04.04.1973
Neðri deild: 75. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3058 í B-deild Alþingistíðinda. (2463)

3. mál, bygging og rekstur dagvistunarheimila

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju minni yfir því, að þetta frv. skuli nú vera komið til þessarar hv. deildar til fyrirgreiðslu og að meðferð þess í hv. Ed. skyldi í engu hafa breytt meginstefnu þess. Hér er um mjög merkilegt mál að ræða, og hafa margir beðið þess með óþreyju, að úr rættist í dagvistunarmálum fyrir börn, bæði hér í Reykjavík og annars staðar. Þegar n. starfaði að undirbúningi þessa frv., varð hún vör við mikinn áhuga sveitarfélaga úti á landi og sannfærðist um, að þörfin væri ekki síður þar en hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Hér er þá auðvitað um að ræða kaupstaði og sveitarfélög, þar sem atvinnulífi er svo háttað, að mjög mikið er undir því komið, að þau geti notfært sér vinnuafl kvenna á staðnum.

Hér við 1. umr. ætla ég ekki að tefja störf þessarar hv. deildar. Ég vil aðeins koma inn á þau atriði, sem hv. þm. Ólafur G. Einarsson nefndi hér áðan, þar sem hann fann að störfum þeirrar n., sem undirbjó þetta frv. Ég vil upplýsa það, og mig minnir, að það komi fram í grg., að n. skrifaði öllum sveitarfélögum, þar sem vitað var til, að dagheimili eða leikskólar væru starfandi, og bað þau um að veita ýmsar upplýsingar, sem gætu orðið n. leiðarljós. Svör bárust frá mörgum, sumir svöruðu hins vegar ekki. En það er rétt, að það kom fram í einstaka bréfi, að heppilegra væri, að sveitarfélög sæju ein um reksturinn, og ég vil, vegna þess, sem hv. þm. Ólafur G. Einarsson las áðan úr umsögn Sambands íslenzkra sveitarfélaga, nota þetta tækifæri til þess að skýra að nokkru þau sjónarmið, sem vöktu fyrir n.

Hv. þm. sagði, að þetta væri mál, þar sem staðarþekking eða bein náin tengsl við almenning hlytu að ráða nánast öllu í ákvarðanatekt varðandi þessi mál. Ég fæ ekki séð, að þetta frv. taki í neinu frumkvæði af sveitarfélögum. Það eru sveitarfélögin sjálf, sem eiga að hafa frumkvæði að því að ákveða, hvort reisa skuli dagheimili og reka þau, og þau sækja síðan um styrk til ríkisins. Sveitarfélög geta líka gert þetta alveg upp á sitt eindæmi, ef þau vilja það og treysta sér til þess. Ég held að þessi afstaða Sambands íslenzkra sveitarfélaga byggist líka á grundvallarmisskilningi. Þegar menn telja dagvistunarmál til þeirra mála, þar sem sveitarfélögin eigi að ráða mestu um, þá eru menn að flokka dagvistunarheimili eingöngu til félagsmála. Ég vil benda hv. þm. á, að þetta frv. er lagt fram af hæstv. menntmrh. og málin heyra undir menntmrn., ekki félmrn. Þeir, sem starfa að þessum málum, leggja áherzlu á, að hér sé um menningarmál að ræða, ekki einvörðungu félagslega hjálp, sem eigi að bæta mönnum upp eitthvað, sem þeir hafi ekki, heldur þvert á móti er dagvistunarheimilum ætlað að aðstoða heimilin við uppeldi á menningarlegum grundvelli.

Ég vil enn fremur í lokin benda á, að styrkur ríkisins varðar fleira en sveitarfélög. Það er gert ráð fyrir því, að ríkið geti veitt bæði byggingar- og rekstrarstyrki til annarra aðila, svo sem starfsmannafélaga, húsfélaga, og það yrði því mjög miður farið, ef menn legðust gegn því, að ríkið legði þessum aðilum til rekstrarstyrki, þar sem þeir hafa ella enga tryggingu fyrir því að fá slíkan styrk frá sínu sveitarfélagi.

Ég vil að lokum, herra forseti, undirstrika ánægju mína með það, að frv. skuli fram komið. Ég á sæti í þeirri n., sem mun fjalla um frv., og mun gjöra mitt til þess, að það fái mjög greiðan framgang hér í deildinni fyrir þinglok.