06.04.1973
Efri deild: 84. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3113 í B-deild Alþingistíðinda. (2573)

59. mál, veiting ríkisborgararéttar

Frsm. (Björn Fr. Björnsson) :

Herra forseti. Til þess að flýta fyrir afgreiðslum í málum eins og þessu, sem hér liggur fyrir um ríkisborgararétt, hefur jafnan áður verið venjan, að formönnum allshn. þd. hefur verið falið ásamt skrifstofustjóra Alþ. að athuga frv. og umsóknir, sem því hafa fylgt, og síðan umsóknir um ríkisborgararétt, sem síðar hafa borizt n. Sams konar málsmeðferð hefur einnig verið viðhöfð nú. Að frumathugunum loknum tók allshn. hv. þd. málið fyrir og hefur orðið sammála um að leggja til, að frv. verði samþykkt með þeim breytingum, sem hún hefur gert á því, og eru þær á þskj. nr. 532.

Reglur þær, sem farið er eftir í þessu efni, voru settar á sínum tíma í nál. árið 1955, og hefur síðan verið farið eftir þessum reglum með vissum breytingum, og voru þær einnig nú hafðar til hliðsjónar við athuganir. Það er kannske rétt, að ég lesi upp þessar reglur. Þær eru fáar og stuttar:

„1. Umsækjandi hafi óflekkað mannorð og sé að áliti tveggja valinkunnra manna starfhæfur og vel kynntur, þar sem hann hefur dvalizt.

2. Útlendingar, aðrir en Norðurlandabúar, skulu hafa átt lögheimili hér á landi í 10 ár, Norðurlandabúar í 5 ár.

3. Karl eða kona, sem giftist íslenzkum ríkisborgara, fái ríkisborgararétt eftir þriggja ára búsetu frá giftingu, enda hafi hinn íslenzki ríkisborgari haft ríkisborgararétt ekki skemur en 5 ár.

4. Erlendir ríkisborgarar, sem eiga íslenzkan ríkisborgara að foreldri, skulu fá ríkisborgararétt eftir þriggja ára búsetu, ef annað foreldri er Norðurlandabúi, annars eftir 5 ár.

5. Íslendingar, sem gerzt hafa erlendir ríkisborgarar, fái ríkisborgararétt eftir eins árs búsetu í landinu.

6. Íslenzk kona, sem misst hefur ríkisfang sitt við giftingu, en hjónabandinu er slitið og hún hefur öðlazt heimili hér, fái ríkisborgararétt á fyrsta dvalarári hér, enda lýsi hún yfir, að hún ætli að dveljast áfram í landinu. Sama gildir um börn hennar, sem hafa ekki náð 16 ára aldri og henni fylgja.“

Þetta eru þær meginreglur, sem farið er eftir við athugun á umsóknum um ríkisborgararétt. Og eins og ég sagði, mælir allshn. með því, að þeim umsækjendum, sem taldir eru upp í brtt. n. á þskj. 532, verði nú veittur íslenzkur ríkisborgararéttur. Þessir nýju ríkisborgarar eru 35 talsins. Það hefur komið í 1jós, að enginn þessara umsækjenda hefur sætt neinum þeim viðurlögum hér á landi, sem gætu hindrað, að honum yrði veittur íslenzkur ríkisborgararéttur.

Þá vil ég geta þess, að í 2. gr. frv. er tekið efni 2. gr. laga um sama efni frá í fyrra, sem er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú fær maður, sem heitir erlendu nafni, íslenzkt ríkisfang að lögum, og skal hann þá taka sér íslenzkt fornafn. Börn hans skulu taka sér íslenzk nöfn samkv. lögum um mannanöfn.“