03.04.1973
Sameinað þing: 66. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2998 í B-deild Alþingistíðinda. (2370)

9. mál, lánsfé til hitaveituframkvæmda

Fram. (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Hv. 5. landsk. þm. flm. þeirrar þáltill., sem hér er til afgr., var ekki fyllilega ánægður með afgr. fjvn. á till. Ég held, að ástæðulaust sé fyrir hv. þm. að vera óánægður með, að till. verði vísað til ríkisstj. Till. hans hljóðar um, að þingið skori á ríkisstj. að gera ráðstafanir til að tryggja sveitarfélögum ótiltekið lánsfé til hitaveituframkvæmda. Flestar ríkisstj. telja sig hafa verið að reyna að gera ráðstafanir til að tryggja sveitarfélögunum lánsfé til þessara framkvæmda. Það hefur tekizt misjafnlega, m. a. vegna þess, að jafnan er í mörg horn að líta. En eins og fram kom af þeim tölum, sem ég áðan tilgreindi um ráðstafanir stjórnvalda til að efla Lánasjóð sveitarfélaga og þar með stuðning við sveitarfélög vegna hitaveituframkvæmda, hefur núv. ríkisstj. sýnt það í verki, að henni er ljós þörfin á þessu sviði. Það má svo alltaf halda því fram, að ekki sé nóg að gert, og ég er því vissulega sammála, að meira þurfi enn að gera. En á það má minna, að lánveitingar úr Framkvæmdasjóði Íslands til Lánasjóðs sveitarfélaga hafa hækkað úr 25 millj. kr. 1970 í 100 millj. 1972 og lán til hitaveituframkvæmda úr 2 millj. kr. 1969 í 66 millj. kr. s. l. ár. Af lánsfé Lánasjóðs sveitarfélaga, sem runnið hefur frá Framkvæmdasjóði Íslands, hafa 119 millj. farið til hitaveituframkvæmda á s. l. 6 árum, þar af 66 millj. kr. á s. l. ári eða á því eina ári 56% af allri upphæðinni á s. l. 6 árum. Þetta sýnir, að það er verið að vísa till. hv. þm. í hendur ríkisstj., sem verulega hefur bætt úr í þessu efni, og því ástæðulaust annað en treysta henni til að gera það, sem unnt er, til þess að efla framkvæmdir í hitaveitumálum. Það er öðru nær en verið sé að vísa þáltill. hv. þm. út á kaldan klakann. Það má vel vera, að hv. þm. hafi fengið það á tilfinninguna og haft af því spurnir, áður en hann kom á þing, að það þætti heldur neikvæð afgreiðsla á þáltill., ef þeim væri vísað til ríkisstj. En það fer nokkuð eftir því, hverja afstöðu viðkomandi ríkisstj. hefur sýnt í verki til þess máls, sem verið er að afgreiða. Ég sé ekki annað en þær skýrslur, sem ég hef hér vitnað til, sýni, að núv. hæstv. ríkisstj. er fyllilega treystandi til að fjalla á jákvæðan hátt um þessa þáltill., sem öll fjvn. hefur lagt til, að verði til hennar vísað. Afgreiðsla n. er því fyllilega jákvæð gagnvart efni málsins og ástæðulaust fyrir bv. flm. að vera óhress vegna þessarar afgreiðslu.