03.04.1973
Sameinað þing: 66. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3007 í B-deild Alþingistíðinda. (2381)

89. mál, viðvörunarkerfi á hraðbrautir

Frsm. (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Fjvn. hefur haft til afgreiðslu till. til þál. um sjálfvirk viðvörunarkerfi á hraðbrautir með varanlegu slitlagi. N. sendi till. til umsagnar Vegagerðar ríkisins. Í umsögn Vegagerðarinnar kemur m. a. fram, að það er á misskilningi byggt í grg. með þáltill., að gerð hafi verið af hálfu Vegagerðarinnar áætlun um uppsetningu slíkra viðvörunarkerfa, en s. l. haust hafi verið tekin upp kerfisbundin dagleg könnun á hálku á hraðbrautum út frá Reykjavík á þann hátt að kl. 6 að morgni fari menn frá Reykjavík að kanna Reykjanesbraut, Suðurlandsveg og Vesturlandsveg með tilliti til hálku, og kalla þeir á bifreiðar til sand- eða saltdreifingar, ef þurfa þykir, áður en umferð um vegina hefst að marki. Telur vegamálastjóri, að slíka þjónustu, sem kostar töluvert fé, yrði ekki unnt að leggja niður, þótt sjálfvirk viðvörunarkerfi yrðu tekin í notkun. Umsögn vegamálastjóra fylgir grg. frá Sigfúsi Erni Sigfússyni deildarverkfræðingi um þessi sjálfvirku hálkuviðvörunarkerfi, þar sem m. a. kemur fram, að slíkum búnaði virðist enn þá yfirleitt vera nokkuð áfátt, þannig að tækið gefur ætíð nokkuð af fölskum viðvörunum, ef það á að vara við hálku með fullu öryggi, en það dregur mjög úr gildi viðvörunarkerfa og gæti smám saman rýrt tiltrú vegfarenda á kerfinu. Tæki þessi munu einkum hafa verið notuð á einstökum hlutum vega með mjög mikilli umferð, svo sem brúm. Kemur fram, að verkfræðingar Vegagerðarinnar hafa því ekki hirt um að kynna sér sérstaklega þessi tæki, þau séu ekki auglýst og sjaldan rædd í sértímaritum um vegamál. Er talið, að til þess að velja gerð tækja og gera sér hugmynd um kostnað þyrfti að framkvæma sérstaka könnun og e. t. v. leita tilboða, en slíkt tekur óhjákvæmilega nokkurn tíma.

Að öllu þessu athuguðu leggur fjvn. til, að orðalagi þáltill. verði breytt á þann veg, að í stað þess, að skorað verði á ríkisstj. að fela Vegagerðinni að koma upp sjálfvirku viðvörunarkerfi, verði við það miðað, að Vegagerðin kanni notagildi slíks útbúnaðar við hérlendar aðstæður, svo og kostnað við uppsetningu og rekstur tækjanna, og till. verði orðuð svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að fela Vegagerð ríkisins að gera ítarlega könnun á notagildi sjálfvirkra hálkuviðvörunarkerfa miðað við aðstæður hér á landi og kostnað við uppsetningu og rekstur þeirra.“