04.04.1973
Neðri deild: 75. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3056 í B-deild Alþingistíðinda. (2462)

3. mál, bygging og rekstur dagvistunarheimila

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Það eru nokkur atriði, sem ég vil nefna við þessa 1. umr. í hv. Nd. um frv. til l. um hlutdeild ríkisins í byggingu og rekstri dagvistunarheimila. Hér er vissulega hreyft við merkilegu máli, sem ég tel sjálfsagt, að nái fram að ganga, en ég vil eins og ég sagði áðan, nefna nokkur atriði, sem einkum snerta sveitarfélögin.

Í fyrsta lagi vil ég finna að því, hvernig mál þetta er undirbúið. Þetta er mál, sem snertir mjög sveitarfélögin í landinu, en frv. er samið af n., sem ráðh. skipaði án nokkurrar samvinnu við samtök sveitarfélaganna í landinu, þótt, eins og ég sagði, um sé að ræða efni, sem sveitarfélögin láta sig mjög varða. Ég vil einnig nefna það, að þetta frv. gengur allmjög í öfuga átt við þær óskir, sem sveitarfélögin hafa látið í ljós varðandi verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Þarna er um að ræða, að sveitarfélagið og ríkið taka sameiginlega þátt bæði í stofnkostnaði og rekstri þessara dagvistunarheimila. Sveitarfélögin í landinu hafa ályktað, bæði á landsþingum og fulltrúaráðsfundum, um þessi efni, að gerð verði gleggri skil á verkaskipting unni, og þetta er eitt dæmi um málaflokk, sem sveitarfélögin telja að eigi algerlega að vera í höndum þeirra. Ég teldi eðlilegra, að ríkisvaldið tæki engan þátt í rekstrarkostnaði dagvistunar heimila, en ekki séu settar upp flóknar endurgreiðslureglur um hlutdeild ríkissjóðs í rekstrarkostnaði þessara heimila, eins og gert er ráð fyrir í frv.

Það er grundvallaratriði í skoðunum sveitarstjórnanna varðandi skiptingu verkefna milli ríkis og sveitarfélaga, annars vegar, hvort framkvæmdin varðar öll sveitarfélögin jafnt, og hins vegar, hvort staðarþekking eigi ekki að skipta mestu máli, þegar um er að ræða verk, sem sveitarfélögin ein annast. Landsþing sveitarfélaganna hafa ályktað, að það væri talið eðlilegt, að ríkisvaldið hefði með höndum ýmis verkefni, sem vörðuðu alla landsmenn nokkurn veginn jafnt og kölluðu ekki á staðarþekkingu eða bein náin tengsl við borgarana. Með sama hætti hefur verið talið eðlilegt, að sveitarfélögin hefðu með höndum verkefni, sem væru mismunandi í hinum ýmsu sveitarfélögum, verkefni, sem væru staðbundin, og verkefni, þar sem bein náin tengsl við borgarana væru nauðsynleg eða eðlileg, og meðal slíkra verkefna hafa verið talin ýmis félagsmál, svo sem umönnun borgaranna á öllum aldri, barnaverndarmál, dagvistunarstofnanir, æskulýðsstarfsemi, heimilishjálp og umönnun við aldraða, þ. á m. bygging og rekstur elliheimila, félagsstarfsemi fyrir aldraða og heimilishjálp. Þær till., sem settar hafa verið fram af hálfu sveitarfélaganna, hafa þó ekki falið það í sér, að ríkisvaldið væri útilokað frá afskiptum af þessum málum. Það hefur verið talið eðlilegt, að ríkisvaldið hefði yfirumsjón með málaflokkum sem þessum, sem ég taldi upp, eins og öðrum málefnum sveitarfélaganna, m. a. því að setja lög um skipan þessara mála að höfðu samráði við sveitarfélögin.

Stjórn Sambands íslenzkra sveitarfélaga hefur ályktað um þetta mál sérstaklega og er mótfallin þeirri meginstefnu, sem fram kemur í þessu frv., þ. e. a. s. að bygging og rekstur þessara stofnana verði sameiginlegt verkefni ríkisins og sveitarfélaganna. Stjórnin hefur talið ýmis vandkvæði á slíkri skipan og byggir þar á áþreifanlegri reynslu varðandi slíkt fyrirkomulag á fjölmörgum sviðum.

Það er hætt við, ef þetta frv. verður samþ. óbreytt, að þá verði stofnað til óþarflegra flókinna samskipta ríkis og sveitarfélaga, og það er ástæða til að ætla, svo að bent sé t. d. á 15. gr. frv., að það sé til þess fallið, að dregið verði úr framkvæmdum sveitarfélaga og frjálsra félagasamtaka á þessu sviði. En slíkt hefur þó áreiðanlega ekki verið ætlunin, ef litið er á grg. frv. Hins vegar vil ég taka það skýrt fram, að meðan tekjustofnum sveitarfélaga er svo komið sem nú er, þá tel ég ekki annað fært en að styðja þetta frv., vegna þess að sveitarfélögin í landinu eru þannig sett fjárhagslega, að þau geta ekki tekið á sig miklar kvaðir eða aukið mjög framkvæmdir á þessu sviði frá því sem nú er.

Þessi atriði vildi ég láta koma fram við 1. umr. þessa máls.