03.04.1973
Sameinað þing: 66. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3005 í B-deild Alþingistíðinda. (2377)

55. mál, Hafrannsóknastofnunin

Frsm. (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Fjvn. hefur haft til meðferðar till. til þál. um bætta aðstöðu fyrir Hafrannsóknastofnunina, en í þeirri till. er lagt til, að Alþ. heimili ríkisstj. að kaupa eða láta smíða tvo vélbáta fyrir Hafrannsóknastofnunina. Fjvn. sendi þáltill. til umsagnar Fiskifélagsins og til Hafrannsóknastofnunarinnar, en báðar þessar stofnanir mæltu með því, að heimildin yrði miðuð við smíði á einum báti. Fiskifélagið leggur til, að um yrði að ræða 50 brúttólesta bát samkv. nýju mælingareglunum, en í umsögn Hafrannsóknastofnunarinnar er þess getið, að smíðakostnaður 75 lesta báts sé talinn 26–27 millj. kr., það var fyrir áramótin. Þess má einnig geta, að talið er, að stofnunin eigi nú kost á að kaupa um 50 brúttólesta bát, nýlegan, með hagstæðum kjörum. Fjvn. hefur því einróma samþ. að leggja til, að tillgr. orðist svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að heimila ríkisstj. að kaupa eða láta smíða um 50 rúmlesta vélbát til afnota fyrir Hafrannsóknastofnunina:

Samkv. áætlun, sem Hafrannsóknastofnunin hefur veríð beðin um að gera, er talið, að rekstrarkostnaður slíks báts sé um 4.5 millj. kr. á ári, en á hinn bóginn fellur þá niður kostnaður vegna leiguskipa, sem hefur verið um 3 millj. á ári.

Gert er ráð fyrir, að bátur sá, sem lagt er til, að heimilað verði að kaupa eða smíða fyrir Hafrannsóknastofnunina, stundi rannsóknir á grunnmiðum, og samkv. skýrslu, sem fjvn. hefur aflað frá Hafrannsóknastofnuninni, yrði verkefnaskrá bátsins á næsta ári, þ. e. a. s. 1974, þessi: 15. jan. til 15. febr. Vestfirðir, kúskel, leit og kortlagning miða. 15. febr. til 15. marz Vestfirðir, hörpudiskur, athuganir á veiðisvæði og leit. 15. marz til 30. apríl Ísafjarðardjúp, Arnarfjörður, Húnaflói, rækja, athuganir á veiðisvæðum og leit. 1. maí til 15. maí Eldeyjarsvæði, rækja, athuganir á veiðisvæði og leit. 15. maí til 15. júní Suðvesturland, Suðausturland, humar, magn humarlifra, árlegt prógramm og athuganir á veiðisvæði. 15. júní til 15. júlí Breiðafjörður, hörpudiskur, athuganir á veiðisvæðum og leit. 15. júlí til 15. ágúst Breiðafjörður, rækja, athuganir á veiðisvæðum og leit. 15. ágúst til 30. sept. Arnarfjörður, Ísafjarðardjúp, Húnaflói og Eldey, athuganir á veiðisvæðum og leit. 1.–30. okt. Norðausturland, rækjuleit. 1.–30. nóv. Norður- og Austurland, hörpudisksleit. Og 1.–20. des. Norður- og Austurland, kúskel, leit og kortlagning miða.