04.04.1973
Neðri deild: 75. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3060 í B-deild Alþingistíðinda. (2468)

122. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1973

Bjarni Guðnason:

Ég vil taka fram, að ég hef í sjálfu sér ekkert á móti þeim framkvæmdum, sem eru ráðgerðar í þessu frv., síður en svo. Hins vegar virðist mér framkvæmdaáætlun þessi vera í mótsögn við þá stefnu að lækka útgjöld fjárlaga um 15%, enda liggur ekki fyrir neitt heildaryfirlit um stöðu fjárfestingarsjóða, hvorki útlánafyrirætlanir þeirra né fjáröflun. Mikil atvinna er í landinu og jafnvel skortur á vinnuafli. Því væri ástæða til að koma á nokkru jafnvægi á vinnumarkaðnum með því að efna ekki til verulegra framkvæmda, eins og sakir standa, og þannig óbeint hamla á móti vaxandi verðbólgu og þenslu í þjóðfélaginu. Þess vegna mun ég sitja hjá við atkvgr. um þetta frv.