04.04.1973
Efri deild: 82. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3035 í B-deild Alþingistíðinda. (2411)

69. mál, Hæstiréttur Íslands

Frsm. (Björn Fr. Björnsson) :

Herra forseti. Ég tel, að þessi till. á þskj. 502 eigi ekkert erindi inn í heildarlöggjöf um Hæstarétt Íslands, hún eigi heima, ef til kæmi, á allt öðrum stað í löggjöf, og það auðvitað í löggjöf, sem fjallar um lífeyrissjóð ríkisstarfsmanna. Enn fremur lít ég svo á, að hæstv. fjmrh., af máli hans að dæma hér áðan, sé á sömu skoðun og nm. í allshn., að óhæft sé það fyrirkomulag, sem nú er talið gilda um lífeyrismál hæstaréttardómara, að því er varðar lífeyrissjóð ríkisstarfsmanna. Í þessari till. segir m. a.: „skal ekki njóta lífeyris“. Nú er margs konar lífeyrir til, t. d. ellilífeyrir og annar lífeyrir. Er þá meiningin yfirleitt, að hæstaréttardómarar t. d. eigi ekki að njóta ellilífeyris eða annars lífeyris, sem þeir kaupa sér alveg sérstaklega? En hvað sem túlkun minni líður, endurtek ég það, að ég tel, að bráðabirgðaákvæði eins og þetta eigi alls ekki heima þarna.

Hæstv. fjmrh. hefur upplýst, að endurskoðun á lífeyrissjóðsmálunum sé nú í fullum gangi, og enn fremur gefið yfirlýsingu um áformaða löggjöf til breytingar á þeirri missmíð, sem við teljum vera á lífeyrissjóðslöggjöfinni að því er varðar þessa starfsmenn, sem hér ræðir um. Ég hlýt að sjálfsögðu að treysta þessari yfirlýsingu hæstv. ráðh. og mun því greiða atkv. gegn till. á þskj. 502.