04.04.1973
Efri deild: 82. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3023 í B-deild Alþingistíðinda. (2399)

79. mál, hafnalög

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þó að þetta sé allþýðingarmikið mál og ég leggi þunga áherzlu á, að það fái afgreiðslu fyrir lok þessa þings, tel ég samt ekki ástæðu til þess að fara um það mörgum orðum að þessu sinni, m. a. af þeirri ástæðu, að það var lagt fram hér í hv. deild á síðasta þingi og þá kynnt allrækilega efnislega. Frv. var samið af mþn., sem ég held að hafi vandað mjög til síns verks og það sé alveg óumdeilanlegt, að ýmsar breytingar, sem gerðar eru frá gildandi hafnalögum, miði í rétta átt. Það telst sennilega rétt átt í þessu sambandi, að létt er nokkuð á byrðum hinna aðþrengdu hafnarsjóða og þær færðar yfir á ríkissjóð. Einkanlega er að þessu stefnt með ákvæðinu um það, að margvíslegar hafnarframkvæmdir, sem áður fengu aðeins 40% styrk úr ríkissjóði, falla nú undir það ákvæði að njóta 75% framlags.

Hafnamálasambandið hefur einnig farið rækilega í þetta mál og rætt frv. á þingi sínu. Það gerði að vísu till. um ýmsar minni háttar breytingar frá því, sem fólst í frv. mþn., og hefur nú við endurframlagningu frv. verið komið nokkuð inn á þessar brtt. Hafnamálasambandsins og sumar þeirra teknar til greina, þó ekki allar. Ein var sú till., sem Hafnamálasambandið gerði, að setja sérstaka hafnamálastjórn með hafnamálaskrifstofunni, en á það hefur ekki verið fallizt.

Þetta frv. var lagt fram í hv. Nd. að þessu sinni og hefur fengið afgreiðslu þar án breytinga frá því, sem þingnefndin lagði til. Við endurframlagningu frv. var horfið frá því að hafa 2. bráðabirgðaákvæði, sem var með frv., þegar það var lagt fram í fyrra, en í hv. Nd. var það tekið upp á ný. Er það varðandi það, hversu með skuli fara, þegar vandamál rísa út af því, að dráttarbraut er í eign einstaklings og þarf að bjarga við rekstri hans. Skal þá opinber aðstoð koma til eða framlög til fyrirtækisins, sem yrðu eignarhlutdeild hins opinbera í fyrirtækinu.

Ég held, að alger eining hafi verið í hv. Nd. um þetta mál. Enginn ágreiningur var í n. um afgreiðslu þess. Læt ég því þessi orð nægja og óska þess, að frv. verði að umr. lokinni vísað til hv. samgn. Ég endurtek þá ósk mína, að málið fái fullnaðarafgreiðslu í deildinni fyrir þinglok.