04.04.1973
Efri deild: 82. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3024 í B-deild Alþingistíðinda. (2401)

69. mál, Hæstiréttur Íslands

Frsm. (Björn Fr. Björnsson) :

Herra forseti. Þetta frv. til breytinga á lögum um hæstarétt hefur legið alllangan tíma fyrir allshn. þessarar hv. deildar, og hefur hún einróma samþ. fyrir nokkru að mæla með frv.

Efni frv. er aðallega með tvennum hætti. Annars vegar mælir frv. fyrir um það, að fjölga skuli dómurum í hæstarétti, og í öðru lagi er mælt fyrir um að breyta ýmsum frestum frá því, sem nú er, til þess horfs, sem talið er hentugra. Nokkrar breytingar aðrar eru gerðar.

Eins og segir í grg., er orðið mikið álag á dómendum í hæstarétti. Þeir eru fimm í dag, þ. e. a. s. jafnmargir og í öndverðu, 1920, þegar Hæstiréttur Íslands var stofnaður. En víðs vegar við dómaraembætti, svo að segja um allt land og þá ekki sízt hér í Reykjavík, hefur fjölgun dómara verið æðimikil og ekki sízt á seinni árum. Það sýnist því vera eðlilegt, að nú komi til nokkurrar fjölgunar dómenda í hæstarétti. Og það verður að segja eins og er, að það er margra kunnugra manna álit, að ekki sé stefnt of hátt með því að bæta einum dómanda við, heldur væri miklu fremur réttara að fjölga þeim upp í sjö. En það hefur ekki þótt fært að þessu sinni, og verður við svo búið að standa.

Þetta frv. gerir auk þess ráð fyrir því, að komið verði á nokkurri vinnuskiptingu innan dómsins við úrlausn einstakra mála. Er lagt til í frv., að til þess geti komið, að aðeins 3 manna dómur fjalli um mál, þ. e. a. s. hin smærri mál svokölluð, og þau eru talin upp í 2. gr.: Einkamál, ef úrslit máls eru hvorki mikilvæg frá almennu sjónarmiði né varða sérstaklega mikilvæga hagsmuni aðila, og í opinberum málum, ef refsing, sem getur legið við broti, er ekki þyngri en varðhald eða 2 ára fangelsi. En samt sem áður verður meginreglan sú, að 5 dómendur skipi dóm. Svo er ákvæði um það, hvernig skipta skuli verkum, og þá er gert ráð fyrir því í frv., að dómarafundur ákveði hverju sinni um starfstilhögun, starfsskiptingu og deildaskiptingu.

Allt frá upphafi laga um hæstarétt hafa verið sérstök ákvæði um setudómara. Hafa þeir oft komið til og dæmt í málum, sem eðlilegt er, þegar hinir reglulegu hæstaréttardómarar hafa ekki getað dæmt í máli. Til setudómarastarfa hafa að sjálfsögðu valizt hinir fremstu lagamenn utan hæstaréttar, svo sem prófessorar lagadeildar, hæstaréttarlögmenn og héraðsdómarar þeir, sem hafa mjög með dómsstörf að gera í embætti. Við þá breytingu, sem nú er lögð til í frv., að fjölga um einn dómanda, má gera ráð fyrir því, að ekki þurfi eins að leita til setudómara. Það er svo t. d., að því er ég bezt veit, víðast hvar við hæstarétt á Norðurlöndum, að ekki þykir hlýða að kveðja til starfa í þeim dómum lögfræðinga utan hæstaréttar. Þess vegna eru þar bæði margir dómendur og ekki nema nokkur hluti dómenda hverju sinni, sem tekur þátt í meðferð máls, úrskurðum og dómum.

Þá eru nokkur atriði önnur í frv. til breytinga, sem ég vil rétt minnast á. Það er t. d. lagt til, að lágmarks áfrýjunarupphæð hækki úr 5 þús. kr., sem hún er í dag samkvæmt lögum, í 25 þús. kr. Þetta er að sjálfsögðu gert til þess að fækka minni háttar málum, ef verða mætti, sem koma og hafa komið til kasta hæstaréttar, og þykir eðlilegt miðað við verðlag og peningagildi, eins og það er nú í dag. Þá er lagt til, að þótt fjárkrafa nái ekki áfrýjunarupphæð 25 þús. kr., geti hæstiréttur mælt með áfrýjun eigi að síður. Þykir eðlilegt. að hæstiréttur hafi nokkur afskipti af því, hvort heimil sé áfrýjun. Þó að mál nái ekki áfrýjunarupphæð, kann það eigi að síður að vera mikilsvert mál og hæstiréttur eigi að taka það fyrir til meðferðar. Og eins og ég sagði í upphafi, er enn fremur breytt ákvæðum um fresti, sem þykir sjálfsagt og til samræmis.

Ég vil geta þess, að umsagnir hafa borizt frá lagadeildinni og frá Lögfræðingafélagi Íslands. Lagadeildin telur sig fylgjandi meginbreytingum í frv., en vekur jafnframt athygli á því í umsögn sinni, að það sé tímabært, að hæstiréttur fái enn fremur til aðstoðar löglærða starfsmenn til undirbúnings dómum, þar sé um geysimikla vinnu að ræða og eðlilegt, að dómendur fengju slíka aðstoð. En um það er ekki að ræða í þessu frv., eins og það liggur fyrir, og heyrir það til framtíðarinnar. Þá telur lagadeildin æskilegt, að breytt sé 2, mgr. í 2. gr. frv. þannig, að bætt verði við, að dómurinn ákveði, hverjir af hinum reglulegu dómendum hæstaréttar skipi dóm í máli hverju. Þeir skjóta þarna inn setningunni: „hverjir af hinum reglulegu dómurum hæstaréttar“ skipi dóm í máli, en í gr. segir: „Dómurinn ákveður, hve margir dómarar og þá hverjir skuli skipa dóm í máli.“ Það mætti e. t. v. ætla, að þessi till. lagadeildarinnar gerði gr. svolítið skýrari. En ég tel, að það sé ekki. Það gætu komið fram þær aðstæður, að það orðalag, sem lagadeildin bendir á, hinir reglulegu hæstaréttardómarar, gæti valdið nokkrum erfiðleikum, t. d. ef margir af hinum reglulegu dómurum vikju úr sæti, sem getur vel komið til. Það hefur oft komið fyrir, að jafnvel 3 dómendur hafi orðið að víkja úr sæti og orðið að kveða til setudómara. Þá eru þessir setudómarar ekki hæfir til þess að ákveða um málsmeðferð. Frvgr., sem hæstaréttardómarar sjálfir hafa samið, sýnist eðlileg og á alls ekki að geta valdið neinum misskilningi. Þessi brtt., sem lagadeildin hefur orðað, er í sjálfu sér ekki þess eðlis, að talið verði rétt að hrófla við frv. hennar vegna.

Þá er lagadeildin með aðra till., og það er seinni till., að mál skuli fara úr þriggja manna dómi í fimm manna dóm og vera flutt að nýju, ef ágreiningur verður í þriggja manna dómi um dómsorð. Við þessa till. er það að athuga, að áður en dómurinn í heild tekur ákvörðun um, hvort dæma skuli mál í þrískiptum dómi, hefur að jafnaði komið fram, hvort nokkur þau atriði geti verið svo vafasöm, að ágreiningi kunni að valda. Dómendur gera sér í upphafi fulla grein fyrir því, ekki sízt vegna þess, að mál yfirleitt, sem annars kæmu í þriggja manna dóm, væru ekki svo mikilvæg í eðli sínu, að ekki væri hægt að ganga úr skugga um það nokkurn veginn, þótt slíkt mætti kannske fyrir koma, að ágreiningur yrði. Ef dómendur telja, að ágreiningur kunni að koma upp, þá verður auðvitað dómurinn fullskipaður. Yfirleitt eru þau mál, sem mundu koma fyrir þrískipaðan dóm, þess eðlis, að þau eru einföld og yfirleitt ekki óþægilegt að ganga frá þeim að meðferð eða úrslitum. En aftur á móti yrði flutningsreglan þannig, að yrði ágreiningur um mál í þrískipuðum dómi, 2 gegn 1, þá ætti að fara í fullskipaðan dóm með málið og flytja það að nýju. Yrði þá í raun og veru vinningurinn við heimildina til deildaskiptingar enginn. Svo má minna á það, að í fimmskipuðum dómi getur og hefur oft orðið ágreiningur, og er ekki talið út af fyrir sig óeðlilegt. En hitt er annað, að ef ágreiningurinn er 2:1, í þrískipuðum dómi og 3:2 í fimmskipuðum dómi, þá er öryggið nokkurn veginn jafnt í hvoru tveggja tilvikinu. Þess vegna verður að telja, að þessarar brtt. sé ekki sérstaklega þörf, enda sýnast lagadeildarmenn ekki leggja sérstaka áherzlu á þessar till. sínar, þó að þeir drepi á þær í sinni umsögn.

Þá telur lagadeildin æskilegt, að lög um hæstarétt verði tekin til gagngerðrar endurskoðunar á næstunni, og verður að sjálfsögðu að fallast á nauðsyn þess og enn fremur að lagadeildin, þegar þar að kemur, verði kvödd til ráða. Það er í raun og veru alveg sjálfsagt, og þarf vart að taka það fram.

Lögfræðingafélag Íslands hefur haft þetta mál, eins og ég sagði, til endurskoðunar og hefur gert sams konar eða mjög svipaðar till. og lagadeildin, og mun ég ekki ræða þær frekar. En félagið mælir með samþykkt frv. og tekur fram, alveg eins og lagadeildin, að það telji rétt og sjálfsagt, að lög um hæstarétt verði endurskoðuð sem allra fyrst.

Þá vil ég geta þess, sem olli því, að við héldum æðimarga fundi um þetta mál. Það voru umræður um lífeyrisgreiðslur úr Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins til hæstaréttardómara, sem látið hafa af embætti. Ég held, að ég megi segja það, að allir nm. hafi verið á einu máli um, að til framtíðar mætti ekki við svo búið standa og yrði að breyta löggjöf á þá lund, að þeir embættismenn, það eru hæstaréttardómarar í þessu tilviki, sem hafa full laun, eftir að þeir hætta starfi, fái ekki greiðslur úr Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Réttur til lífeyris ætti sem sagt að miðast við það, að launagreiðslum til viðkomandi sjóðfélaga væri hætt. Ég held, að ég megi segja það, að ýmsir hæstaréttardómarar á liðnum árum, sem hafa látið af starfi, hafi ekki tekið lífeyri. Það hef ég heyrt og hef fyrir satt, þannig að þetta mál hefur opnast nú á allra síðustu árum. Það er alveg ljóst, að hér þarf breyting að eiga sér stað. Og í nál., sem þykir nú heldur veikt orðað í þessu efni að áliti ýmissa nm., segir, að réttur til lífeyris ætti að miðast við það, að launagreiðslum til sjóðfélaga væri hætt og þessari reglu ætti að koma á, áður en fjölgað yrði hæstaréttardómurum. En sem sagt, eins og ég sagði, hafa sumir nm. talið, að hér væri of vægt að orði komizt í nál., og það má vel vera. Á hitt er þá að líta, að það eru ekki aðeins hæstaréttardómarar, sem koma inn í endurskoðun lífeyrissjóðslaganna, heldur eru það ýmsir aðrir embættismenn, þannig að athugun á þessum málum nær lengra en til umboðsstarfalausra dómara. Þetta tekur eðlilega sinn tíma, en ég veit, að endurskoðun er nú í fullum gangi að því er þetta mál varðar, og má alveg eins búast við því, að henni verði lokið fyrr en seinna. Þess vegna er eðlilegt að láta endurskoðun ganga fram til fulls og ríkisstj. komi síðan á framfæri sem fyrst þeim breytingum, sem m. a. er ætlazt til í nál.

Við nánari athugun kom í ljós, að lagfæringar er þörf við 9. gr. frv. Þar segir, að ákvæði l. skuli ekki koma til framkvæmda fyrr en 1. apríl 1973. Nú er það mark úr sögunni, og ég hef leyft mér að flytja brtt., sem á að vera til bóta á þessari missmíð. Leyfi ég mér að leggja hana hér fram fyrir hæstv. forseta. Hér þarf tvöfaldra afbrigða við. Till. er bæði skrifleg og of seint fram komin, en ég vil lesa hana upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Við 9. gr. 1. mgr. orðist svo:

Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1973. Ákvæði 5. gr., 6. gr., 2. og 3. mgr. 7. gr. og 8. gr. taka til mála, sem stefnt er til hæstaréttar eftir þann tíma.“

Þá hef ég séð, að það liggur brtt. á borðum okkar þm. varðandi það frv., sem hér er til umr., till., sem hv. þm. Geir Gunnarsson flytur, en hann var fjarverandi, þegar n. afgreiddi frv. Ég hef rétt litið á brtt. N. hefur ekki rætt brtt., sem ekki er von. Ég tel rétt við svo búið að láta vera að tala um till. frekar og bíða, þar til tillögumaður hefur lokið sinni framsögu um hana. Það verður þó að segja eins og er, að hún á mjög skylt við þá allsherjarskoðun, sem ríkti í allshn.