04.04.1973
Efri deild: 82. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3029 í B-deild Alþingistíðinda. (2404)

69. mál, Hæstiréttur Íslands

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Út af brtt. hv. 10. landsk. þm., Geirs Gunnarssonar, og þeim umr., sem hér hafa farið fram um eftirlaun hæstaréttardómara, vil ég segja frá því, að áður en ég kom í fjmrn., hafði verið gerð athugun á réttindum hæstaréttardómara til eftirlauna við brottför úr hæstarétti, þ. e. fullum launum og lífeyrisréttindum. Það var shlj. álit þeirra lögfræðinga, sem skoðuðu málið þá, að samkv. stjórnarskránni ættu hæstaréttardómarar rétt á fullum eftirlaunum, þegar þeir létu af embætti. Þetta mun hafa verið til umr. milli fyrrv. fjmrh. og ráðuneytisstjóra, áður en stjórnarskiptin urðu, og var svo tekið til athugunar áfram.

Í haust fékk ég Gauk Jörundsson prófessor og Hákon Guðmundsson borgardómara, sem unnið höfðu að þessum málum áður, og bað þá að taka málin fyrir á nýjan leik og þá með tilliti til þess, að þó að þetta ákvæði, sem væri stjórnarskrárákvæði, stæði, yrði gengið að hinu atriðinu, lífeyrisréttindunum, eftir að dómarar létu af störfum. Jafnhliða fól ég þeim að athuga þetta mál á víðtækari hátt, þegar um væri að ræða aðila, sem ættu eftirlaunarétt í mörgum lífeyrissjóðum og gætu þess vegna fengið hæstu launin, eftir að þeir létu af störfum. Nú var það von mín, að ég yrði búinn að fá þessi frv. í hendur, sem munu verða tvö frv., annað, sem snertir hæstaréttardómara, og hitt, sem snertir þessi mál almennt, svo að ég gæti lagt þau fram hér á hv. Alþ. En ég get lýst því yfir, að það verður gert, og ég vona, að það sé stutt í það, eftir þeim upplýsingum, sem ég fékk síðast, að ég fái frv. í hendur. Það, sem ég held, að hafi verið að vefjast fyrir þeim, hvernig ætti með að fara, var þegar hlutaðeigandi persónur væru búnar að greiða í lífeyrissjóði, ef það væru menn, sem hefðu verið áður embættismenn. Hitt var ekkert vafamál að stöðva lífeyrissjóðsgreiðslurnar, eftir að þeir tækju sæti í hæstarétti. Get ég því gefið þá yfirlýsingu, að ég er sammála hv. þm. Geir Gunnarssyni og nál. því, sem hv. 4. þm. Sunnl. lýsti um stefnu í þessu máli. Ég mun reyna að koma því til þingsins eins fljótt og ég hef nokkur tök á og hef sem sagt beitt mér fyrir því, að það kæmi hér fram og skæri á þessa línu, sem hv. þm. gat um.