31.10.1972
Neðri deild: 8. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 477 í B-deild Alþingistíðinda. (256)

32. mál, loðna til bræðslu

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Þar sem nokkuð er nú komið yfir venjulegan fundatíma þessarar hv. d., skal ég ekki vera mjög langorður að þessu sinni, en ég tel rétt strax við l. umr. þessa máls hér í d. að koma á framfæri þeim aths., sem ég hef við þetta frv. að gera.

Það er sjálfsagt alveg rétt, sem hæstv. ráðh. sagði hér áðan, að það hafa ýmsir örðugleikar komið upp í sambandi við loðnulöndun hér á Suðurlandssvæðinu á síðustu loðnuvertíð, og mér finnst ekkert óeðlilegt við það, þó að reynt sé að koma á hana skipulagi, sem er framkvæmanlegt innan skynsamlegs ramma.

Meginatriði þessa frv. er, að sett verði á fót n., sem sjái um skipulag á þessum þætti, og ég get sagt það strax, að ég tel það eðlilegt og æskilegt og hef ekkert við það að athuga, þótt slík n. væri sett á stofn til þess að sjá um, að verksmiðjur, sem tækju á móti loðnu til bræðslu, afgreiddu skipin eftir þeirri röð, sem þau kæmu til hafnar. En það, sem fyrst og fremst stingur mig í augu í þessu frv. eru þau skýlausu ákvæði, sem ég tel, að það feli í sér, að þessi n. fái vald til þess að skikka skip til þess að sigla milli hafna, kannske landshorna á milli, ef henni býður svo við að horfa. Ég hygg, að það sé öllum ljóst, að þarna er um að ræða farm, sem er hvað hættulegast að spila með. Einnig kemur það til. að þarna er um að ræða árstíma, sem flestra veðra er von.

Ég vil því ekki á þessu stigi máls taka á mig þá ábyrgð, sem í því fælist að veita slíkri 3 manna nefnd í landi, — þó svo að hún væri skipuð hinum valinkunnustu mönnum, — veita henni vald til þess að ákveða slíkt einhliða, auk þess sem þarna er verið að skerða ákvörðunarvald viðkomandi skipstjóra. Að mínu mati getur með þessu verið stofnað til stórkostlegrar slysahættu.

Þetta er það meginatriði, sem ég tel að þurfi að nema burt úr frv. Ég heyrði það á hæstv. ráðh. hér áðan, að hann er ekki alls kostar ánægður með frv., eins og það er, og hann orðaði það svo, að hann teldi æskilegt að breyta 2. gr. og gera þessar reglur sem frjálsastar. Ég er út af fyrir sig ánægður með það.

Auk þessa meginatriðis, sem ég er andvígur, að fela 3 manna n. í landi algjört ákvörðunarvald undir vissum tilfellum til að skikka skip til að sigla á milli hafna, þá er í öðru lagi það ákvæði frv., sem ég tel óeðlilegt, ef slíkt skipulag yrði tekið upp og slík n. sett á laggirnar, sem hefði þetta vald og skikkaði skip til þess að fara á ákveðna löndunarhöfn, en engin bæri ábyrgð á því, að viðkomandi aðilar fengju greiðslur fyrir aflann. Ef ríkisvaldið tekur sér það vald í hendur að skikka menn til þess að landa á ákveðnum höfnum gegn vilja þeirra kannske, þá tel ég, að það sé lágmarks krafa á hendur ríkisvaldinu, að það standi ábyrgt fyrir greiðslu aflans. Það horfir allt öðruvísi við, ef skipstjórarnir sjálfir ákveða kannske í samráði við útgerð, að þeir skuli fara á þessa höfn, en svo geti viðkomandi aðili ekki staðið við greiðslu. Þarna er verið að taka þetta vald af viðkomandi aðilum, ríkisvaldið gerir það, og þá á það að mínu viti að taka á sig þær skuldbindingar, sem af því getur leitt, m.a. þessar.

Ég skal ekki fjölyrða um þetta frekar að þessu sinni. Ég á sæti í þeirri n., sem kemur til með að fjalla um þetta frv., en ég vil að síðustu ítreka, að ég tel það mjög varhugavert, og trúi því vart, að ríkisvaldið og þm. almennt vilji taka á sig þá ábyrgð, sem af því getur leitt, ef slík n. yrði sett á laggirnar með því valdi, sem þetta frv., eins og það liggur nú fyrir, gerir ráð fyrir. Ég vil ekki gera það, og ég tel mjög vafasamt, að þm. almennt vilji taka þá ábyrgð á sínar herðar. sem því getur fylgt að gera slíkt.