06.04.1973
Efri deild: 84. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3089 í B-deild Alþingistíðinda. (2560)

231. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Með þessu frv. er gert ráð fyrir einni breyt. á l. um fiskveiðasjóð, og hún varðar tekjur sjóðsins. Gert er ráð fyrir því, að fiskveiðasjóður fái auk þeirra tekna, sem hann hefur nú samkv. lögum, 1% af andvirði útfluttra sjávarafurða frá 1. júlí á þessu ári að telja og til ársloka 1975. Gjald þetta er miðað við þetta framleiðslutímabil, þ.e.a.s. útfluttar sjávarafurðir, sem framleiddar eru á tímabilinu frá 1. júlí 1973 til 31. des. 1975. Auk þess er lagt til, að ríkissjóður leggi fiskveiðasjóði jafnhátt framlag og þessu nýja útflutningsgjaldi nemur. Gert er ráð fyrir því, að á ársgrundvelli geti hér verið um að ræða útflutningsgjald, sem nemi í kringum 150—160 millj. kr., og mundi þá framlag ríkissjóðs nema sömu fjárhæð. Er hér þá um að ræða nýjar tekjur til handa fiskveiðasjóði sem nema rúmlega 300 millj. kr., á þessu tímabili, þ.e.a.s. á árunum 1974 og 1975 og að hálfu á árinu 1973. Lagt er til að afla þessara nýju tekna til fiskveiðasjóðs vegna þess, að verkefni sjóðsins hafa aukizt mjög mikið að undanförnu, eins og öllum hv. þdm. er kunnugt.

Nú stendur yfir mjög mikil endurnýjun fiskiskipaflotans í landinu, sem kallar á stóraukin lán úr sjóðnum. Þó að tekin séu allmikil erlend lán með þeim skipum, sem byggð eru erlendis, verður fiskveiðasjóður eigi að síður að koma þar nokkuð til, þar sem hann tekur yfirleitt að sér að lengja hin erlendu lán og verður því að bæta við þau lán, sem þannig eru tekin. Auk þessa hafa svo lánveitingar út á innanlandssmíði fiskiskipa farið mjög ört vaxandi. Það má segja, að allar skipasmíðastöðvar í landinu hafi haft fullt verkefni nú um nokkurt skeið og muni væntanlega hafa áfram, en af því leiðir, að lánveitingar út á ný fiskiskip, sem smíðuð eru innanlands, hækka verulega frá því sem verið hefur. Í þriðja lagi aukast svo útlán fiskveiðasjóðs mjög mikið vegna endurbyggingar frystihúsa eða meiri háttar endurbóta á frystihúsum landsmanna, og er þar um mjög mikla aukningu að ræða í útlánum. Sem dæmi um útlán fiskveiðasjóðs má nefna það, að heildarútlán sjóðsins voru á s.l. ári rúmlega 1.200 millj. kr., en á yfirstandandi ári er reiknað með, að heildarútlán sjóðsins verði í kringum 1.600—1.700 millj. kr. Þar af eru lánveitingar vegna fiskvinnslustöðvanna í kringum 500 millj. kr.

Ég veit, að það þarf ekki að fara um það mörgum orðum við hv. þdm.. það liggur svo augljóst fyrir, að þörf er á því að auka við tekjur fiskveiðasjóðs, svo stór verkefni sem hann glímir nú við, og af þeim ástæðum er þetta frv. lagt fram. Frv. er mjög einfalt og þarf því ekki langra útskýringa við. Það kemur því miður seint fram á þinginu, og verður því að vænta þess, að sú þn., sem fær málið til athugunar, greiði fyrir afgreiðslu þess og hv. þm. stuðli að því, að frv. nái fram að ganga á þessu þingi, svo þýðingarmikið, sem það er fyrir starfsemi fiskveiðasjóðs.

Herra forseti. Ég legg til, að frv. gangi til hv. sjútvn. að lokinni þessari umr., og sé ekki ástæðu til þess að orðlengja hér frekar um málið á þessu stigi.