05.04.1973
Neðri deild: 77. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3075 í B-deild Alþingistíðinda. (2523)

202. mál, almenn hegningarlög

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það frv. til l. um breyt. á almennum hegningarlögum, sem hér liggur fyrir, er samið af svokallaðri hegningarlaganefnd í samráði við utanrrn. og samgrn., og efni þess er að leggja refsiviðurlög við flugvélaránum og brotum í sambandi við þau.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það hér, að á undanförnum árum hefur oft skapazt hættuástand vegna ofbeldisaðgerða um borð í flugvélum, þegar menn hafa beitt þar ofbeldi eða hótunum um ofbeldi eða öðrum ólögmætum aðferðum til þess að komast yfir stjórn flugvélar. Tilgangurinn hefur verið ýmiss konar, eins og t.d. fjárkúgun, landflótti afbrotamanna o.s.frv. Á undanförnum árum hefur löggjöf margra ríkja verið breytt til þess að tryggja, að lögum verði örugglega komið yfir þá, sem slíka verknaði fremja, og sett hafa verið ákvæði um þung viðurlög. Alþjóðastofnanir hafa enn fremur látið þessi mál til sína taka, og hafa verið gerðir 3 alþjóðasamningar um þau málefni, sem kenndir eru við Tókíó, Montreal og Haag. Tókíó-samningurinn hefur verið fullgiltur af Íslands hálfu, en til þess að unnt sé að fullgilda þá samninga, sem gerðir voru og kenndir eru við Haag og Montreal, er talið nauðsynlegt að gera þær breytingar á hegningarlögunum, sem lagt er til í þessu frv.

Með tilliti til þess, hve Ísland tekur mikinn þátt í flugsamgöngum og hve mikið af flugvélum fer hér um, er nauðsynlegt, að gerðar verði hér þær ráðstafanir, sem hægt er að gera til þess að koma í veg fyrir flugvélarán og til þess að geta refsað þeim, sem hingað kynnu að leita eftir að hafa framið slíkan verknað. Hafa fjölmörg alþjóðasamtök beint þeim tilmælum til allra ríkja, að þau staðfesti þessa samninga og lögfesti þung viðurlög við brotum, sem snert geta öryggi flugsamgangna. Hygg ég, að slík tilmæli hafi ekki hvað sízt komið frá ýmsum samtökum flugmanna.

Það er gerð ítarleg grein fyrir þessu frv. í grg., sem fylgir með því, og ég sé ekki ástæðu til að rekja efni þess. Það kemur glöggt fram í þessum fáu gr., sem hér er um að ræða, og skal ég ekki fjölyrða frekar um það. Málið hefur gengið í gegnum hv. Ed. og verið afgreitt þar shlj.

Ég leyfi mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. allshn.