05.04.1973
Neðri deild: 77. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3079 í B-deild Alþingistíðinda. (2532)

198. mál, sveitarstjórnarlög

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Það hefur gengið það illa að ljúka 1. umr. um þetta mál, að ég skal ekki verða til þess að tefja það meira að ráði og verð því stuttorður. En svo margt kom fram í ræðu hæstv. forsrh. og hæstv. félmrh. fyrir viku, að ég kemst ekki hjá því að gera nokkrar athugasemdir.

Ég sagði í ræðu minni á fimmtudaginn var, að það hefði verið unnið að því af ákveðnum aðilum að kljúfa Fjórðungssamband Norðlendinga og þessi klofningsstarfsemi hefði ekki átt upphaf sitt í hugum sveitarstjórnarmanna, heldur væru það aðrir, sem þar hefðu unnið að. Þetta, sem ég þarna sagði, fór eitthvað illa í hæstv. forsrh. og hv. 2, landsk. þm. og báðir gerðu hér kröfu til þess, að ég segði, hverjir það væru, sem að þessum klofningi hefðu unnið. Ég sé nú ekki ástæðu til að fara að gera mönnum það hátt undir höfði að koma nöfnum þeirra inn í þingtíðindi, enda þjónar það í sjálfu sér engum tilgangi. En ég sagði sem sagt, að það væru ákveðnir menn, sem hefðu að þessu unnið, aðrir en sveitarstjórnarmenn. Hæstv. forsrh. spyr: Hverjir eru þessir utanaðkomandi menn, eru þm. kannske utanaðkomandi? Ég veit ekki nema hæstv. forsrh. hafi með þessum orðum sínum svarað þessari spurningu sjálfur. Annars finnst mér fráleitt að vera að gera þetta atriði að einhverju höfuðdeilumáli í umr. um þetta frv., hvort samtökin verði tvö á Norðurlandi eða eitt samband áfram eins og hefur verið.

Það hefur verið talað um það og þ.á.m. af hæstv. ráðh., að heimamenn eigi að ráða þessu. Ég get alveg á það fallizt, að heimamenn eigi að ráða þessu, og færi betur, ef hæstv. ráðh. breyttu eftir því í fleiri málum en þessu að leyfa heimamönnum að ráða. En hverjir eru þá þessir heimamenn, sem eiga að ráða? Eru það allir þeir, sem mynda núv. Fjórðungssamband Norðlendinga, eða eru það eingöngu þeir, sem eru í Norðurlandskjördæmi vestra? Mér þykir þarna vera spurning, sem þarf að fá svar við. Til þessa hafa engin lög bannað skiptingu á Fjórðungssambandi Norðlendinga. Þeir, sem að því sambandi standa og hafa staðið, hafa auðvitað getað allt til þessa skipt þessu sambandi í tvö. Ef á að koma fram með till. núna á hv. Alþ., þegar þetta frv. er til meðferðar, að samböndin verði tvö, þá er verið að þvinga þetta fram með lagasetningu, en ekki með vilja heimamanna, nema þá það verði kannað til hlítar áður. Ég minni á, sem ég gerði einnig hér um daginn, að það var einróma samþykkt áskorun á fulltrúaráðsfundi Sambands ísl. sveitarfélaga fyrir fáum dögum um, að þetta frv. færi óbreytt gegnum Alþ. Á þessum fulltrúaráðsfundi áttu sæti 3 fulltrúar úr Norðurlandskjördæmi vestra og það heyrðist ekki eitt einasta orð, hvorki frá þeim né öðrum, um að skipta þessum samtökum.

Hv. 2. landsk. þm. nefndi í sinni ræðu. að ekkert hefði verið gert í áætlanagerð fyrir Norðurl. v., og mér skildist, að hann teldi það stafa af því, að það væri enginn aðili þar til þess að reka á eftir eða vinna verkið. Þetta hefur verið eitt af höfuðverkefnum landshlutasamtakanna, að vinna að áætlanagerð í samvinnu við Framkvæmdastofnun ríkisins, en samkv. lögum um Framkvæmdastofnun ríkisins á hún að hafa ákveðið frumkvæði í þessum málum. Mér er ekki kunnugt um, hvað líður áætlanagerð á Norðurlandi vestra, en ég fékk svör við því í fyrirspurnatíma hér á Alþ. um daginn varðandi áætlanagerð fyrir Reykjaneskjördæmi, að það hefði ekkert verið gert, nákvæmlega ekkert, á vegum Framkvæmdastofnunar ríkisins. Það sem hefur verið gert, hefur verið unnið af landshlutasamtökunum. Ég hef ekki trú á því, að betur verði að þessum málum staðið á Norðurlandi, ef landshlutasamtökin verða tvö, frekar en ef þar er eitt samband eins og nú er. Ég held. að það sé alveg augljóst mál, að það er styrkara þannig. En ég ætla ekki að ræða þetta frekar. Ég styð það að sjálfsögðu, að heimamenn ráði þessu, en mér kemur á óvart sá mikli áhugi, sem nú er allt í einu kominn upp á því að skipta þessu í tvö samtök.

Þá þarf ég að fara nokkrum orðum um hina einkennilegu ræðu, sem hæstv. félmrh. flutti hér á fimmtudaginn. Mér þykir satt að segja furðulegt að heyra ráðh. sveitarstjórnarmála tala eins og hann gerði, ekki sízt þegar tillit er tekið til þess að hann er jafnframt oddviti í sínum hreppi, og eftir því sem ég bezt veit, er hann líka sýslunefndarmaður. Samt talar hann af vanþekkingu. Hann taldi sig sem ráðh. sveitarstjórnarmála ekki eiga að hafa frumkvæði að málefni sem þessu, það eigi sveitarfélögin að hafa og hann því alveg sammála því, að mál þetta, beri þannig að, að sveitarfélögin leggi málið fyrir, eins og gert er. Svo er það aftur annað mál, hvort honum þykir frv. ómögulegt. Hæstv. forsrh. segir hins vegar, að þess sé að gæta, að frv. sé samið af landshlutasamtökunum sjálfum og það sé ekki heppilegt að selja þeim sjálfdæmi, sem laganna eiga að njóta. Þetta er svo sem ekki í fyrsta skipti, sem eitt rekur sig á annars horn hjá hæstv. ráðh. þessarar ríkisstj., en ég verð að segja það, að mér þykir skoðun hæstv. félmrh. geðfelldari, þ.e.a.s. að það sé eðlilegur aðdragandi þessa máls. að frv. sé samið af landshlutasamtökunum og Sambandi ísl. sveitarfélaga.

Hæstv. félmrh. setti það mjög fyrir sig, að frv. hefði ekki verið borið undir sýslunefndir, og virtist það vera a.m.k. í byrjun, ein höfuðástæðan fyrir því, að hann gæti ekki samþykkt frv. á þessu þingi. Hann talaði jafnframt um, að þarna væri komin ofskipulagning í stjórnkerfið. Það, sem verið er að gera með þessu frv., er að tengja saman öll sveitarfélögin í viðkomandi landshlutum. Það gerist ekki með núv. kerfi. Sýslunefndirnar eru ekki vettvangur fyrir öll sveitarfélögin í viðkomandi landshluta, þar standa kaupstaðirnir af eðlilegum ástæðum fyrir utan. Sýslunefndirnar eru þess vegna ekki, eins og núv. kerfi er, í tengslum við öll sveitarfélögin í viðkomandi landshluta, og þær þurfa ekki heldur að vera í tengslum við sveitarstjórnirnar í viðkomandi sýslum. Það er ekkert ákvæði í lögum, sem kveður á um það. Fulltrúar í sýslunefnd þurfa ekki að vera sveitarstjórnarmenn, og þeir geta tekið afstöðu í sýslunefnd í algerri andstöðu við sveitarstjórnirnar. Það er sem sagt verið að stofna samtök sveitarfélaga í hverjum landshluta. Svona einfalt er þetta og ætti að vera öllum skiljanlegt. Auðvitað geta sýslunefndir haldið áfram að vera aðilar í stjórnkerfinu, ef mönnum sýnist svo, og það er ekkert verið að hrófla við þeim með þessu frv., en ég fullyrði, að landshlutasamtökin eru virkara afl í stjórnkerfinu og munu verða það. Meginatriðið er, að hér er verið að dreifa valdinu.

Þá talaði hæstv. félmrh. um hin mörgu ágreiningsefni, sem væru sýnileg í þessu frv. Hann talaði um skylduákvæðið um aðild að samtökum sveitarfélaga í hverjum landshluta, sem eru í 111. gr. samkv. frv., og hann talaði um bráðabirgðaákvæði því til sönnunar, að þarna sé um ágreiningsefni að ræða, þ.e.a.s. að sveitarfélögum, sem ekki ættu beina aðild að landshlutasamtökum sveitarfélaga við gildistöku þessara laga, sé heimilt að fela fulltrúa sýslunefndar að fara með umboð sitt til loka kjörtímabils sveitarstjórnar 1978. Hér er ekki um neitt ágreiningsefni að ræða. Hér er um það að ræða, að settur er eðlilegur aðlögunartími. Það má sjálfsagt deila um, hve langur hann á að vera. En ég held. að augljóst sé, að það er nauðsynlegt að hafa þarna skylduákvæði um aðild. Landshlutasamtökin hljóta að vinna verkefni, sem snerta öll sveitarfélögin í viðkomandi landshluta, og nefni ég þar sérstaklega áætlanagerð.

Þá talaði hæstv. ráð. um efni 113. gr.. sem fjallar um kjör fulltrúa á fulltrúafundi, og þótti það líka vera merki um ágreining innan landshlutasamtakanna, vegna þess að í sömu gr. er heimildarákvæði um, að einstökum landshlutasamtökum sé heimilt að ákveða fulltrúafjölda með öðrum hætti. Ég hef borið þetta nokkuð saman, hvernig fulltrúakjöri er hagað í hinum einstöku landshlutasamtökum, og satt að segja er munurinn þarna ekki mikill. T.d. gera öll landshlutasamtökin ráð fyrir þremur fulltrúum fyrir hverja 1500 íbúa, en bilið er hins vegar nokkuð breytilegt.

Í öðru orðinu er sem sagt fundið að skylduákvæðum, en í hinu, að allt sé í lausum endum. Þetta stafar ekki af ágreiningi, heldur er hér sjálfsagt og eðlilegt að hafa nokkurt svigrúm og í samræmi við það, sem hæstv. ráðh. hafa sagt, eðlilegt, að heimamenn hafi þarna nokkuð um að segja.

Þá þótti mér farið nokkuð háðulegum orðum um ákvæðin í 112. gr. um hlutverk landshlutasamtakanna, þar væri raunverulega ekkert nýtt, þetta sé falleg stefnuyfirlýsing og ekkert meir. Ég veit ekki, hvort má túlka þetta þannig. að raunverulega séu landshlutasamtökin óþörf. En ég legg áherzlu á það. að þessum samtökum er ekki ætlað að draga vald úr höndum sveitarfélaganna sjálfra. Það er alveg rétt, að það hefur orðið vart við nokkra tregðu hinna minnstu sveitarfélaga til þess að eiga aðild að þessum samtökum, og ég hef ástæðu til að ætla, að sú tregða stafi meðfram af því, að ýmsar sveitarstjórnir hafa talið, að það væri verið að draga valdið úr þeirra höndum og þjappa því saman í hendur þessara heildarsamtaka. En það er misskilningur. Þessi samtök eiga að styrkja sveitarfélögin og styðja. Þau eiga að vera sameiginlegur vettvangur þeirra til að leysa meiri háttar mál, sem sveitarfélögunum mörgum hverjum er ómögulegt að leysa, vegna þess að þau eru of fámenn.

Þá talaði hæstv. félmrh. um það, að í þessu frv. væri ekki eitt einasta orð um fjármál landshlutasamtakanna. Þau hafa nú, eins og kunnugt er, 1% af tekjum jöfnunarsjóðs, og er skipt jafnt á milli landshlutasamtakanna. Það er vissulega rétt, eins og hæstv. félmrh. sagði, að það kostar talsverða peninga að reka landshlutasamtökin og þau þurfa meiri tekjur, eftir því sem þeim eru falin fleiri verkefni í lögum og eigin samþykktum. En ákvæði um fjármál landshlutasamtakanna eða tekjustofna þeirra eiga bara ekki heima í þessum lögum. Þau eiga heima í lögum um tekjustofna sveitarfélaga, þar sem hæstv. félmrh. setti það ákvæði í fyrra. Nú talar hann hins vegar um með nokkurri hneykslun, að það sé ekki eitt einasta orð um tekjustofna þeirra í þessu frv. Það er rétt, eins og ég sagði, að þau þurfa áreiðanlega á auknum tekjustofnum að halda, eftir því sem verkefni þeirra vaxa. Í grunnskólafrv., sem er til meðferðar á hv. Alþ. nú, er gert ráð fyrir því, að landshlutasamtökin fái mjög aukin verkefni, sem koma til með að kosta fé. Eitt með öðru, sem kallar á nauðsyn þess að festa þau í sveitarstjórnarl., eru ýmsar fyrirætlanir, sem uppi eru, eins og t.d. í grunnskólafrv.

Þá talaði hæstv. félmrh. um fjármál sveitarfélaganna, sem mér sýnist ekki koma þessu máli beint við, en ég get ekki stillt mig um að fara um það nokkrum orðum. Hann las hér upp eða gerði samanburð á tekjustofnum nokkurra sveitarfélaga fyrir og eftir breytingu á tekjustofnal. í fyrra og vildi með því sanna, hversu miklu betri hagur þeirra væri nú en verið hefði áður. Mér er fyllilega ljóst, að það er hægt að taka dæmi um ýmis sveitarfélög, sem hafa haft hag af breytingunni, sem gerð var í fyrra. En það er á sama hátt hægt að taka dæmi um önnur, sem hafa farið mjög illa út úr þessari breytingu. Það er líka aðfinnsluvert við þennan samanhurð hjá hæstv. ráðh., að það er ekkert tillit tekið til þess, að gífurlegar hækkanir hafa orðið á öllum framkvæmdakostnaði á milli ára, það er öllum ljóst. Það er ekki heldur tekið tillit til þess, að fyrir breytinguna á tekjustofnal. höfðu flest þessi sveitarfélög ekki notað allar álagsheimildir, en núna eru þau öll í toppi. Það eru allar álagsheimildir nýttar til hins ítrasta og samt nást ekki saman endar.

Ég skal nefna örfá dæmi um sveitarfélög hér í næsta nágrenni, sem hafa farið mjög illa út úr þessari breytingu. Þau dæmi eru öll úr Reyknkjd. Grindavíkurhreppur hafði samtals út úr sínum tekjustofnum 1971 30,5 millj. kr., 1972 26,2. Hafnahreppur, sem er lítið sveitarfélag með innan við 200 íbúa, hafði tæplega 3,2 millj. 1971. Hann hækkar aðeins í 3,4, um 200 þús. kr. Miðneshreppur, sem er sveitarfélag með um 1.000 íbúa, hafði 18,7 millj. 1971, 17,6 1972. Gerðahreppur hafði 10,4 1971, 9,6 1972. Njarðvíkurhreppur hafði liðlega 62 millj. kr. 1971, en fer niður í 34,4 1972. Vatnsleysustrandarhreppur stendur í stað með 5,6 millj. Þetta eru dæmi, sem segja allt aðra sögu en þau dæmi, sem hæstv. félmrh. nefndi.

Þá talaði hæstv. félmrh. um það, að samþykktir landshlutasamtakanna væru ósamhljóða. Ég nefndi í ræðu minni um daginn, að það hefði verið unnið að því að undanförnu að samræma þessar samþykktir, en ég tek það skýrt fram, að ég sé enga ástæðu til þess að vera að steypa þær allar í sama mótið. Hvað með bæjarmálasamþykktirnar? Þær eru alls ekki samhljóða. Ég veit ekki betur en hæstv. félmrh. hafi staðfest í fyrra nýja bæjarmálasamþykkt fyrir Kópavogskaupstað, yngsta kaupstaðinn, og sú samþykkt er í verulegum atriðum frábrugðin bæjarmálasamþykktum annarra kaupstaða. Hvað gerði hæstv. ráðh. til þess að samræma bæjarmálasamþykktina öðrum? Það er engin ástæða til þess að gera mikið veður út af þessu, þó að samþykktir landshlutasamtakanna séu ekki allar steyptar í sama mótið. Það er eðlilegt, að þetta fari eftir aðstæðum í hverjum landshluta og heimamenn fái þarna nokkurt svigrúm og fái að ráða.

Ég held, að það sé ekki ástæða fyrir hæstv. ráðh. að vera með þær úrtölur, sem þeir voru með hér á fimmtudaginn var. Ég fullyrði, að skoðanir þeirra eru í andstöðu við óskir og vilja sveitarstjórnarmanna. Það hafa komið fram margar áskoranir til Alþ. um að samþykkja þetta frv. eins og það er úr garði gert og afgreiða það á þessu þingi. Því vænti ég þess, að þeir láti af andstöðu sinni og vinni að því, að þetta mál fái afgreiðslu nú á þessu þingi.