06.04.1973
Efri deild: 84. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3122 í B-deild Alþingistíðinda. (2591)

79. mál, hafnalög

Frsm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Hér er um að ræða nýjan endurskoðaðan lagabálk um hafnalög. Hann hefur verið alllengi í undirbúningi og var sýndur hér á síðasta þingi, en málið náði þá ekki fram að ganga. Síðan hefur enn nokkur endurskoðun farið fram á þessum lagabálki, og hafa m.a. í meðferð hv. Nd. verið gerðar allmargar breytingar á frv., fyrst og fremst til þess að koma til móts við óskir Sambands ísl. sveitarfélaga.

Það er nú svo örstutt um liðið, frá því að hæstv. samgrh. gerði nákvæma grein fyrir þessu frv. hér í þessari hv. d., að ég sé ekki ástæðu til þess að fara ítarlega út í efnisatriði frv. En það, sem liggur að sjálfsögðu til grundvallar flutningi þessa frv., er hin ákaflega erfiða rekstrarafkoma og greiðslustaða hafnanna í landinu, sem víða er svo slæm, að það má segja, að það sé að sliga viðkomandi bæjarfélög. Þær úrbætur, sem frv. gerir ráð fyrir á þessum miklu erfiðleikum, sem mörg sveitarfélög eiga við að etja í sambandi við sín hafnamál, eru þær, að breytt er styrkjahlutföllum, þ.e.a.s. því, sem ríkið greiðir, og því, sem sveitarfélögin greiða. T.d. má segja, að það sé aðalbreytingin, að bryggjur og viðlegukantar, sem áður nutu aðeins 40% ríkisstyrks, fá nú 75%, og er ætlað, að meðaltalskostnaðarþátttaka ríkissjóðs hækki úr rúmum 60% í um það bil 72—74%. En þó er enn haldið eftir nokkrum af þeim þáttum, sem ríkissjóður greiddi aðeins 40% af, þ.e.a.s. þeim sama hlutfallskostnaði greiddum af ríkinu, og það eru dráttarbrautirnar, sem þar eru þýðingarmestar.

Þá gerir frv einnig ráð fyrir því, að Hafnabótasjóður verði efldur, og er gert ráð fyrir því, að til hans renni frá ríkissjóði 12% af árlegum framlögum ríkissjóðs á fjárl. til hafnarmannvirkja og lendingarbóta, en framlagið verði þó aldrei lægra en 25 millj. kr.

Loks er svo í ákvæðum til bráðabirgða gert ráð fyrir sérstökum ráðstöfunum til þess að bæta úr brýnustu neyð ýmissa þeirra bæjarfélaga, sem eiga í mestum erfiðleikum vegna þungra lána, sem á þeim hvíla vegna hafnarframkvæmda, og læt ég mér nægja að vísa til þess, sem þar segir um þau efni.

Þá er gert ráð fyrir því, að hafnargjöld verði endurskoðuð og samræmd, og má ætla, að það bæti einnig verulega hag hafnarsjóðanna.

Þetta eru helztu atriðin í frv., og ég má segja, að í hv. Nd. hafi orðið fullt samkomulag um málið að lokum með þeim brtt., sem þar voru samþykktar. Það var einnig svo í hv. samgn. þessarar d., að það náðist fullt samkomulag um málið. Þó áskildu einstakir nm. sér rétt til þess að fylgja eða flytja brtt. En það er sem sagt till. samgn., að frv. verði samþykkt.