06.04.1973
Efri deild: 84. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3105 í B-deild Alþingistíðinda. (2565)

231. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Umr. hafa nú staðið nokkuð lengi um þetta mál, sem ráðh. undirstrikaði þó, að ætti að vera samstaða um, en sjálfur hefur hann notað langmestan tímann, svo að ég ætla hér að fjalla um málið í nokkrum orðum.

Í 1. gr. er fjallað um tekjuöflun sjóðsins og í c-lið er bætt inn þessu nýja ákvæði: „1% af fob.—verði útfluttra sjávarafurða. Skal gjald þetta reiknað á sama hátt og annað útflutningsgjald af sömu vöru, og skal það reiknað af sjávarafurðum, sem framleiddar eru á tímabilinu 1. júlí 1973 til 31. desember 1975“. Það er því um tímabilsbundið gjald að ræða, eins og kom fram í ræðu hæstv. sjútvrh. og hann undirstrikaði. Ég skildi svo tölu hans einnig, að þetta kæmi inn í heildarmyndina, þannig að það yrði einnig dregið frá við fiskverðsákvörðun. Ég skildi það einnig svo í sambandi við skiptakjör. Ef þetta er ekki réttur skilningur, þarf það að undirstrikast á einhvern annan veg. Einnig kemur fram í d-lið: „til viðbótar framlagi sjóðsins samkvæmt c-lið greiðir ríkissjóður honum jafnháa fjárhæð árlega“, en í grg. kemur fram, að í frv. um útflutningsgjald af sjáfarafurðum, sem nú liggur fyrir hv. þingi, lækkar þetta hlutfall, sem fiskveiðasjóður hefur haft, enn og mun verða sem næst 9.4%, og hér er auðvitað verið að koma í veg fyrir þessa þróun. Þetta frv. á að gefa sjóðnum auknar tekjur. Það hefði verið ósköp eðlilegt, þegar við vorum að fjalla um útflutningsgjaldið, að okkur hefði verið gerð grein fyrir því í sama mund, hvað þetta þýddi fyrir fiskveiðasjóð. Einnig hefði verið eðlilegt, að hér fylgdi með í grg., hvað mikið af skipum væri í smíðum innanlands, því að ef ég man rétt, nefndi hæstv. ráðh., að fjármögnun fyrir innanlandssmíði væri rétt um 700 millj. þetta þýðir í sjálfu sér ekki mörg skip, ef hér er um skutsmíðuð skip að ræða. Hins vegar getur þessi tala dreifzt á mjög marga, ef um mjög ólíka samsetningu flotans er að ræða.

Þá kem ég að mjög mikilvægu atriði í sambandi við þessa fjármögnun. Það er rétt í sjálfu sér, að útvegsmenn hafa ekki kvartað undan þessu kerfi, sem er orðið, ef ég man rétt, 50 eða 60 ára gamalt, þessari kvöð hjá þeim sjálfum að leggja nokkuð af mörkum í sjóðinn, sem endurlánaði þeim svo með góðum kjörum, en hafa skipzt á að vera 20 ár, niður í 13 ár og svo aftur núna 20 ár. En það, sem hefur oft staðið í mönnum, er að mismuna mönnum í lánakjörum. Aðalreglan hefur verið 75% á innanlandssmíði og 67% á erlenda smíði, eins og ráðh. undirstrikaði, að ætti að vera fast og tryggt, og ég er honum alveg sammála í því efni. En út frá þessari reglu hefur stundum verið brugðið og skip keypt til landsins með miklu betri kjörum en önnur og einnig smíðuð hér innanlands skip, sem hafa fengið mun betri lánskjör en önnur, jafnvel án gengisálags. Þetta er óeðlilegt, og ég hef gagnrýnt þetta áður hér á Alþ. og einnig í samtökum útvegsmanna. Vegna hvers er þetta óeðlilegt? Vegna þess, að gjaldið er tekið af öllum jafnt, hver sem dregur fiskinn úr hafinu. Hann verður að borga gjaldið þegjandi og hljóðalaust. Þá á ekki að mismuna mönnum mjög úr sama sjóði í lánum. Hins vegar, ef þarf að hjálpa til vegna annarra aðstæðna við innlenda skipasmíði, þá ber að leita eftir þeirri aðstoð eða þeim möguleikum á öðrum vettvangi. Það er mín skoðun. Og ég skil hæstv. ráðh. mjög á sama veg, ef ég hef skilið orð hans rétt áðan, þannig að þess sé gætt í fiskveiðasjóði, að hann haldi sér við sínar grundvallarreglur og láni út 75% á innanlandssmíði og 67% við innkaup á skipum smíðuðum erlendis.

En nú vil ég í leiðinni spyrja, af því að hér átti sér stað samþykkt á frv. með mjög skjótum hætti og ég fékk aldrei svör við því, þó að ég spyrði um það: Hvað varð um þessa 10 milljarða, sem voru teknir að láni nokkru fyrir áramót? Hvernig skiptust þeir? Fóru þeir óskiptir í það að borga japönsku togarana út, eða fékk fiskveiðasjóður eitthvað til endurláns, og hvernig hefur því fjármagni verið ráðstafað? Einnig segir í skýrslu, sem var að koma rétt í þennan mund, um framkvæmda- og fjáröflunaráætlun fyrir árið 1973, að það sé gert ráð fyrir, að sjóðurinn taki lán innanlands og erlendis. Þetta kann allt að verða nánar skilgreint, þegar við ræðum þessa skýrslu í hv. deild, en ef það liggur fyrir hjá hæstv. ríkisstj., hvernig þessi skipting fer fram, teldi ég eðlilegt, að það kæmi a.m.k. fram í n. það er ekki víst, að hæstv. ráðh. geti svarað því nú með þessum stutta fyrirvara, en það er a.m.k. eðlilegt, að við fáum um það glöggar hugmyndir, hvernig sjóðurinn ætlar að fjármagna sig með lántökum innanlands og erlendis. Erlendri lántöku fylgir auðvitað ákveðin gengisáhætta, og segir á bls. 2, að árleg fjáröflun til fiskveiðasjóðs sé ekki meiri en svo, að eigið fé sjóðsins minnki stöðugt í hlutfalli við útlánin. Þetta getur auðvitað ekki haldið áfram. Við erum allir sammála um það. Fari svo, getur sjóðurinn ekki starfað, nema þeim forsendum sé fullnægt með aukinni tekjuöflun eða aukinni lántöku. Og þá skiptir miklu máli, hvort lánin koma af innlendum eða erlendum peningamarkaði. Nú segir áfram á bls. 2, að reiknað sé með 10% aukningu útflutningsverðmæta á næstu tveimur árum. Þetta er auðvitað spádómur, sem enginn veit um til né frá, hvernig muni rætast, hvort þetta er magnaukning, sem skiptir miklu máli, eða verðmætisaukning vegna gengis krónunnar, sem skapar bylgjuhreyfingu í aukna fjármagnseftirspurn og skapar því ekki raunhæfar tekjur að mínu mati, því að þá vex eftirspurnin jafnhratt. Sé hins vegar um magnaukningu að ræða, sem ég vildi vænta, að ætti sér stað, vegna landhelgisútfærslunnar og margs annars, er hér um hreina nettótekjuaukningu að ræða fyrir ríkissjóð og fiskveiðasjóð.

Ég hef raunverulega ekki mjög miklar áhyggjur af þessu aukna álagi á ríkissjóð nú, þegar upplýst er, að loðnuvertíðin muni gefa 2.2—2.4 milljarða óvænta tekjuaukningu í heild. Samkv. meðaltekjuöflun ríkissjóðs af útfluttum sjávarafurðum eða tolltekjum eru það réttir 24 aurar af hverri kr., svo að þarna fær ríkissjóður nokkur hundruð millj. óvænt, og verði honum að góðu, þörfin er mikil. En áfram er beitt 15% niðurskurðinum alls staðar þar, sem hægt er. Ég held, að fjmrh. hafi ekki dregið neitt úr þeirri siglingu enn þá eða rifað seglin í því efni þrátt fyrir betra útlit.

En eitt hefur ekki komið fram hér, sem skiptir miklu máli í þessu sambandi: Hver er möguleiki fyrir togarana, sem kalla á svona geysilega aukna eftirspurn í fjármunum? Hver er möguleiki til að standa í skilum gegnum stofnfjársjóðskerfið, sem fyrrv. ríkisstj. kom á? Ég fullyrði, þrátt fyrir hörð átök ýmissa manna, sem ég ætla ekki að fara að rifja hér upp, að það er fiskveiðasjóði til mikilla heilla. Endurnýjun skipaflotans er trygging þess, að föst innheimtuprósenta komi jafnan til fiskveiðasjóðs í gegnum stofnfjársjóð. Það er mjög mikilvægt, að það sé svo. Ef það kemur í ljós, að togararnir með núverandi ákvæði hafi enga möguleika til að standa í skilum með þeirri prósentu, sem fylgir innlögðu fiskverði í dag, gæti vel hugsazt, að það þyrfti að endurskoða það hlutfall. Það getur ekki verið eðlilegt og sanngjarnt, að það séu lagðar stórálögur á marga aðra í útveginum, sem einnig hafa verri lánakjör en þessi hluti flotans og er einnig gert að greiða miklu meira inn í sjóðinn. Það er ekki eðlilegt. Og hvernig fer þá hjá þessum nýja, stóra flota, sem þegar á þessu ári og komandi ári kallar á milljarðaeftirspurn í lánum, ef 10% ákvörðun á innanlandssölu og 16% ákvæðið á erlenda sölu gerir þeim enga möguleika til að standa í skilum og vanskil hrannast upp? Auðvitað verður það verkefni viðkomandi ríkisstj. hverju sinni að leysa vandann. En ég trúi því ekki, að þetta frv. hafi verið sett fram og greiðsluáætlun samin af fiskveiðasjóði eða í Framkvæmdastofnun ríkisins öðruvísi en þessu vandamáli hafi verið velt fyrir sér samtímis. Ég trúi því varla. Ég fer fram á það, að við getum fengið það a.m.k. í n., ef hæstv. ráðh. getur ekki svarað því á þessu stigi málsins.

Einnig er mjög fróðlegt að vita um það, hver arðsemi vissra hópa bátaflotans hefur verið og hver skilasemi í gegnum stofnfjársjóðskerfið, því að það liggur mjög vel fyrir. Að gefnu tilefni get ég sagt það, að um einn hóp báta sagði lögfræðingur fiskveiðasjóðs ekki fyrir löngu, að ef við förum af stað með innheimtu vegna vanskila, þá er kippa til af þessum flota til sölu eða í snörunni. Þeir hafa þó notið mjög mikilla og betri lánskjara en margir aðrir, og þetta er alvarlegt mál. Það skiptir nefnilega mjög miklu máli, þegar um fjármögnun af almenningseign er að ræða og með kvöð á útveginn, hvernig peningum er ráðstafað aftur. Það skiptir mjög miklu máli. Það er allt annað sjónarmið, sem á að ríkja í því sambandi, en bara hugsa um það eitt að útvega ákveðnum hóp manna atvinnu við ákveðna iðngrein. En þetta er flókið vandamál. En það er þess eðlis og viðkvæmt, að eðlilegt er, að það sé athugað í leiðinni við slíka afgreiðslu sem hér á sér stað, þegar við erum að leggja kvaðir á ríkissjóð, sem gætu numið, ef vel árar, um 140—180 millj. fram yfir það, sem verið hefur, á næstu tveimur árum.

Í eðli sínu deilir enginn um það, að stofnfjársjóðirnir verði að hafa trygga fjármögnun, það er ekki deiluatriði í þessu tilfelli. En hæstv. ráðh. sagði, að á sínum tíma hefðu þeir séð mörg stór frv. svipuð þessu koma fram á síðustu stundu. Hann nefndi ekki eitt einasta dæmi. Fyrst hann hefur dæmi um mörg frv. af svipuðum tagi, mætti hann nefna 2—3, svo að við sæjum, hvaða sannleiksgildi fælist í þessum orðum. En hvað sem því líður, þá eru með þessu frv. lagðar meiri kvaðir á sjávarútveginn sem heild. Það eru líka lagðar meiri kvaðir á sjávarútveginn með hafnal., sem við munum væntanlega afgreiða innan skamms í hv. d. og hafa komið frá Nd. Menn hafa deilt um, hve stór tala fælist í þeirri afgreiðslu. Hún er örugglega á 2. hundrað millj. Síðan eru auknar tryggingar, sem á venjulegu skipi nema orðið hundruðum þús. á áhöfnina. Þó að ótrúlegt sé, er tryggingin orðin svona mikil. En það er gott og vel, ef sjávarútvegurinn þolir þetta án áfalla og án þess að ríkissjóður þurfi að hlaupa undir bagga, ef afli er rýrari en gerist í meðalári. En það er ekki skynsamlegt að hafa ekkert svigrúm til, ef á bjátar, við íslenzkar aðstæður, því að það kemur fyrr eða síðar fram, að hér eru það miklar sveiflur til sjávar og til lands varðandi tíðarinnar og annað árferði, að við megum alltaf búast við einhverjum erfiðleikum í rekstrinum, án þess að við þurfum nokkuð að kenna misgóðri ríkisstj. eða missnjöllum ráðh. Þetta kemur og þetta gerist, og þá er það slæmt, að öllu sé eytt það ört, að ekkert sé lagt til hliðar, þar til miður árar.

Annað atriði, sem snertir þessa fjármögnun mjög, var vátryggingakerfið, og var það eitt af atriðum í málefnasamningi hæstv. ríkisstj., að það skyldi endurskoðað. En þar á sér stað gífurlegur tekjuflutningur á milli manna, sem nemur mörgum tugum millj., án þess að nokkurn tíma komist á hreint, hvernig þeim málum sé háttað, því miður. Þetta er gamalt kerfi og verður engum einum kennt um til eða frá. En þetta loðir við og heldur áfram og hefur heldur velt upp á sig en hitt, því miður. þrátt fyrir það að reynt hefur verið að hamla á móti því með aukinni eigin áhættu hjá skipunum, þá er það alveg sama. Það er staðreynd, að þessi góðu aflaskip leggja svo að nemur 1—2 millj., jafnvel yfir 2 millj., á borð með öðrum í viðbót við alla aðra skatta, sem teknir eru af þeim, bara í gegnum þetta eina kerfi, og þykir mörgum sæmileg skattheimtan. En þetta kemur hvergi fram. Þetta er tekið þegjandi og hljóðalaust í öllu kerfinu. Þetta mun auðvitað halda áfram, þegar um prósentutölu er að ræða. Hér kemur fram í grg. á bls. 2, að fiskvinnslustöðvar hafa fengið nokkuð á fjórða hundrað millj. í lánum, og ég skil þetta kerfi allt þannig, að lánakvöðin liggi raunverulega ekki á þeim, hún liggi á frumöflun. Vegna hvers? Vegna þess að þau gjöld, sem allt þetta kerfi býður upp á, hvort sem það er þetta gjald til fiskveiðasjóðs eða annað, eru dregin frá, áður en fiskverð er endanlega ákveðið til skipta. Það þýðir það, að ef einhver tala er 100, þá er þessum gjöldum safnað saman, og hvort sem þau eru 5 í hlutfalli eða 15, eru þau dregin frá, og til uppskipta kemur síðan afgangurinn. Eftir verður aðeins hlutur öflunarinnar, þ.e.a.s. áhafnar og útgerðar, og það má alltaf hlaða á hann. Það er eins og megi alltaf hlaða á hann, hvernig sem árar, og hann eigi að geta velt sér áfram hikstalaust. En þetta er varhugavert, og það hlýtur einhvern tíma að koma að þeim mörkum, að hann kiknar undan því og hefur ekkert, ef misferst í árferði. Þá er hlaupið til og sagt: Klaufar, óforsjálir menn, þeir verða að leita á náðir ríkissjóðs. — Þennan söng þekkjum við allvel hér í sölum Alþ., þjóðin einnig, og gerir það að verkum, að færri og færri vilja starfa að öflun við sjávarútveg á Íslandi, því miður. Þó að hæstv. sjútvrh. hafi e.t.v. fundizt ég fara nokkuð út fyrir aðalefni þessa frv., þá er þetta raunverulega allt tengt, eins og honum er mætavel kunnugt um. Ég er ekki að deila á efni frv. út af fyrir sig eða hann persónulega. Það er öðru nær. En ég undirstrika, að þetta mál er það stórt og viðamikið, að ánægjulegra hefði verið, ef við hefðum fengið meira en eina viku til umráða um svona mál og til þess að fjalla um það í n. og athuga ýmsar hliðar þess. Það hefði verið miklu ánægjulegra.