03.04.1973
Sameinað þing: 66. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3012 í B-deild Alþingistíðinda. (2384)

199. mál, skipulag byggðamála

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til þess að fagna framkominni þáltill. frá hv. sjálfstæðismönnum. Mér sýnist þar um töluverða stefnubreytingu að ræða hjá þeim hv. þm. Að vísu var frsm. mjög ánægður með hlut síns flokks í meðferð þessara mála á undanförnum árum, en ekki eru allir meðflm. hans honum sammála. M. a. kom það fram hjá hv. 2. þm. Vestf. í umr. hér á Alþ. fyrir nokkrum dögum, að hann telur, að hraði og meðferð þessara mála hefði mátt vera meiri og betri í stjórnartíð sjálfstæðismanna. En það er ekki ástæða til að vera að rifja þetta upp. Það er miklu frekar ástæða til að fagna þessari stefnubreytingu, sem ég orða svo. Og ég sé enga ástæðu til annars en að þarna geti orðið góð samstaða um raunhæfar aðgerðir til eflingar byggð og betra jafnvægis um land allt.

Ég ætla ekki að fara að rekja einstaka liði þessarar þáltill. Ég get í fljótu bragði tjáð mig fylgjandi ýmsu, sem þar kemur fram, enda, eins og raunar kom fram í umr. um þáltill. um svipað efni, sem ég flyt ásamt tveimur öðrum hv. þm., var fjölmargt í minni framsöguræðu og sérstaklega nefnt af hv. 2, þm. Vestf., sem þessir hv. þm. telja sig geta fylgt, og raunar kemur furðumargt af því fram í þeim liðum, sem upp eru taldir í þessari þáltill., sem nú er til umr. Engu að síður er það óbreytt skoðun mín frá því, sem þá var, að það séu skynsamlegri vinnubrögð að skoða þessi mál sem vandlegast. Ég er ekki reiðubúinn að segja, að þessi lausn, sem hér er bent á, sé sú eina rétta. Ég vil kanna málin betur og ræða þau vandlega. Ég vil ekki láta samþ. ákveðna tilhögun þessara mála í einhverjum flýti og þvó síðan hendur mínar og segja: Nú hefur nóg verið gert í þessum málum og þeim verið skipað í réttan bás og komið á rétta leið.

Mér sýnist því, að eðlileg meðferð sé að vísa þessu máli til þeirrar mþn., sem lagt er til að sett verði á fót í þeirri till., sem ég hef leyft mér að flytja hér á þinginu. Sýnist mér raunar sjálfsagt, að þannig verði skoðuð -ll þau atriði, sem þarna koma fram, og fjölmörg fleiri.

Ég get upplýst það, að mér er kunnugt um, að íslenzkur fræðimaður er nú að búa sig undir ítarlega athugun á þeim leiðum, sem aðrar þjóðir hafa valið í svipuðum málum, og mun hann gera tilraun til að meta árangur þeirra, e. t. v. með nokkurri hliðsjón af því, hvernig þær mættu reynast hér á landi. Ég er þeirrar skoðunar, að slík vinnubrögð séu skynsamleg, og læt það ekki á mig fá, þótt reynt sé að gera lítið úr því, að í fyrri þáltill. er rætt um að kanna málin. Ég held, að könnun sé til alls fyrst og að ana og flana sé aldrei til góðs. Ég er þó ekki að segja, að svo sé gert með þessari till., en legg áherzlu á, að þessi atriði og fjölmörg önnur ber að skoða mjög vandlega, áður en almenn stefna er mörkuð í þessu mjög svo mikilvæga máli. Ég vil því leyfa mér að vona, að þessi till. fái skjóta afgreiðslu hjá n., sem fær hana til meðferðar og verði skoðuð ásamt þeirri þáltill., sem þar er nú. Skoða þarf fjölmargt fleira. Ég vil vekja athygli á ítarlegum frv., sem lögð hafa verið fram hér af hv. framsóknarmönnum um atvinnumálastofnun og fjölmargt annað í þessu sambandi. Öll þau mál ber nú að draga fram og kanna þau og skipa síðan þessum mikilvæga málaflokki þannig, að okkur sé sómi að.