05.04.1973
Neðri deild: 77. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3076 í B-deild Alþingistíðinda. (2529)

224. mál, heimilishjálp í viðlögum

Flm. (Svava Jakobsdóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér frv. til l. um breyt. á l. nr. 10 frá 25. jan. 1952, um heimilishjálp í viðlögum. Það er efnislega á þá leið, að hjálp megi einnig veita samkv. þeim lögum vegna veikinda barna eða fullorðinna, ef þeir, sem veita heimilunum forstöðu, eru bundnir af atvinnu utan heimilisins. Nú er 1. gr. í þessum lögum orðuð svo, að það orkaði tvímælis, hvort í rauninni hefði þurft þessa breytingu. Um hlutverk heimilishjálpar stendur svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Hlutverk hennar er að veita hjálp á heimilum, þegar sannað er með vottorði læknis eða ljósmóður eða á annan hátt, sem aðilar taka gilt, að hjálparinnar sé þörf um stundarsakir vegna sjúkdóma, barnsburðar, slysa, dauðsfalla eða af öðrum ástæðum“.

Af umr. hér á hv. Alþ. á sínum tíma er hins vegar enga vísbendingu að finna um, hvað átt var við með „öðrum ástæðum“, og eftir upplýsingum, sem ég hef aflað mér í félmrn. mun skilningur laganna ekki tryggja heimilishjálp samkv. þessum lögum, þegar börn eða aðrir, t.d. aldraðir, sem kunna að vera á framfæri heimilisins, veikjast og þurfa umönnunar við og húsráðendur eru bundnir af atvinnu sinni.

Þegar lögin um heimilishjálp í viðlögum voru sett, kom fram í umr. á Alþ., að slík hjálp ætti að tryggja, að heimilishættir röskuðust sem minnst, þótt húsmóðurinnar nyti ekki við um stundarsakir. Hún átti að tryggja, að börn, aldraðir og sjúklingar, sem á heimilinu væru, fengju eftir sem áður nauðsynlega umönnun, og hún átti að tryggja, að fyrirvinnan þyrfti ekki að leggja niður vinnu til að taka að sér heimilisstörfin. Móðir, sem sér sjálfri sér og börnum sínum farborða með starfi sínu utan heimilis, stendur oft frammi fyrir því að verða að biðja um leyfi frá störfum vegna veikinda barna sinna. Hún er oft af þeim ástæðum dæmdur lélegur vinnukraftur og býr af þeim sökum við skert atvinnuöryggi. Einstæðum feðrum, sem halda heimili fyrir börn sin, fer einnig fjölgandi, og ætti réttur til heimilishjálpar einnig að standa þeim til boða, ef veikindi steðja að. Þörfin fyrir slíka hjálp er mjög brýn. Fyrir skömmu auglýsti Félag einstæðra foreldra eftir fólki til aðstoðar í þessu skyni, og buðu sig fram til starfans um það bil 10 konur, svo að skortur á fólki ætti ekki að þurfa að vera því til fyrirstöðu, að þessu sé komið á fót.

Það er skoðun mín, að tímabært sé að breyta lögum um heimilishjálp á þann veg, sem ég hef nú greint frá, og að óeðlilegt sé, að heimilishjálp sé ekki veitt án tillits til hjúskaparstéttar eða kynferðis fyrirvinnunnar.

Herra forseti. Ég legg til, að málinu verði vísað til 2. umr. og félmn