveitarfélaga, að eðlilegt sé að gera það á þann hátt að auka fjármagn Lánasjóðs sveitarfélaga til þess að sinna þessu verkefni. Í rauninni eru því báðir þessir aðilar samþykkir því, sem stendur í þessari till., að nauðsynlega sé að gera ráðstafanir til að tryggja sveitarfélögum lánsfé til hitaveituframkvæmda. Eðlilegt framhald af umsögnum þessara aðila hefði auðvitað verið það, að hv. n. hefði lagt til, að hv. Alþ. samþykkti þessa till. Það mundi þá koma í verkahring hæstv. ríkisstj. að gera ráðstafanir varðandi það atriði, á hvern hátt eðlilegast og bezt væri að tryggja sveitarfélögunum hið aukna lánsfé til þeirra framkvæmda, sem hér um ræðir.