04.04.1973
Neðri deild: 75. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3050 í B-deild Alþingistíðinda. (2452)

223. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Hér hafa svo margir ágætir ræðumenn lagt gott til málanna. að ég hef í rauninni litlu við það að bæta. Ég vil þó sérstaklega þakka hæstv. félmrh. fyrir ágætt framsöguerindi, þar sem hann skýrði efni þessa frv. og innihald. En þar sem komið hefur hér til tals að jafna byggðaþróunina í landinu, vildi ég aðeins segja, að það hefur verið ákaflega mikið talað um jafnvægi í byggð landsins, svo að það hefði átt að vinna að því að minnka þensluna héðan á Reykjavíkursvæðinu og gera meira í staðinn fyrir landsbyggðina. Það hefur ekki verið gert. Venjulegur húsbyggjandi í Reykjavík hefur verið settur við alveg nákvæmlega sama borð og fólkið úti á landi, þannig að þar hefur byggðasjónarmiðið ekki verið haft efst í huga, þ. e. a. s. húsnæðismálalánin hafa verið jafnhá alls staðar. Þau hafa meira að segja verið langtum betri varðandi þær framkvæmdir, sem kenndar eru við Breiðholt. Og eins og kom áðan fram hjá hv. þm. Lárusi Jónssyni, þá var það að vísu útkoma úr samningum verkalýðsfélaganna hér syðra, en mér finnst það nokkuð einkennilegt, ef verkalýðshreyfingin vill vera í fararbroddi í því verki að stuðla að aukinni stækkun Stór-Reykjavíkursvæðisins á kostnað landsbyggðarinnar.

Það er þannig nú, að heildarfjármagnið, sem Húsnæðismálastofnunin hefur á þessu ári til ráðstöfunar, er um 1200 millj. Af þessum 1200 millj. fara 400 millj. strax í framkvæmdir í Breiðholti, 1.50 millj. til þeirra verktaka, sem þegar er búið að semja við, 105 millj. í yfirdrátt í Seðlabankanum, 380 millj. í seinnihlutalán, sem búið er að taka fyrri hlutann af áður, og svo mætti lengur telja, þannig að það eru ekki nema 29 millj. eftir, þegar allt þetta hefur verið talið, og Breiðholtsframkvæmdirnar hafa vissulega verið allmikill baggi á sjóðnum.

Ég hef lengi haft þá skoðun, að það hefði verið skynsamlegast til þess að hjálpa fólki til að setjast að úti á landi og gera það æskilegra, að menn byggðu þar hús. að húsnæðismálalánin yrðu jafnvel hærri til fólks, sem væri að byggja úti á landi, heldur en þeirra, sem eru að byggja í þéttbýlinu. Þetta er alls ekki nein frumleg hugmynd og er víða í „praxis“ í útlöndum, þar sem verið er að vinna á móti óeðlilegri stækkun höfuðborga, að þar eru lægri lán veitt til mestu þéttbýliskjarnanna en hærri til þeirra, sem eru úti á landinu. Ég veit ekki. hversu almennt þetta er, og get þess vegna ekki nefnt mörg einstök dæmi.

Að mínu áliti er hér hreyft mjög mikilsverðu máli, sem maður var reyndar orðinn mjög langeygður eftir, máli sem leyst gæti einn mikilvægan þátt þessara margumtöluðu byggðamála. Lög um byggingu verkamannabústaða hjálpa sveitarfélögunum til þess að leysa vanda efnaminna fólks, og reyndar gerir þetta frv. það líka. Það er staðreynd, að það hefur verið ákaflega erfitt að fá ýmiss konar fólk til starfa úti á landi, þ. e. sérmenntað fólk hvers konar, og það hefur staðið bæjunum mjög fyrir þrifum, kauptúnum og kaupstöðum úti á landi, að fá ekki slíkt fólk til sín, vegna þess að framboð á íbúðarhúsnæði hefur verið mjög lítið í þessum bæjum, þar sem byggingarlag er með allt öðrum hætti heldur en gerist hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég vona, að byggingarsjóður ríkisins geti ráðið við að fjármagna þessar framkvæmdir, en verður sjálfsagt erfitt þessi fyrstu tvö ár, meðan Breiðholtsframkvæmdirnar verða enn í gangi, en vonast til þess að vel gangi að fjármagna þetta, svo að byggingarnar geti farið í gang af fullum krafti.

Ég verð að segja það að lokum, að mér er það vissulega mjög mikið áhugamál landsbyggðarinnar vegna, að þetta mál verði eitt þeirra mála, sem koma til með að hljóta afgreiðslu á þessu þingi.