04.04.1973
Neðri deild: 75. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3039 í B-deild Alþingistíðinda. (2430)

221. mál, aðstoð ríkisins við kaupstaði og kauptún vegna landakaupa

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins lýsa ánægju minni yfir því, að þetta frv. er komið fram, og læt í ljós þá von, að það fái afgreiðslu á þessu þingi. Eins og fram kemur í grg. með frv., er þörfin augljós, og hún er raunar miklu meiri en kemur fram á upptalningunni hér, þar sem talin eru upp þau sveitarfélög, sem eiga óafgreiddar umsóknir um lán úr landakaupasjóði. Mér er kunnugt um fjölmörg sveitarfélög, sem hafa ekki sent umsóknir einfaldlega vegna þess, að þau hafa vitað, að ekki yrði unnt að verða við þeim.

Hér er orðið við tilmælum Sambands ísl. sveitarfélaga um, að áfram verði veitt fé úr ríkissjóði til þess að styrkja sveitarfélög við landakaup, og fyrir það vil ég þakka. Ég vil aðeins geta þess, og það gæti orðið til athugunar fyrir þá n., sem fær frv. til athugunar, að komið hafa fram hugmyndir hjá stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga um, hvort ekki væri rétt að gera landakaupasjóðinn að sérstakri deild í Lánasjóði sveitarfélaga. Það var um þetta ályktað á fundi sambandsstjórnar 13. febr. s. l., þar sem framkvæmdastjóra var falið að athuga þetta mál, og eins og ég sagði, að landakaupasjóður verði gerður að sérstakri deild í Lánasjóði sveitarfélaga, en hafi sérstaka fjárveitingu úr ríkissjóði.