04.04.1973
Neðri deild: 75. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3038 í B-deild Alþingistíðinda. (2429)

221. mál, aðstoð ríkisins við kaupstaði og kauptún vegna landakaupa

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þetta frv. felur það eitt í sér, að ákvæði l., sem verið hafa í gildi um aðstoð við landakaup í kaupstöðum og kauptúnum og giltu fyrir tímabilið 1963–1972, um 10 ára tímabil, en lauk í árslok 1972, verði framlengt með þeirri einu breytingu, að í stað þess að á fyrra 10 ára tímabilinu var aðeins varið til þessa 3 millj. kr., er í þessu frv. lagt til, að upphæðin verði 10 millj. kr., sem ríkissjóður leggur til. Ákvæði eru um það í frv., að aðstoðin megi nema allt að 60% af kostnaðarverði hins keypta lands eða lægri hundraðstölu, en hámarkið er 60%.

Það hefur verið hin fyllsta þörf fyrir þessa aðstoð við kauptún og kaupstaði, og hefur á 10 ára tímabilinu, sem l. giltu, verið varið 34 821.288 kr. til slíkrar aðstoðar við landakaup. Hefur þó oft verið nokkurt bil á því, að hægt væri að veita þá aðstoð, sem sveitarfélögin hafa óskað eftir. En það er síður en svo, að þessari þörf sé fullnægt. Því er lagt til, að framlenging verði gerð um næsta 10 ára tímabil að því er þetta snertir í sama formi. Liggja fyrir fjöldamargar umsóknir um slíka aðstoð, eins og nánar er gerð grein fyrir í þskj.

Þetta mál skýrir sig sjálft. Sú 10 millj. kr. upphæð, sem hér er lagt til, að ríkissjóður greiði í þessu skyni, er aðeins ríflega sambærileg við þá 3 millj. kr. upphæð, sem ákveðin var fyrir 10 árum. Þetta er vissulega algerlega í lágmarki. Ég hefði helzt óskað þess, að þessi upphæð væri ekki neðan við 15 millj. kr. á ári, en samkomulag hefur orðið um, að þetta væri nánast sama upphæð, framreiknuð miðað við það, sem verið hefur.

Ég legg til, herra forseti, að málinu verði að umr. lokinni vísað til hv. félmn.