31.10.1972
Neðri deild: 8. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 472 í B-deild Alþingistíðinda. (255)

32. mál, loðna til bræðslu

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er vissulega að sumu leyti nýmæli í fiskveiðimálum Íslendinga, þar sem nú á að fela þriggja manna n. með tilheyrandi skrifstofubákni í Reykjavík að stjórna einum þætti þeirra, þ.e. loðnuveiðunum á komandi vetri. Á ég hér aðallega við 2. og 3. gr. frv. Þeir, sem fylgzt hafa með útgerð hér á landi þekkja án efa nokkur undantekningardæmi, þar sem útgerðarmaður hefur ætlað sér þá dul að stjórna veiði skipa sinna úr landi. Þetta hefur aldrei heppnazt, en ávallt skapað ágreining og leiðindi milli sjómanna og útgerðarmanna og orðið báðum aðilum til tjóns og ama. Reynslan hefur örugglega fært útgerðarmönnum heim sanninn um það, að hagkvæmast er að láta sjómenn sjálfa ákveða veiðarnar óhindrað og án afskipta aðila úr landi. Og ég er alveg sannfærður um, að skrifstofubákn í Reykjavík, sem á að hafa yfirstjórn þessara mála, verður mjög illa liðið af sjómönnum, auk þess sem slík ráðstöfun og frv. gerir ráð fyrir gæti í vissum tilfellum beinlínis orðið til þess að stofna lífi sjómanna í hættu alveg að óþörfu, og ættu stjórnvöld sannarlega ekki að gera sér leik að slíku. Mun ég víkja nánar að þessu atriði síðar.

Ég skal viðurkenna, að ekkert er óeðlilegt við það, þó að ákvæði 1. gr. frv. séu fest í lög eða reglugerð, en hún mælir svo fyrir, að fiskimjölverksmiðjum, sé skylt að taka við afla skipa í þeirri röð, sem þau koma til hafnar. Þessu ákvæði frv. er vel hægt að una og sýnist ekkert óeðlilegt, því að vitað er, að sumar verksmiðjur, sérstaklega þær, sem gera út skip til loðnu- og síldveiða, hafa gefið eigin skipum og þeim skipum öðrum, sem þær telja sig hafa einhverra hagsmuna að gæta hjá, nokkurn forgang um löndun, og hefur þetta af eðlilegum ástæðum valdíð óánægju hjá útgerðarmönnum og sjómönnum þeirra skipa, sem sett hafa verið til hliðar. En einmitt það ákvæði 1. gr., að röð skipa skuli ráða losun á afla þeirra, er gert óvirkt með ákvæðum 3. mgr. 2. gr., en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ef fleiri fiskiskip æskja löndunar í verksmiðju en móttökugeta hennar leyfir, skal n. ákveða hvaða fiskiskip hafi heimild til löndunar í verksmiðjunni og um löndunarröð þeirra, þrátt fyrir ákvæði 1. gr.“.

Þetta þýðir, að ef 10 skip leggjast að bryggju hjá einhverri verksmiðju og hún getur ekki tekið á móti afla nema 5 skipa, getur n. ákveðið, að 10. skipið, en ekki skip nr. 1 skuli fá löndun. Er vandséð, til hvers verið er að lögfesta ákvæði 1. gr. frv., ef n. á svo að hafa frjálsar hendur með að brjóta þá reglu, sem þar er ákveðin, ef henni sýnist svo. Ákvæði 1. gr. munu vera til komin vegna þess, að á því hefur borið undanfarnar vertíðir, sérstaklega hjá verksmiðjunum hér við Faxaflóa, að þær hafi viljað ráða því, úr hvaða skipum þær tækju afla, ef farið hefur verið að þrengjast um móttökurými. Mér er tjáð, að nokkuð hafi einnig borið á þessu hjá verksmiðjum á Austurlandi, en þó mun minna. Aftur á móti tóku fiskimjölsverksmiðjurnar í Vestmannaeyjum upp þá reglu á s.l. loðnuvertíð að taka við afla skipanna í þeirri röð, sem þau komu að landi, og höfðu heimabátar þar engan forgang, sem óneitanlega olli nokkurri óánægju hjá þeim, alveg sérstaklega þegar þeir ráku sig á það síðari hluta vertíðar, eftir að loðnuveiðarnar færðust vestur með landi og vestur fyrir Reykjanes, að þá voru Vestmannaeyjabátar settir hjá við löndun. Ég endurtek, að ég tel ákvæði 1. gr. frv. eðlilegt að fenginni reynslu undanfarinna ára og ekki eigi að brjóta það niður með ákvæðum 3. mgr. 2. gr., og beri að fella það ákvæði niður jafnt og önnur ákvæði 2. og 3. gr.

Ég sagði áðan, að ég mundi víkja nánar að aðstöðu sjómanna í sambandi við þá heimild, sem 2. gr. frv. gefur hinni fyrirhuguðu n. til þess að ákveða að senda skip milli hafna. Ég tel þetta ákv. frv. vægast sagt mjög hæpið og ég er næsta undrandi yfir og tel það mikinn ábyrgðarhluta að setja nokkra n. í þá aðstöðu að ætla henni að ákveða, að þetta eða hitt skipið skuli færa sig milli hafna, en aftur annað skip, sem kannske síðar hefur komið inn í röð til löndunar hjá einhverri verksmiðju, skuli frekar fá löndun. Við getum vel ímyndað okkur, hvernig því yrði tekið af sjómönnum. ef þeir fengju fyrirmæli um það frá einhverri skrifstofu í Reykjavík, að þeir ættu að flytja sig, t.d. frá Þorlákshöfn eða Vestmannaeyjum, og sigla skipinu fyrir Reykjanes til Faxaflóahafna, alveg burtséð frá því, hvernig ástatt væri fyrir skipinu eða hversu hlaðið það væri kannske í misjöfnu veðri. Og ég spyr: Vill nokkur n. taka á sig þá ábyrgð að gefa skipstjóra fyrirmæli um að sigla fyrir Reykjanes, einhverja verstu sjóleið við Ísland, í misjöfnu veðri með drekkhlaðið skip, og hvernig færi og á samvizku hvers hvíldi það, ef sú ógæfa henti, að skip, sem vegna fyrirmæla frá skrifstofunni í Reykjavík, yrði að færa sig milli hafna og hlekktist eitthvað á á þeirri leið eða týndist? Það má mikið vera, ef nokkur n. væri þess umkomin að hafa slíkt á samvizku sinni. Ég held, að í slíkum tilfellum verði það að vera á valdi skipstjóra að meta allar aðstæður og ákveða sjálfur, hvort hann vill bíða eftir löndun eða sigla skipi sínu áfram til annarra hafna, þar sem löndun er möguleg, og gera þá að sjálfsögðu þær ráðstafanir, sem hann telur sjálfur nauðsynlegar, en stjórnskipuð n. í Reykjavík gefi honum ekki fyrirmæli.

Loðnuveiðar verða án efa stundaðar af kappi á næstu vertíð eins og áður, og ef skipum hefur verið tryggt, að þau öðlist rétt til löndunar í þeirri röð, sem þau koma í höfn, á ekki að neinu leyti að binda hendur skipstjóra þeirra, hvað þeir vilja gera eða hvert þeir vilja sigla, ef aðstæður eru ekki fyrir hendi í þeirri höfn, sem næst þeim er. Þeir einir hafa aðstöðu til að dæma um það, hvað bezt og skynsamlegast er að gera undir slíkum kringumstæðum. Af þessum ástæðum tel ég ákvæði 2. gr. frv. óþörf.

Í 3. gr. er að finna ákvæði um, að sjómenn skuli að sínum hluta eins og útgerðarmenn og fiskkaupendur greiða kostnað af n. og þeirri skrifstofu, sem hún kann að setja upp. Það er ekki nóg með, að taka eigi ákvörðunarrétt af skipshöfninni um það, hvert hún undir vissum kringumstæðum siglir skipi sínu, heldur á hún líka að greiða stjórnunarkostnaðinn af kaupi sínu. Ég tel annað útilokað en allur kostnaður við fyrirhugaða n., ef hún verður sett á stofn, og skrifstofu hennar verði greiddur úr ríkissjóði. Ég tel þó eðlilegast, að ákvæði 3. gr. frv. verði felld burt jafnt og ákvæði 2. gr.

Ef lesnar eru aths., sem frv. fylgja, kemur enn betur í ljós en sjá má af sjálfum gr. frv., hver hinn raunverulegi tilgangur með framlagningu frv. er. Þar segir m.a. með leyfi hæstv. forseta:

„Á undanförnum árum hafa skapazt vandræði í sambandi við löndun á loðnu til bræðslu, sérstaklega þó síðustu loðnuvertíð. Er það hagsmunamál bæði fiskseljenda og kaupenda, að til slíkra árekstra komi ekki.“ Og við þetta er bætt: „Þá ber að líta til þess, að þjóðhagslega getur verið hagkvæmt að stöðva löndun og beina fiskiskipum til annarra löndunarhafna“.

Hið fyrra atriði, varðandi löndunina sjálfa, leysist fullkomlega með ákvæðum 1. gr. frv., og þarf raunverulega engu þar við að bæta.

Hið síðara atriði, að það sé þjóðhagslega hagkvæmt að stöðva löndun á einum stað og senda skipið til annarra hafna, skýrir raunverulega, hvað fyrir n. þeirri vakir, sem samið hefur frv. Hún vill sjáanlega gefa n. þeirri, sem skipuleggja á löndunina, vald til þess að senda skip til fjarlægari löndunarhafna, þó að löndunaraðstaða sé í námunda við eða nær veiðisvæði skinanna. Þetta þýðir, að t.d. á meðan loðnuveiðar fara fram á austursvæðinu. er ætlazt til, að n. hafi heimild til þess að ákveða, ekki einasta á hvaða höfn á Austurlandi skipið landi afla sínum, heldur einnig, að skipin skuli send t.d. til Vestmannaeyja eða Þorlákshafnar, alveg burtséð frá því, hvort löndunaraðstaða er hjá nærliggjandi verksmiðju austanlands. Nákvæmlega sama gildir, þegar veiðarnar fara fram miðsvæðis. Einnig þá vill n. fá heimild til þess samkv. skýringum í grg, að senda skipin fram hjá Vestmannaeyjum eða Þorlákshöfn og til hafnar við Faxaflóa, þó að löndunaraðstaða sé enn fyrir hendi á hinum tveimur fyrrgreindu stöðum. Ég tel það alllangsótt, að slíkar ráðstafanir geti talizt þjóðhagslega hagkvæmar. Hagkvæmast hlýtur að vera fyrir sjómenn og útgerðarmenn, að skipin landi hverju sinni sem næst veiðisvæðinu. Það liggur í augum uppi, að slíkt hlýtur að gefa meiri heildarafla og sjómönnum meiri tekjur. Og áfram segir í grg. frv. með leyfi hæstv. forseta:

„Skipulag það og tilhögun, er lýst er í 2. gr. frv., kemur því aðeins til, að um svo mikinn afla sé að ræða, að hætta sé á vandræðum vegna óhóflegrar samkeppni og/eða hagkvæmt sé að jafna loðnumagni milli verksmiðja til að tryggja þeim verkefni.“

Ég endurtek síðasta málsliðinn: „eða hagkvæmt sé að jafna loðnumagni milli verksmiðja til að tryggja þeim verkefni.“ Þetta segir sína sögu og segir raunverulega tilgang 2. gr. frv. N. á sem sé að fá heimild til að senda skipin fram hjá nærliggjandi löndunarstað, þó að löndunarmöguleikar séu þar, til fjarlægari hafna til að jafna loðnumagninu milli verksmiðja til að tryggja verksmiðjum nokkurn veginn jafnt hráefni. Það má vel vera, að þetta sé hagsmunamál verksmiðjanna, en það stangast örugglega á við hagsmuni sjómanna og útgerðarmanna og er þjóðhagslega séð óhagkvæmt að mínu mati.

Það er enn eitt atriði, sem kemur fram í grg. frv., en ekki frv. sjálfu, en í grg. segir, með leyfi hæstv. forseta: „N. ber ekki ábyrgð á greiðslugetu einstakra fiskkaupenda, þótt fiskseljandi verði að hlíta tilhögun laganna og stjórn n.“ Ég verð að segja, að það hljóta að teljast allharðir kostir, ef með lögum á að skylda seljendur til að selja vöru sína til ákveðins aðila, sem þeir kannske vantreysta að geti greitt fyrir hana, án þess að stjórnvöld, sem fyrirskipunina gefa, beri nokkra ábyrgð þar á. Og ég segi: Erum við ekki farin að nálgast einokunartímabilið gamla, ef menn eiga ekki lengur að vera frjálsir með, til hvaða aðila þeir beina viðskiptum sínum í þessu tilfelli? Ég vil að endingu segja þetta: Ég tel eðlilegt að setja reglugerð eða lögfesta, ef með þarf, ákvæði 1. gr. frv. um, að skip skuli eiga jafnan rétt á að landa afla sínum í þeirri röð, sem þau koma til hafnar. Ég tel þetta ákvæði nægja til að koma í veg fyrir þau vandkvæði, sem fram komu við löndun loðnuaflans á síðustu vertíð, annað þurfi þar ekki að koma til, og því séu ákvæði 2. og 3. gr. óþörf, a.m.k. sé ástæða til að láta reynsluna í vetur skera úr um, hvort svo sé ekki.

Að lokum vil ég geta þess, af því að það kemur ekki fram í grg. frv. og kom ekki heldur fram í framsögur. hæstv. sjútvrh. að það er langt í frá, að samstaða sé innbyrðis hjá þeim aðilum, sem um mál þetta hafa fjallað. Hjá stjórn Landsambands ísl. útvegsmanna var málið afgreitt þannig, að af 14 stjórnarmönnum, sem mættir voru á fundinum, greiddu 5 atkv. meðmálinu, tveir voru á móti, en 7 greiddu ekki atkv. Þetta segir einnig sína sögu um álit útvegsmanna á þessu atriði. Mér er einnig kunnugt um, að bein og ákveðin andstaða er hjá sumum félögum skipstjórnarmanna og sjómanna gegn málinu, og kæmi mér ekki á óvart, þótt sjómannasamtökin í heild tækju upp andstöðu við málið, þegar þau hafa áttað sig á tilganginum með flutningi frv. og þeim heimildum, sem fyrirhuguð n. á að hafa til þess að grípa inn í störf þeirra við veiðarnar, sem eðli málsins samkvæmt hlýtur að vera eðlilegast og hagkvæmast, að sé óskert í þeirra höndum. Ég vil geta þess, að þm. Suðurl. barst í dag bréf frá Skipstjóra- og stýrimannafél. Verðanda í Vestm.eyjum, og þykir mér hlýða að lesa það hér upp, eins og það er, með leyfi hæstv. forseta, en bréfið hljóðar þannig:

„Skipstjóra- og stýrimannafélagið Verðandi mótmælir harðlega fram komnu frv. til l. um loðnulandanir. Eins og allir vita, sem þessar veiðar hafa stundað, þá er loðna einn sá alhættulegasti farmur, sem fiskiskip flytja að landi, og þarf fyllstu aðgæzlu til. Með nefndu frv. eru ráðin um löndunarstað algerlega tekin af skipstjórum loðnubátanna og fengin í hendur 3 manna n., sem á að hafa aðsetur í landi. Með þessum ráðstöfunum álitum við, að upp sé kominn gífurleg slysahætta, þar sem þessi n. getur aldrei fylgzt eins vel með veðri og öðrum aðstæðum eins og skipstjórarnir gera. Þar að auki kemur ekki fram í ofangreindu frv., hvort nm. þurfi að hafa nokkurt vit á þessum málum. Teljum við fullnægjandi, að gefin sé út reglugerð, sem kveði á um, að landa skuli úr loðnubátum í verksmiðjurnar á hverjum stað í þeirri röð, sem þeir komi til hafnar.

Þá lýsir félagið undrun sinni yfir vali manna þeirra, er sömdu þetta frv., þar sem enginn maður var valinn í hana frá Vestmannaeyjum, þar sem nær helmingi loðnuaflans hefur verið landað undanfarin 3 ár, og bendir það óneitanlega til þess, að frv. þetta hefur ekki átt að greiða fyrir loðnubátum, heldur verksmiðjum þeim, sem lítið loðnumagn hafa fengið undanfarin ár.“

Ég skal geta þess til þess að fyrirbyggja allan misskilning, að ég hef ekki haft samband við þetta stéttarfélag og bréfið er ekki nein pöntun frá mér, heldur er það sent að eigin frumkvæði eftir þeirra fundarsamþykkt.

Ég vil enn á ný að allra síðustu vekja athygli hv. alþm. á þeirri hættu, sem af því getur stafað, og þeirri ábyrgð, sem stjórnvöld taka á sig, ef einhverri skrifstofu hér í Reykjavík er gefin heimild til þess að taka raunverulega ráðin af skipstjórnarmönnum með því að veita tiltekinni n. vald til að gefa þeim bein fyrirmæli um, að viðlögðum sektum í ríkissjóð, að þeir skuli, e.t.v. á móti vilja sínum, færa kannske yfirhlaðin skip sín á milli hafna, og það jafnvel á hinum hættulegustu siglingaleiðum við strendur landsins. Ég held, að það sé bezt fyrir hv. Alþingi að þurfa ekki að gefa neitt slíkt umboð og að affarasælast sé, að allar ákvarðanir um siglingar skipanna séu í höndum skipstjórnarmannanna sjálfra. Þeir þekkja skip sín bezt og vita, hvað þeir mega bjóða þeim, og eru dómbærastir um að meta allar aðstæður.

Hæstv. sjútvrh. vildi í framsögu sinni áðan draga nokkuð úr því valdi, sem hann telur að frv. veiti þeirri n., sem frv. kveður á um að eigi raunverulega að stjórna löndun skipanna, og ákvæði 2. gr. verði því aðeins virkt, að ekki séu möguleikar á móttöku hjá þeim verksmiðjum, sem næst eru skipunum, þegar þau sigla til lands til löndunar á afla sínum. Ég tel, að ef lesin er grg. frv., komi það greinilega fram, þar sem talað er um, að það sé þjóðhagslega hagkvæmt að jafna aflanum á milli hinna einstöku verksmiðja, hvað n., sem samdi frv., hefur í huga. Ég tel, að þetta komi alveg ótvírætt í ljós, ef talað er við einstaka nm., eins og ég hef átt kost á að gera. Þeir fara ekkert dult með það, að 2. gr. frv. er fyrst og fremst ætlað það hlutverk að jafna loðnuaflanum á milli verksmiðjanna þannig, að verksmiðjurnar geti sem flestar farið í gang nokkurn veginn samtímis. Og ég segi, — ef þetta er rétt, eins og ég tel að grg. frv. gefi ákveðna bendingu um, og þeir menn hafa látið í ljós sem sína skoðun, er sömdu frv., — að þá erum við komnir hér inn á allhættulega braut gagnvart sjómannastéttinni. Ef það á eftir að gerast, að hægt verði að gefa skipum, sem eru fyrir Suðausturlandi eða miðsvæðis fyrir Suðurlandi, fyrirmæli um að sigla fram hjá löndunarstöðum, sem gætu tekið á móti afla þeirra, og til hafna við Faxaflóa, þá hygg ég, að það sé bezt fyrir Alþingi að hafa aldrei veitt neinni n. umboð til að gera slíkar ráðstafanir. Og ég endurtek, að 1. gr. muni leysa úr þeim vanda, sem skapast kann á næstu vertíð og hefur reyndar skapazt áður, og að ákvæði 2. gr. og 3. gr. séu gersamlega óþörf.