05.04.1973
Neðri deild: 77. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3071 í B-deild Alþingistíðinda. (2515)

104. mál, fangelsi og vinnuhæli

Frsm. (Svava Jakobsdóttir):

Herra forseti. Allshn. hefur rætt frv. til laga um fangelsi og vinnuhæli allítarlega á mörgum fundum. Hún hefur leitað umsagna um það og boðað til sín aðila, sem að fangelsismálum starfa, og heyrt álit þeirra á frv. Á grundveili alls þessa hefur n. mótað þær brtt., sem hún flytur við frv. og birtar eru á þskj. 466.

Með lagafrv. þessu er lagt til, að sameinuð séu í ein lög, núgildandi lög um fangelsi og vinnuhæli, nr. 18 frá 1961, og lög um félagsfangelsi, nr. 21 frá 1961, annars vegar, og hins vegar, að þátttaka sveitarfélaga í stofnkostnaði og rekstri héraðsfangelsa sé felld niður, en ríkið taki þann kostnað á sig. Er sú breyting í samræmi við samþykkt laga um lögreglumenn, nr. 56 frá 1972, en með samþykkt þeirra laga tók ríkið að sér alla löggæzlustarfsemi í landinu. Um þetta síðarnefnda atriði urðu ekki miklar umr., svo sjálfsagt sem það var. Allar umr. n. snerust hins vegar um fyrra atriðið, þ.e.a.s., hvort rétt væri þrátt fyrir fáein nýmæli, sem í frv. eru, að halda núgildandi lögum um ríkisfangelsi og vinnuhæli svo til óbreyttum og vinna áfram að þessum málum eftir þeirri stefnu, sem þar er lýst, eða hvort sveigja ætti frv. í átt til ýmissa nýrri viðhorfa, sem gætir í rekstri á fangelsismálum, eftir því sem við yrði komið. N. tók síðari kostinn, og miða allar brtt. hennar eða flestar þeirra í þá átt, enda voru umsagnir og álit sérfróðra aðila svo einróma í afstöðu sinni til ýmissa þátta frv., að ógerningur hefði verið að taka það ekki til greina.

N. bárust umsagnir frá allmörgum aðilum. Samband íslenzkra sveitarfélaga mælir með þeim þætti, sem lýtur að verkefnaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga, en tekur ekki afstöðu til þeirrar stefnu í fangelsismálum, sem í frv. felst. Þá bárust umsagnir frá félagasamtökunum Vernd, Barnaverndarráði Íslands, Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar og Hildigunni Ólafsdóttur afbrotafræðingi. Þau, sem mættu á fundum n. voru Hildigunnur Ólafsdóttir, Óskar Clausen, sem starfrækt hefur Fangahjálpina, og séra Jón Bjarman fangelsisprestur. Það atriði frv., sem var öllum þessum aðilum mestur þyrnir í augum, er bygging ríkisfangelsis, sem rúma skuli eigi færri en 100 fanga. Slíkt stórhýsi vildu menn ekki sjá rísa hér, en telja smærri eða fámennari vinnuhæfi eða fangelsiseiningar bæði mannúðlegri og heppilegri.

Svo sem fram kom í framsöguræðu hæstv. dómsmrh., er hann mælti fyrir frv., hafa þegar verið gerðar frumteikningar að slíku fangelsi, sem rísa átti í Úlfarsárlandi undir Úlfarsfelli. En frekari undirbúningsvinna mun þó ekki hafa verið unnin.

1. brtt. n. miðar að því að koma í veg fyrir, að þetta stórhýsi rísi af grunni. N. leggur því til, að síðasti málsl. 3. gr. orðist svo: „Í reglugerð skal kveðið á um skiptingu ríkisfangelsis í sjálfstæðar rekstrareiningar“. Og í samræmi við þetta sjónarmið, að fangelsi og vinnuhæli skuli vera smærri og þar af leiðandi kannske fleiri, var eðlilegt að breyta 1. málsl. 3. gr. með tilliti til staðarvals. Fleiri staðir hljóta þar af leiðandi að koma til greina, og því þótti n. eðlilegra, að það yrði lagt á vald ráðherra að ákvarða staðinn hverju sinni.

Þá kom fram andstaða gegn deildaskiptingu ríkisfangelsis, en þar eru sérfróðir menn ekki að öllu leyti sammála. Ef litið er á 2. og 3. gr. frv., sést, að flokka- og deildaskipting ræðst af þrennu: 1) Tegund afbrota eða afbrotamanna. 2) Aldri þeirra. 3) Kynferði. Í umsögn Hildigunnar Ólafsdóttur kom fram, að sú deildaskipting, sem fram kemur í frv. og byggð er á svonefndri meðferðarstefnu, hafi sætt rökstuddri gagnrýni í nágrannalöndum okkar og þyki ekki hafa gefizt sem skyldi. Þá er hún þeirrar skoðunar, að flokkun fanga eftir aldri orki tvímælis. Hér eru þó aðrir aðilar á annarri skoðun, og hefur n. því ekki treyst sér til að gera till. til breytinga á frv. hvað þetta snertir. Ég nefni þetta hér bæði til þess að gagnrýna, að enginn þeirra aðila, sem að fangelsismálum eða málefnum fanga starfa, var kvaddur til aðstoðar, þegar frv. var samið, og jafnframt til þess að vekja athygli á, að þörf er á því að vinna gagngert að mótun refsistefnu, áður en mörg fangahús eru reist, sem munu kannske verka sem hemill á stefnubreytinguna í þessum málum í framtíðinni. En umr. um þessi mál hljóta að aukast hér ekki síður en í nágrannalöndum okkar.

Aðilar voru hins vegar sammála um, að skipting eftir kynferði væri röng. N. gerir till. um, að orðið „kvennafangelsi“ í 2. málsl. 3. gr. falli brott. Hér ætti kannske að nægja að vísa til hagkvæmnisjónarmiða. Konur, sem afplána refsidóma, eru ekki það margar, að ástæða sé til að reisa tvær byggingar af hverri tegund. Hitt verður ekki heldur séð, hvers vegna fangar af báðum kynjum geti ekki starfað saman á daginn, notið sömu starfs- og tómstundaaðstöðu. Slíkt ætti að geta stuðlað að eðlilegra andrúmslofti innan fangelsisveggjanna.

5. brtt. n. er flutt til samræmis við þessa. Aðrar brtt. n. miða að því að leggja meiri áherzlu á félagslega hjálp við fanga og vandamenn þeirra. 2. brtt. n. fjallar um launagreiðslur til fanga, og er þar lagt til, að við ákvörðun launa skuli miða við launagreiðslur á almennum vinnumarkaði, auk arðsemi vinnunnar. Lagt er til, að ákveðinn hundraðshluti af launum fanga fari í skyldusparnað, sem skuli annað hvort renna til fjölskyldu fangans eða afhendast honum að lokinni afplánun refsingar. Er þessi brtt. byggð á beinni till. frá félagssamtökunum Vernd og samkvæmt ábendingum annarra aðila, en flestir fordæma auðvitað þá meðferð, sem nú tíðkast, að fangar séu sendir út í lífið eftir afplánun refsidóms nánast allslausir og geti í mörgum tilfellum hvorki keypt sér máltíð né greitt húsnæði.

Þá leggur n. til, að kveðið sé skýrar á um menntunarkröfur til þeirra, er veita fangastofnunum forstöðu. Leggur hún til, að 2. málsl. 11. gr. orðist svo, með leyfi hæstv. forseta: „Skipa skal öðrum fremur lögfræðing eða félagsráðgjafa, og skulu þeir sérstaklega hafa kynnt sér fangelsismál“. Þessi brtt. þarf varla nánari skýringa við.

Þá leggur n. til breytingu á 14. gr. frv., að hún orðist svo sem hér segir á þskj. 466. Meginbreytingin þar er á þá lund, að skylt verði að starfrækja stofnun til umsjónar og eftirlits með þeim, sem frestað er ákæru gegn, dæmdir eru skilorðsbundið eða leystir úr fangelsum með skilyrðum, en frv. gerir aðeins ráð fyrir heimild. N. var sammála um, að þessi stofnun væri í raun og veru aðalatriði málsins og ef meiri áherzla væri lögð á starfrækslu hennar, væri e.t.v. ekki þörf á fleiri fangarýmum en nú eru á Íslandi.

Ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að allar þessar brtt. séu í anda þess, sem hæstv. dómsmrh. sagði í framsöguræðu sinni, en þar kom skýrt fram, að hann telur frelsissviptingu ekki mannbætandi og beri að reyna allar aðrar leiðir fyrst.

Herra forseti. Svo sem fram kemur í nál. á þskj. 466, er allshn. sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. með þeim breytingum, sem ég hef nú gert grein fyrir. Einstakir nm. áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja öðrum brtt.