31.10.1972
Efri deild: 8. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í B-deild Alþingistíðinda. (245)

46. mál, námulög

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Mér kemur það dálítið á óvart að heyra jafnmiklar efasemdir um þetta frv. og fram komu í máli hv. þm. Þorvalds Garðars Kristjánssonar. Því að það er nú svo einkennilegt um þetta frv., — og það er ekki þannig ástatt um mörg frv., — að það var fyrst flutt af hæstv. fyrrv. ríkisstj., viðreisnarríkisstj. Það var samið af þremur kunnum mönnum: Árna Snævarr, ráðuneytisstjóra; Gizuri Bergsteinssyni fyrrv. hæstaréttardómara og Þórði Eyjólfssyni fyrrv. hæstaréttardómara. Ég tel víst, að fyrrv. stjórnarflokkar, Sjálfstfl. og Alþfl., hafi fjallað gaumgæfilega um málið innan sinna raða, áður en það var lagt fram sem stjórnarfrv. af fyrrv. ríkisstj. Ég dreg ekki í efa, að jafnmikill valdamaður í Sjálfstfl. og Þorvaldur Garðar Kristjánsson hefur fengið að fjalla um þetta mál og verið sammála því, að það yrði lagt fram af þáverandi ríkisstj. Þess vegna á ég erfitt með að skilja, hvernig þessar efasemdir koma upp, þegar núv. ríkisstj. tekur málið upp, fellst á stefnu þess í meginatriðum og gerir málið að sinu. Mér finnst það í sjálfu sér vera afar ánægjulegt, að ríkisstj., sem hafa mjög andstæð sjónarmið, geti engu að síður staðið á sama hátt að tilteknum málum, og ég hafði satt að segja ímyndað mér, að um það gæti tekizt mjög víðtæk samstaða að afgreiða þetta mál hér á þingi.

Að sjálfsögðu hef ég ekkert við það að athuga, að frv. verði gaumgæfilega athugað af hv. iðnn. Ed., og að þar verði þau atriði, sem hv. þm. vék að, t.d. að það ætti að skilgreina orðið jarðefni, að það þyrfti að fjalla um efni í vatni og hverum o.s.frv. Á hitt vil ég leggja áherzlu, sem ég gerði og áðan, að ég tel, að það sé ekki vansalaust fyrir Alþ., ef það getur ekki afgreitt frv. eins og þetta, þegar búið er að leggja það fyrir 2 þing áður. Ég er hræddur um, að það gefi ekki skemmtilega mynd af vinnubrögðum okkar hv. alþm., ef við getum ekki komið því í verk að fjalla um mál af þessu tagi á þremur þingum og koma því í framkvæmd. Hvað snertir þessi atriði, sem hv. þm. vék að, hefði honum að sjálfsögðu verið í lófa lagið að afla sér vitneskju um þau og hafa á þeim tilteknar skoðanir sjálfur nú á þessu þingi, því að hann vissi það gjörla á síðasta þingi, að þetta mál mundi koma fram.

Að öðru leyti skal ég ekki gera við þetta frekari aths., en ég legg á það áherzlu, að óhjákvæmilegt er, að sett verði ný námulög og það verði gert á þessu þingi og verði ekki tafið enn þá einu sinni.