05.04.1973
Neðri deild: 77. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3073 í B-deild Alþingistíðinda. (2516)

104. mál, fangelsi og vinnuhæli

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þetta frv. hefur verið athugað allítarlega í allshn. Ég vil segja það, að þetta frv. er samið af starfsmönnum dómsmrn., og ég hygg, með fullri virðingu fyrir öðrum aðilum, sem koma nálægt þessum málum, að aðrir hafi ekki meiri alhliða þekkingu á og reynslu af þeim en þeir ráðuneytisstarfsmenn, sem fyrst og fremst fást við þessi mál. Það eru þarna nokkrar brtt. við frv. Það mætti sjálfsagt sitthvað segja um þær og um þessi mál almennt, en ég vil aðeins segja það, að ég fellst á þessar brtt. og mun ekki ræða þetta mál frekar nú vegna þess, að ef kostur á að verða á því að koma þessu máli í gegn á þessu þingi, þarf að hraða því.