03.04.1973
Sameinað þing: 66. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3002 í B-deild Alþingistíðinda. (2374)

44. mál, leiga og sala íbúðarhúsnæðis

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ástand í húsnæðismálum þjóðarinnar hefur áreiðanlega aldrei verið jafnískyggilegt og einmitt nú. Húsaleigan hefur farið mjög hækkandi á síðustu vikum og aldrei verið hærri. Ég held, að óhætt sé að fullyrða, að sjaldan hafi húseignir hækkað jafnmikið á jafnskömmum tíma og einmitt núna síðustu mánuðina. Ástæðurnar fyrir þessu eru flestum kunnar. Þótt byggingarstarfsemi sé mikil um þessar mundir og hafi verið mikil undanfarin tvö ár, var mjög lítið byggt á árunum 1967–1970 og skapaðist jafnt og þétt mikil húsnæðisekla, sem er núna að koma í ljós og hefur verið að koma í ljós á síðustu árum. Hin mikla byggingarstarfsemi síðustu tveggja ára, hefur ekki gert miklu meira en að halda í horfinu miðað við hina stórauknu þörf. Síðan bætist það að sjálfsögðu við, að atburðirnir í Vestmannaeyjum hafa markfaldað vandann. Ég hef að vísu ekki neinar tölur um það, hversu margar fjölskyldur hér á þéttbýlissvæðinu við Faxaflóa eru í yfirþyrmandi húsnæðisvandræðum, enda er mér næst að halda, að það hafi ekki verið rannsakað sem skyldi. En ég minnist þess, að þegar úthlutað var fyrr á þessum vetri íbúðum á vegum framkvæmdanefndar byggingaráætlunar, lá það ljóst fyrir, að á þessu sviði væri greinilega um mikla neyð að ræða. Hundruð fjölskyldna, sennilega um 300 fjölskyldur, voru í algerri neyð, með algerlega óhæft húsnæði, og aðrar 300 í sárri vöntun, þótt kannske stæði ekki alveg jafnilla á fyrir þeim og þeim, sem ég fyrr nefndi. Ofan á þetta hefur síðan bætzt sú neyð, sem siglt hefur í kjölfar jarðeldanna í Vestmannaeyjum. Það er ekkert launungarmál, að húsaleiga hefur tekið risastór skref upp á við, alveg sérstaklega nú á síðustu vikum.

Með þeirri till., sem ég hafði lagt hér fram á þskj. 46, er skorað á ríkisstj. að undirbúa frv. til l. um leigu og sölu íbúðarhúsnæðis og leggja það fyrir Alþ. Hér er sem sagt ekki verið að taka neina endanlega ákvörðun í þessu máli. Það er einungis verið að skora á ríkisstj. að láta undirbúa frv., sem taki á þessum vanda, og síðar mundu þá hv. alþm. fái tækifæri til þess að fjalla um það. Ég lít svo á, að þetta verkefni þoli enga bið og einmitt þess vegna sé sjálfsagt og eðlilegt, að Alþ. samþykki þessa till, en fari ekki að vísa henni til ríkisstj. án þess að taka raunverulega nokkra stefnumótandi ákvörðun. En hv. allshn. hefur því miður ekki fallizt einróma á þá málsmeðferð. Hún hefur klofnað um meðferð málsins og meiri hl. n. leggur sem sagt til, að frv. sé vísað til ríkisstj. Minni hl., hv. þm. Jónas Árnason, Bjarni Guðnason og Stefán Gunnlaugsson, leggur til, að till. verði samþ. óbreytt.

Ég er síður en svo að halda því fram, að þótt þessari þáltill. verði vísað til ríkisstj., felist í því algerlega neikvæð afgreiðsla málsins. Okkur er öllum ljóst, að svo er ekki, og ýmislegt það, sem hv. frsm. meiri hl. allshn. sagði áðan, fól í sér viðurkenningu á því, að sú hugsun, sem í till. er fólgin, ætti fyllsta rétt á sér. Hann tók bæði undir þörfina á því, að athugað væri um húsaleigumálin og þá ekki síður um skipulag fasteignasölunnar í landinu. En hitt blasir að sjálfsögðu við öllum, að það er alls ekki nógu jákvæð afgreiðsla á svo brýnu máli, sem enga bið þolir, að því sé einungis vísað úr þinginu til ríkisstj., án þess að nokkur efnisleg afstaða sé tekin til málsins. Í því felst sem sagt engin stefnumótun. Málið er algerlega látið á vald ríkisstj., og það tel ég, að Alþ. eigi ekki að gera. Breytir þar engu um, þótt bæði ég og hv. frsm. n. treystum okkar kæru hæstv. ríkisstj. ágætlega í flestum efnum. Ef um væri að ræða nýtt mál, algerlega nýjar hugmyndir, sem þyrftu nákvæmrar rannsóknar við, gæti ég fallizt á, að það væri sómasamleg afgreiðsla málsins að vísa því til ríkisstj. En þegar um er að ræða svo gamalkunnugt mál, sem allir þekkja svo að segja af daglegri reynslu og þar að auki þolir enga bið, er að sjálfsögðu eðlilegast, að Alþ. móti einhverja stefnu, sem verði þá höfð að leiðarljósi við samningu frv. um þetta efni. Spurningin er sem sagt: Vilja menn setja einhverjar hömlur á hóflausar hækkanir húsaleigu? Ef svo er, þá samþykkja menn hér á Alþ. að fela ríkisstj. að undirbúa frv. um þau efni. Ef aftur á móti hv. þm. vilja þetta ekki, þá er eðlilegast, að það komi fram, og hefði þá verið eðlilegast hreinlega að fella till. eða a. m. k. koma með brtt. við hana. Ég tel, að Alþ. geti alls ekki skotið sér undan að taka afstöðu til þessa mikilvæga atriðis.

Eins er með þá hlið húsnæðismálanna, sem nefnd er í síðari hluta þáltill., þ. e. a. s. um skipulag fasteignasölunnar í landinu. Það er lagt til, að skipulag fasteignasölunnar verði tekið til athugunar og að því stefnt í ákvæðum frv. að stemma stigu við hömlulausum hækkunum verðlags á íbúðarhúsnæði. Það er svo sem ekki mikið sagt með þessum orðum, og manni finnst, að þá ætti að vera svigrúm til að athuga, hvaða leiðir gætu komið þarna til greina. Það hlýtur hins vegar að ráða úrslitum, hvort menn eru ánægðir með ástandið eins og það er, algert eftirlitsleysi á þessu sviði og mjög misjafna þjónustu af hálfu fasteignasala, að ekki sé meira sagt, og síðan hömlulausar hækkanir verðlags á íbúðarhúsnæði, eins og hafa átt sér stað á undanförnum missirum. Ég tel sem sagt, að ef hv. alþm. vilja, að núv. skipulag fasteignasölunnar sé rannsakað gaumgæfilega í þeim tilgangi, að gerðar verði ráðstafanir til að tryggja kaupendum og seljendum íbúða fullkomna og áreiðanlega þjónustu á sanngjörnu verði, eins og þessi till. gerir ráð fyrir, eigi þeir að samþykkja þessa till. og þar með að fela ríkisstj. að undirbúa allar hliðar þess máls.

Ég tel sem sagt, að afskiptaleysi og áframhaldandi frestun og algert stefnuleysi á þessu sviði af hálfu Alþ. eigi ekki við í þessu máli. Ég er ekki ósammála hv. meiri hl. allshn. um það, eins og kemur fram í nál. meiri hl., að öruggasta og hagkvæmasta úrræðið í þessum vanda sé alhliða, skipuleg og markviss efling landsbyggðarinnar, eins og segir í nál. meiri hl. Ég er algerlega sammála þessu. En ég spyr bara: Hafa menn raunverulega þolinmæði til þess að bíða eftir því, að gerðar verði alhliða skipulegar og markvissar ráðstafanir til eflingar landsbyggðinni? Á að bíða með lausn á þessum hrikalegu vandamálum í húsnæðismálum, þar til þessar ráðstafanir verða gerðar? Nei, ég segi fyrir mig, að ég hef ekki þolinmæði til að bíða eftir því. Ég veit, að það eru þúsundir manna hér á þéttbýlissvæðinu, alveg sérstaklega í kringum Faxaflóa, sem skortir þá þolinmæði. Og ég get fullvissað hv. alþm. um það, að býsna margir munu fylgjast vel með því, hvaða afgreiðslu þessi þáltill. hlýtur, og binda áreiðanlega miklar vonir við það, að hv. Alþ. taki afstöðu í þessu máli, grípi sem sagt í taumana og móti ákveðna stefnu. Það er sú lágmarkskrafa, sem menn gera til hv. Alþingis.