05.04.1973
Efri deild: 83. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3068 í B-deild Alþingistíðinda. (2501)

130. mál, skólakostnaður

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson) :

Herra forseti. Frv. á þskj. 189 er borið fram til þess að breyta ákvæðum 14. gr. l. um skólakostnað, nr. 49 frá 1967, til samræmis við þá starfshætti, sem ríkt hafa allt frá því að þau lög tóku gildi, en eru ekki í samræmi við bókstaf laganna. Í skólakostnaðarl. er það tímabil, sem fjárveitingar til stofnkostnaðar skólamannvirkja skal miða við, ákvarðað 3 ár að hámarki. En þegar árið 1968 voru gefin út brbl., sem kváðu svo á, að greiðslutímabilið skyldi vera 4 ár, að því er varðaði árið 1969. Síðan hefur þessari fjögurra ára reglu verið fylgt stöðugt þrátt fyrir þriggja ára ákvæðið í 14. gr. laganna. Að fenginni reynslu þykir einsýnt, að hvorki ríkissjóður né sveitarsjóðir geti með góðu móti risið undir örari framkvæmdum en átt hafa sér stað, og því þykir rétt að breyta lagaákvæðinu til samræmis við fengna reynslu.

Í 2. gr. frv. er ákvæði til bráðabirgða, sem stafar af því, að á fjárhagsárinu 1973 hefðu samkv. fjögurra ára reglunni átt að koma til greiðslu framlög til nokkurra dýrra skólabygginga hærri en svo, að fært þætti að ljúka þeim á því ári. Er því í 2. gr. ákvæði um að þessum sérstöku framlögum til mjög dýrra byggingarframkvæmda megi skipta á árinu 1973 og 1974.

Loks hefur verið í dag lögð fram brtt. við þetta frv., sem ég ber fram. Ég veit ekki einu sinni, hvort henni hefur verið útbýtt ennþá, og vil ég því leyfa mér að lesa hana, með leyfi hæstv. forseta. Hún er á þá leið, að á undan 1. gr., sem nú er í frv., komi ný gr., sem hljóði svo:

„Við síðustu mgr. 6. gr. l. bætist: Nú næst ekki samkomulag um kaup á nauðsynlegu landi undir skólamannvirki, og er þá heimilt að taka það eignarnámi. Fer um slíkt eignarnám eftir l. um framkvæmd eignarnáms“.

6. gr. l. um skólakostnað fjallar um hlutverk; sveitarstjórna við undirbúning skólamannvirkja, um ráðningu sérfræðinga og framkvæmd verka. Síðasta mgr. þessarar 6. gr. er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: „Hlutaðeigandi sveitarfélög leggja til á sinn kostnað lóðir til skólamannvirkja, sem lög þessi ná til“. Í beinu framhaldi af þessu kæmi síðan sú brtt., sem ég ber fram, og fjallar hún um það, að þegar ekki næst samkomulag um kaup á nauðsynlegu landi undir skólamannvirkin, sé heimilt að taka landið eignarnámi. Sem betur fer, hefur að jafnaði gengið skaplega að afla lands undir skólamannvirki, en mér hefur verið tjáð, að upp hafi komið a.m.k. eitt tilvik, þar sem ekki hafi náðst samningar við landeigendur, og þar sem slíkt getur auðvitað átt sér stað víðar, þó að vonandi verði það sem sjaldnast, þá hef ég talið rétt, að inn í skólakostnaðarl. komi eignarnámsheimildarákvæði, en slíkt eignarnám færi auðvitað fram samkv. hinum almennu eignarnámslögum. Ef þetta ákvæði væri ekki, þyrfti, ef til eignarnáms kæmi, að setja um það sérstök lög í hverju tilviki. En þar sem um er að ræða framkvæmdir, sem þurfa að geta gengið sem skrykkjaminnst og tafaminnst, hefur verið talið rétt að taka upp almennt eignarnámsákvæði í skólakostnaðarlögin.

Ég leyfi mér svo að leggja til, herra forseti, að málinu verði að þessari umr. lokinni vísað til hv. menntmn