04.04.1973
Efri deild: 82. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3036 í B-deild Alþingistíðinda. (2415)

69. mál, Hæstiréttur Íslands

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Ég get að vissu leyti verið sammála hv. formanni allshn. um, að efni brtt. minnar eigi kannske ekki vel heima í lögum um hæstarétt. En það er að mínum dómi ekki um annað að ræða. Ég hef reynt það, sem unnt hefur verið, til að fá það fram, að efnisbreytingin stæði á réttum stað, þ. e. a. s. í lögum um lífeyrissjóð opinberra starfsmanna. Það hefur ekki fengizt, og þess vegna er þetta eina ráðið, sem ég hef komið auga á, til þess að koma í veg fyrir, að sá dómari, sem ráðinn yrði til hæstaréttar samkv. þessum l., njóti þeirra fáránlegu réttinda, sem nú gilda um þá, sem þar sitja.

Í tilefni af því, sem hv. formaður n. sagði um það, hvort það ætti að hafa af þessum mönnum réttinn til alls annars lífeyris, held ég að umr. hér fram að þessu hafi skýrt það rækilega, hvað verið væri að tala um. En ég get lýst því yfir af minni hálfu, að þar er aðeins átt við það, að hæstaréttardómarar geti ekki samtímis fullum launum samkv. stjórnarskránni notið lífeyris úr lífeyrissjóði opinberra starfsmanna. Ég held, að þetta sé ósköp einfalt og ljóst og eftir þær umr., sem hér hafa farið fram, þurfi enginn að velkjast í vafa um það.